Föstudagur, júní 21, 2024
HeimFréttirAlþjóðafréttirÖflug fræðslumót leiðtoga í Rótarý

Öflug fræðslumót leiðtoga í Rótarý

Nýlega voru haldin í Vilníus í Litháen fræðslumót fyrir starfandi umdæmisstjóra og einnig fyrir viðtakandi umdæmisstjóra á Rótarýsvæðum 15 og 16 en innan þeirra eru Norðurlöndin og fleiri lönd í norðanverðri Evrópu. Mótin sóttu af hálfu Rótarýumdæmisins á Íslandi þau Garðar Eiríksson, núverandi umdæmisstjóri, og Anna Stefánsdóttir, viðtakandi umdæmisstjóri 2019-2020.

Barry Rassin, alþjóðaforseti Rótarý, tók þátt í störfum fræðslumótsins og vakti mikla athygli fyrir skelegga framgöngu og hvatningarorð um framtíðarþróun Rótarý. Á myndinni er Barry Rassin með íslensku þátttakendunum, þeim Önnu Stefánsdóttur og Garðari Eiríkssyni.

Anna Stefánsdóttir, hefur skrifað eftirfarandi grein til fróðleiks fyrir íslenska rótarýfélaga:

Fræðslumót viðtakandi umdæmisstjóra Rótarý 2019-2020

Fræðslumót fyrir viðtakandi umdæmisstjóra á svæðum 15 og 16 var haldið í Vilníus dagana 12. og 13. september s.l.  Anna Stefánsdóttir, viðtakandi umdæmisstjóri, sótti fræðslumótið. Á svæðum 15 og 16 eru auk Íslands, Noregur, Danmörk, Svíþjóð, Finnland, Pólland, Eistland, Lettland, Litháen og Rússland. Umdæmin á svæðunum eru 31.

Fræðslumótið var afar efnismikið og áhugavert. Umræða um breytingar einkenndi fræðslumótið.  Miklar breytingar hafa orðið í öllum samfélögum á undanförnum árum og margir voru þeirrar skoðunar að Rótarýhreyfingin hafi ekki tekist á við þessar breytingar, hún sé að mörgu leyti stöðnuð og að ímynd hennar sé í samræmi vð það.   Barry Rassin, alþjóðaforseti, var sérstakur gestur fræðslumótsins.  Honum var tíðrætt um að Rótarýhreyfingin yrði að leggja gamlar hefðir til hliðar,  „núverandi skipulag var mikilvægt  á sínum tíma, en nú eru nýir tímar og Rótarý verður að vera virkur þátttakandi í breytingum í sínu nærsamfélagi, í sínu landi og heiminum öllum“, sagði Barry Rassin.   Mikilvægt er að Rótarýklúbbar og hreyfingin í heild endurspegli nútíma samfélög m.a. til að geta staðið vörð um stefnu sína í mannúðarmálum og haldið úti því mikla starfi sem unnið er í dag og svo hreyfingin geti mætt framtíðar áskorunum.

Vantar fleiri konur og ungt fólk

Þá var fækkun félaga og félagaþróun rædd á fræðslumótiniu.  Fækkun félaga er staðreynd í mörgum löndum og félagaþróun er ábótavant.  Margir klúbbar endurspegla ekki nærsamfélagið sem þeir starfa í hvað varðar t.d. samsetningu félagahópsins, en þar vantar sárlega fleiri konur og ungt fólk.  Þessu verður að breyta og voru viðtakandi umdæmistjórar hvattir til að setja sér markmið varðandi fjölgun kvenna sérstaklega,  en einnig að breyta ímynd sinni svo klúbbar höfði meira til yngra fólks.  Konur eru einungis 21% af Rótarýfélögum á svæðum 15 og 16 og ungt fólk 4%. Konur og yngra fólk eru mjög virk á öllum sviðum atvinnulífsins svo hvers vegna ekki í Rótarý?

Viðfangsefnin rædd í vinnuhópi.

Mörgun spurningum var velt upp:  Hversu sveigjanlegur er klúbburinn þinn? Hversu vel er hann þekktur í nærsamfélaginu? Hversu virkur er hann, hver er kynjaskiptingin og svo mætti lengi telja.

Á fræðslumótinu var farið vel yfir Rótarýsjóðinn, hvernig honum er skipt og hver eru helstu verkefni hans.

Mikilvæg markmið fræðslumótsins 

Markmiðið með fræðslumóti fyrir viðtakandi umdæmisstjóra er fyrst og fremst að þeir
þekki skyldurnar sem á þeim hvíla í störfum sínum sem umdæmisstjórar, að þeir þekki leiðirnar sem þeir geta nýtt sér á þeirri vegferð.  Einnig er lögð áhersla á að kynnast öðrum umdæmisstjórum og leiðtogum innan svæðanna og utan.  Ekki síst er markmiðið með fræðslunni að hvetja til virkrar þátttöku í störfum Rótarýhreyfingarinnar og að láta rödd Rótarý heyrast hvar sem við erum.

Viðtakandi umdæmisstjórar og fyrirlesarar á fræðslumótinu.

Það var sérstaklega ánægjulegt að hitta Rótarýfélaga frá öðrum löndum, ræða við þá um starfið í þeirra klúbbum og umdæmum. Mér gafst tækifæri til að hlusta nokkrum sinnum á alþjóðaforsetann; hann hefur sérstakan hæfilega til að snerta fólk með orðum sínum og hvetja til góðra verka.

Anna Stefánsdóttir, viðtakandi umdæmisstjóri 2019-2020.

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum