Á fundi í Rótarýklúbbi Héraðsbúa, þar sem umdæmisstjóraskipti fóru fram sl. laugardag, tilkynnti Guðmundur Björnsson, fyrrum umdæmisstjóri, um tilnefningu Ómars Braga Stefánssonar, Rkl. Sauðárkróks, í starf umdæmisstjóra fyrir starfsárið 2023-2024. Guðmundur er formaður valnefndar rótarýumdæmisins, sem gerir tillögur um skipan í þetta æðsta embætti Rótarý á Íslandi. Tilnefndur umdæmisstjóri tekur þegar til starfa í umdæmisráði og býr sig þannig undir verkefnið næstu tvö ár, áður en hann tekur við sjálfu embættinu.
Ómar Bragi Stefánsson fæddist á Sauðárkróki þann 2. júní árið 1957. Foreldrar hans voru þau Hrafnhildur Stefánsdóttir og Stefán Guðmundsson, alþingismaður. Ómar Bragi er kvæntur Maríu Björk Ingvadóttur, framkvæmdastjóra fjölmiðlafyrirtækisins N4. Saman eiga þau þrjú börn; Stefán Arnar, stjórnmálafræðing og kennara sem er búsettur í Svíþjóð. Ingva Hrannar, kennara og frumkvöðul og Ásthildi sem er í námi.
Ómar ólst upp á Sauðárkróki en fór ungur í nám til Reykjavíkur og síðan í Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni. Hann kenndi á Sauðárkróki í nokkur ár en flutti síðan ásamt Maríu Björk til Noregs þar sem þau bæði fóru í nám. Ómar hóf nám í útlitshönnun og var að því loknu ráðinn til höfuðstöðva IKEA í Svíþjóð þar sem hann starfaði við markaðsmál og uppbyggingu verslana IKEA í Evrópu.
Ómar og María fluttu síðan til Íslands þegar fyrsta IKEA verslunin var opnuð hér á landi og starfaði Ómar í stjórnunarteymi hennar í nokkur ár. Þá lá leiðin norður á Sauðárkrók þar sem hann tók við rekstri Skagfirðingabúðar sem er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga. Hann starfaði nokkur ár hjá Sveitarfélaginu Skagafjörður sem menningar-, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi. Árið 2003 hóf hann síðan störf hjá Ungmennafélagi Íslands og hefur starfað þar síðan. Hans stærstu verkefni hjá UMFÍ eru landsmót hreyfingarinnar, en þau eru nú um 25 talsins sem Ómar hefur stjórnað um land allt.
Ómar Bragi hefur alla tíð verið mikill félagsmálamaður og var ungur þegar hann tók fyrst sæti í stjórn Tindastóls. Hann hefur síðan verið viðloðandi félagið og var m.a. formaður knattspyrnudeildar Tindastóls í um 25 ár. Hann sat í stjórn Knattspyrnusambands Íslands og hefur tekið að sér mörg trúnaðarstörf fyrir íþróttahreyfinguna.
Ómar Bragi varð rótarýfélagi árið 2000. Hann var forseti Rótarýklúbbs Sauðárkróks 2007-2008 og Paul Harris félagi árið 2015. Ómar hefur verið öflugur liðsmaður Rótarýklúbbs Sauðárkróks og er hugmyndasmiður margra góðra verkefna. Eitt þeirra er jólahlaðborð, þar sem Rótarýfélagar á Sauðárkróki bjóða öllum Skagfirðingum til veislu í íþróttahúsinu. Þar er dekkað upp og skreytt og borðin svigna undan jólamat eins og hann gerist bestur. Allt er þetta ókeypis enda er fjölmenni sem mætir hverju sinni, eins og Guðmundur Björnsson nefndi m.a. í yfirliti yfir hin ýmsu störf og verkefni sem Ómar Bragi hefur annast.