Rótarýklúbbur Rangæinga
STOCKHOLMS VÄSTRA

SAGA KLÚBBSINS

Saga Rótarýklúbbs Rangæinga

Fullgildingarhátíð klúbbsins var haldin í Félagsheimilinu Hvoli 19. júlí 1966.

Stofnun klúbbsins.  Þegar Haraldur Guðnason í Vestmannaeyjum var umdæmisstjóri 1964-1965 hreyfði hann þeirri hugmynd við forystumenn í Rangárþingi að stofna rótarýklúbb í Rangárvallasýslu. Hann kynnti hugmyndina  á fundi í Rótarýklúbbi Selfoss, sem leiddi til Þess að Selfyssingar buðu nokkrum mönnum úr Rangárþingi á rótarýfund.  Sverrir Magnússon lyfsali í Hafnarfirði  var umdæmisstjóri 1965-1966. Þegar hann heimsótti Rótarýklúbb Ólafsfjarðar síðsumars 1965 kom hann að máli við undirritaðan um að hafa forystu um að stofna rótarýklúbb í Rangárvallasýslu, en honum var þá kunnugt um að undirritaður hafði verið rótarýfélagi í 5 ár og gegnt forsetastörfum, en var nú á förum til starfa í Hvolsvelli. Undirritaður tók málaleitan Sverris vel og kvaðst hann mundi fara þess á leit við forseta R. I. að mér yrði falið að gangast fyrir stofnun rótarýklúbbs í Rangárvallasýslu. Í september, skömmu eftir að undirritaður fluttist í Hvolsvöll, hafði Sverrir samband og upplýsti að hann hefði óskað eftir því við forseta R.I. að rótarýklúbbur yrði stofnaður í Rangárvallasýslu.  Nokkrum vikum síðar barst  bréf frá forseta R. I. þar sem undirritaður var beðinn um að gangast fyrir stofnun klúbbsins. Í framhaldi af því hóf undirritaður undirbúning að stofnun hans og hafði samband við fjölmarga Rangæinga og kynnti þeim Rótarýhreyfinguna. Nokkrir höfðu komið á fund hjá Rótarýklúbbi Selfoss en enginn verið félagi í rótarýklúbbi. Þrátt fyrir það gekk undirbúningurinn vel og undirritaður boðaði yfir tuttugu manns til undirbúningsfundar, sem haldinn var í félagsheimilinu Hvoli í janúar 1966. Af þeim mættu rúmlega 20 sem flestir áttu eftir að verða stofnfélagar klúbbsins. Einnig mættu á fundinn nokkrir félagar úr Rótarýklúbb Selfoss sem var okkar móðurklúbbur. Þá komu til fundarins fjórir félagar úr Rótarýklúbbi Kópavogs og áttu þeir eftir að verða okkur hjálplegir við stofnun klúbbsins ásamt Selfyssingunum. Stofnfundur klúbbsins var svo haldinn í félagsheimilinu Hvoli 26. febrúar 1966. Þar var m.a. gengið frá stofnfélagaskrá með starfsgreinaheitum. Hún var send umdæmisstjóra og sendi hann hana til aðalskrifstofu R.I. en þar var hún samþykkt athugasemdalaust og fékk klúbburinn stofnbréfið dagsett 2. maí 1966.

Stofnfélagar voru 23 sem hér greinir: 

Björn Fr. Björnsson sýslumaður Hvolsvelli,  Einar Benediktsson tryggingaumboðsmaður Hvolsvelli, Garðar Björnsson bakarameistari Hellu,  Grétar Björnsson verslunarstjóri Hvolsvelli, Guðjón Jónsson frystihússtjóri Hvolsvelli, Gunnar Guðjónsson verkstjóri Hvolsvelli, Jón R. Hjálmarsson skólastjóri Skógum, Jón Þorgilsson fulltrúi Hellu, Jónas Magnússon bóndi Strandarhöfða, Karl Kortsson héraðsdýralæknir Hellu,

Matthías Pétursson skrifstofustjóri Hvolsvelli, Ólafur Ólafsson kaupfélagsstjóri Hvolsvelli, Ólafur Sigfússon málarameistari Hjarðartúni, Ólafur Björnsson héraðslæknir Hellu, Páll Sveinsson landgræðslustjóri Gunnarsholti, Pálmi Eyjólfsson sýslufulltrúi Hvolsvelli, Sigurður Jónsson bankaútibússtjóri Hellu, Skúli Þórðarson forstöðumaður Kornbrekku, Stefán Lárusson sóknarprestur Odda, Steinþór Runólfsson sæðingamaður Hellu, Sveinn Ísleifsson verslunarstjóri Hvolsvelli, Trúmann Kiristiansen skólastjóri Hvolsvelli, Þorlákur Sigurjónsson verkstjóri Hvolsvelli.


