Í gær, sumardaginn fyrsta, afhenti Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar sjúkradeild hjúkrunar- og dvalarheimilisins Hornbrekku í Ólafsfirði að gjöf súrefnisdælur, eða súrefnisvélar, tæki sem létta undir þegar sjúklingar þurfa að fá auka súrefni. Þannig tæki eru til á Hornbrekku en eru komin til ára sinna og börn síns tíma, eins og sagt er, og upp gæti komið sú staða að fleiri vélar þyrftu að vera til staðar. Fannst klúbbfélögum því tilhlýðilegt að vera vel undirbúin ef veirufaraldurinn myndi láta á sér kræla hér, en vitaskuld vonum við að það gerist ekki. En tækin eru a.m.k. til og nýtast, þó ekki komi til Covid 19 veiki.
Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar er stoltur af því að hafa og geta hlaupið undir bagga, þegar vantar eitthvað og þannig er nú þegar klúbburinn afhendir téðar súrefnisdælur/vélar. Þannig tæki eru uppseld í heiminum sökum veirufaraldursins, en við nældum þó í tvær og komu þær til landsins í gærmorgun, eftir nokkurra vikna bið frá því pöntunin var gerð.
Klúbburinn varð 65 ára gamall í síðustu viku og af því tilefni er gjöfin í minningu látinna félaga; sporgöngumannanna. Það er Rótarýdagsnefnd klúbbsins sem hefur frumkvæði að veitingu samfélagsstyrkja eða gjafa og gerir tillögur um það til klúbbfunda. Að jafnaði eru slíkir styrkir veittir einu sinni á ári, á Rótarýdaginn og hefur klúbburinn komið að fjölmörgum samfélagsverkefnum í gegnum árin.
Í ár varð að fella Rótarýdaginn niður sökum veirufaraldursins, en fyrsti sumardagur er kjörinn dagur til að útdeila gjöfum og styrkjum. Í mörgum samfélögum er nú á þessum undarlegu tímum verið að safna fyrir gjöfum til heimila aldraðra og heimilismanna á heimilum eins og Hornbrekku og vill klúbburinn hvetja fólk til að taka þátt í þeim verkefnum. Jafnt hér í samfélaginu okkar og í stærra samhengi.
Texti: K.H.G. Myndir: Alda María Traustadóttir.