Hinn 24. október leggur Rótarýhreyfingin áherslu á að kynna og efla „PolioPlus“ herferð sína gegn mænusótt/lömunarveiki í heiminum. Rótarýklúbbar eru hvattir til að fjalla um þennan mikilvæga þátt í starfi Rótarý á næstu fundum og auka framlög sín til baráttunnar. Víða um lönd efna klúbbar til söfnunarátaks meðal almennings. Rótarýfélagar eru einnig hvattir til að leggja sitt af mörkum persónulega með framlögum til „PolioPlus“ á My Rotary/Donate.
Rótarýhreyfingin hefur í meira en 35 ár unnið að því að uppræta lömunarveiki í heiminum. Takmark Rótarý um að losa heimsbyggðina við sjúkdóminn er nær en nokkru sinni fyrr. Sem stofnaðili Global Polio Eradication Initiative hefur Rótarý fækkað mænusóttartilfellum um 99,9 prósent frá fyrsta verkefninu við bólusetningu barna á Filippseyjum árið 1979.
Félagar í Rótarý hafa lagt til meira en 2,1 milljarð Bandaríkjadala og óteljandi sjálfboðaliða til að veita næstum þremur milljörðum barna í 122 löndum vernd gegn þessum lamandi sjúkdómi. Hvatning frá Rótarý hefur átt þátt í ákvörðunum stjórnvalda um að leggja meira en 10 milljarða dollara til átaksins.
Í dag er mænusótt enn landlæg í Afganistan og Pakistan. Þar er baráttunni haldið áfram og mikilvægt er að vinna markvisst að því að halda öðrum löndum lausum við sjukdóminn. Ef öll útrýmingarviðleitni yrði stöðvuð nú, gætu allt að 200.000 börn lamast á hverju ári innan næsta áratugar.
Í meðfylgjandi myndbandi minna íslenskir sérfræðingar í sóttvörnum á helstu áhersluatriði í baráttunni við lömunarveikina.