Fullgildingarhátíð klúbbsins var haldin í Félagsheimilinu Hvoli 19. júlí 1966.Fullgildingarhátíð klúbbsins
var haldin í Félagsheimilinu Hvoli 19. júlí 1966. Til hennar mættu allir félagar klúbbsins ásamt eiginkonum og mjög margir rótarýfélagar og konur frá öðrum rótarýklúbbum, flestir frá Selfossklúbbnum og  Rótarýklúbbi Reykjavíkur. Hátíðin hófst með því að umdæmisstjóri Sverrir Magnússon flutti ávarp og fór lofsamlegum orðum um stofnun klúbbsins og afhenti forseta fullgildingarbréfið ásamt innrammaðri mynd af Paul Harris stofnanda hreyfingarinnar. Síðan tóku til máls eftirtaldir fulltrúar frá rótarýklúbbum og fluttu árnaðaróskir og gjafir:  Frá Rótarýklúbbi Selfoss, Ingvi Eberhardsson og Sigurður Pálsson , frá Rótarýklúbbi Reykjavíkur, Tómas Tómasson, frá Rótarýklúbbi Vestmannaeyja, Þorsteinn L. Jónsson og frá Rótarýklúbbi Ólafsfjarðar Lárus Jónsson. Forseti klúbbsins þakkaði árnaðaróskir og góðar gjafir. Nokkrir félagar og gestir tóku til máls. Trúmann Kristiansen flutti kvæði kvöldsins. Listamennirnir Ólafur Einarsson og Anna Magnúsdóttir skemmtu með hljóðfæraleik, og að lokum var dansað af miklu fjöri. 


Fullgildingarhátíð klúbbsins var haldin í Félagsheimilinu Hvoli 19. júlí 1966.Klúbbstarfið.  
Fyrsta stjórn Klúbbsins var þannig skipuð: Forseti Ólafur Ólafsson, ritari Sigurður Jónsson, gjaldkeri Trúmann Kristjánsson, stallari Grétar Björnsson og varaforseti Ólafur Björnsson. 

Ákveðið var í upphafi að klúbburinn héldi fundi sína á fimmtudögum og hefur svo verið alla tíð. Oftast hafa þeir verið með kvöldverði í Félagsheimilinu Hvoli. Þar eru þeir haldnir enn og hefjast kl. 18.30. 

Eins og fyrr segir voru stofnfélagar 23. Félögum fjölgaði örlítið fyrstu árin og urðu flestir 26 árið 1970. Síðan hefur þeim fækkað og eru núna 14 og þar af tveir heiðursfélagar, þeir Jón Kristinsson og Matthías Pétursson, sem nú er fluttur í Garðabæ.   

Paul Harris félagar í klúbbnum eru Sveinn Runólfsson, Matthías Pétursson og Ólafur Ólafsson. Pálmi Eyjólfsson var einnig Paul Haris félagi en hann er látinn.  

Innra starf klúbbsins hefur ætíð verið fjölbreytt og þróttmikið. Vel hefur verið vandað til fundarefnis og árlega haldnir hátíðlegir jólafundir, fjölskyldufundir og  vorfundir. Þeir eru tengdir skoðunarferðum, skógrækt og landgræðslu.

 Á svonefndum lúpínufundum safna félagarnir lúpínurótum sem Ævar Jóhannesson hefur notar í jurtaseyði fyrir krabbameinsveikt fólk

Klúbburinn hefur gengist fyrir skemmtiferðum fyrir aldraða og efnt til skemmtanahalds með dagskrá og veitingum. 

Af æskulýðsstarfssemi er þess helst að geta, að klúbburinn hefur oft veitt nemendum verðlaun fyrir góðan námsárangur og frammistöðu í íþróttum. Hann hefur einnig veitt námsfólki styrki til utanlandsferða og tekið á móti og greitt götu námshópa frá erlendum rótarýumdæmum. 

Á 30 ára afmæli klúbbsins 1996 var  samþykkt að veita einstaklingi, fyrirtæki eða stofnun í Rangárvallasýslu viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í starfi eða námi á sviði menningar og lista. Viðurkenningin skal veitt á 5 ára fresti. Þrisvar er búið að veita þessi verðlaun, þeim Þórði Tómassyni í Skógum, Glerverksmiðjunni Samverk á Hellu og Mosfelli á Hellu.

Tveir umdæmisstjórar hafa verið kjörnir úr röðum klúbbfélaga.  Jón R. Hjálmarsson  var umdæmisstjóri 1977-1978. Þá stóð klúbburinn fyrir umdæmisþinginu 1978, sem haldið var á Þingvöllum og tókst mjög vel miðað við aðstæður. Sváfnir Sveinbjarnarson, umdæmisstjóri 1998-1999.  Sváfnir Sveinbjarnarson var umdæmisstjóri 1998-1999 og stóð klúbburinn  þá fyrir umdæmisþinginu 1999, sem haldið var í Holsvelli, og tókst það einnig vel og var mjög fjölmennt. 

 

Hvolsveli í maí 2008,

Ólafur Ólafsson.