Föstudagur, júní 21, 2024
HeimFréttirUmdæmisfréttirFræðslumót fyrir leiðtoga klúbba fór fram í Zoom-fjarfundagáttinni

Fræðslumót fyrir leiðtoga klúbba fór fram í Zoom-fjarfundagáttinni

Það urðu tímamót hjá Rótarý á Íslandi laugardaginn 29. ágúst, þegar haldið var rafrænt fræðslumót fyrir nýja forseta, ritara og gjaldkera rótarýklúbba, hið svokallaða PET-námskeið. Til stóð að halda mótið  sl. vor en því var frestað vegna sóttvarna í heimsfaraldrinum. Átti að efna til mótsins í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ og boða þangað embættismenn úr öllum klúbbum til heilsdags námskeiðs. Rafræni fundurinn á Zoom stóð hins vegar frá kl. 9.00 til 12.40 og sátu forsetar og ritarar við tölvubúnað í sinni heimabyggð. 

Soffía Gísladóttir, umdæmisstjóri Rótarý, ásamt nokkrum öðrum fulltrúum í umdæmisráði tóku þátt í fundinum frá skrifstofu Rótarý á Suðurlandsbraut 54. Áður en fræðslumótið hófst var unnið að prófun tæknibúnaðar og tengingu þátttakenda í klúbbum um allt land og erlendis. Nokkrir voru í sumarbústöðum sínum, einn dvaldist í Grikklandi, annar í Noregi. Og sums staðar komu nokkrir klúbbfélagar saman til að taka þátt og fylgjast með. Guðrún Högnadóttir leiðbeindi þátttakendum um notkun Zoom-tækninnar, sem veitir margvíslega möguleika til miðlunar tals og myndar af ræðumanni ásamt birtingu á glærum með ítarefni.

Vil setningu fræðslumótsins sagði Soffía Gísladóttir, umdæmisstjóri, meðal annars þetta: 

„Kæru félagar, við lifum á skrítnum tímum.

Það hefur verið flókið að gera áætlanir allt þetta ár og við sjáum ekki alveg fyrir endann á því strax. Það er söguleg stund í dag í 86 ára sögu Rótarý á Íslandi að halda rafrænt fræðslumót, en eftir margra mánaða þjálfun í netheimum eftir að Kófið skall á þá hef ég fulla trú á því að okkur takist að gera þetta á skemmtilegan og eftirminnilegan hátt. Tilgangur fræðslumótsins er að:

  • Að undirbúa embættismenn fyrir starfsárið.
  • Að veita embættismönnum, aðstoðarumdæmisstjórum og umdæmisstjóra tækifæri til að kynnast og vinna saman.
  • Að gefa góða heildarsýn á starfið í umdæminu sem og starfið á heimsvísu.

Með þetta í huga þá munum við nota þetta tæki, sem kallast Zoom, til þess að reyna að kynnast eins vel og mögulegt er í netheimum. Við verðum meira og minna öll í mynd á einhverjum tímapunkti þegar forsetarnir kynna sig og sína stjórn og svo mun ég varpa upp á skjáinn myndum af þeim einstaklingum sem eru að starfa fyrir umdæmið og eru ekki hér í dag.

Við fáum eitt erindi frá Noregi, frá Lenu J. Mjerskaug, en hún hefur langa reynslu við þjálfun leiðtoga innan Rótarý.

Ég mun fylgja fræðslumótinu vel eftir með heimsóknum mínum, sem nú þegar eru hafnar, og fara betur yfir málefnin og þar gefst líka betra tækifæri á spjalli.

Takk fyrir að vera hér í dag, takk fyrir að taka þátt í þessu skemmtilega ævintýri.“

Við upphaf fundar komu fulltrúar klúbbanna á skjáinn, röktu í stuttu máli þróun í sínum klúbbum og helstu viðfangsefni. Því næst tóku við stutt erindi.

„Leiðtoginn í Rótarý, frá rótarýklúbbi til alþjóðaforseta“ var yfirskrift pistils sem Lena J. Mjerskaug, fræðslufulltrúi Rótarý, flutti frá Noregi.

Þá ræddi Guðni Gíslason, kynningarstjóri Rótarý, um félagakerfin rotary.is og rotary.org og notkun þeirra. Rannveig Björnsdóttir fjallaði um leiðtogafræðslu, Einar Sveinjörnsson um Rótarýsjóðinn, Markús Örn Antonsson um tímaritið Rotary Norden, Knútur Óskarsson um verkefnasjóð Rótarýumdæmisins, Róbert Melax um Rotary Friendship Exchange vinaheimsóknir og Klara Lísa Hervaldsdóttir flutti stutt erindi um æskulýðsmál og nemendaskipti á vegum Rótarý.

Eftir stutt hlé var fræðsla um félagaþróun í rótarýklúbbunum. Þau atriði ræddu Gísli B. Ívarsson, formaður félagaþróunarnefndar, sem var staddur í sumarbústað, og Bjarni Þór Þórólfsson og Jón Karl Ólafsson. Þeir voru á skrifstofu Rótarý.

Í Neskaupstað. Áslaug Lárusdóttir, ritari rótarýklúbbsins þar og Vilborg Stefánsdóttir, forseti hans.

Á Sauðárkróki. Gunnar Björn Rögnvaldsson, gjaldkeri, Magnús Freyr Gíslason, ritari, Árni Ragnarsson, forseti.

Undir lok fræðslumótsins gerði Guðlaug Birna Guðjónsdóttir grein fyrir hlutverki aðstoðarumdæmisstjóranna en að endingu vék Soffía Gísladóttir, umdæmisstjóri, að áhersluatriðum varðandi hlutverk og ábyrgð forystufólks rótarýklúbbanna. Soffía tilkynnti einnig að dagskrá umdæmisþings á Akureyri hefði verið breytt vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. Þingið verður haldið hinn 10. október, með aðalfundarsniði. Forsetar klúbba verða viðstaddir auk forystu umdæmisins.

Var það mál manna að mjög lærdómsríkt hefði verið fyrir rótarýfólk heima í héraði, í klúbbum um allt land, að sameinast með þessum öfluga hætti á Zoom eina morgunstund. Sáu ýmsir sóknarfæri í þessari nýju tækni, sérstaklega fyrir klúbbana á landsbyggðinni.

Texti og myndir: Markús Örn Antonsson.

 

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum