Rótarý á Íslandi er þátttakandi í tveimur svokölluðum Global Grant hjálparverkefnum á þessu ári, sem eru vel á veg komin í undirbúningi og framkvæmd. Sex megináhersluatriði Rótarý í hjálparstarfi og þróunarmálum eru hreint vatn, hreinlætismál, barátta gegn sjúkdómum, stuðningur við lítil samfélög til sjálfsbjargar, friðarmál og mæðra- og ungbarnahjálp. Rótarýsjóðurinn styður fjölmörg verkefni á þessum sviðum vítt um heim. Öll stuðla þau á einn eða annan hátt að friði og betri heimi.
Gert er ráð fyrir að Rótarýsjóðurinn styrki um 1.300 Global Grant verkefni á þessu ári. Global Grant verkefni eru stærstu styrktarverkefni sjóðsins.
„Í fyrsta lagi höfum við lagt 10.000 USD í verkefnið Rotary Village í Kerala á Indlandi í samstarfi við umdæmi og klúbba á Indlandi,” segir Garðar Eiríksson, umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi. “Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður 155 þúsund USD. Um er að ræða uppbyggingu 20 smáhýsa á flóðasvæðinu í Kerala en síðastliðið haust urðu þar gríðarmikil flóð og margir misstu heimili sín. Með þátttöku í þessu verkefni leggjum við svolítið af mörkum til hjálpar þeim mörgu sem urðu heimilislausir og gerum vonandi heiminn eilítið betri. Áætlað er að okkar framlag dugi fyrir tveimur smáhýsum.”
Hitt verkefnið sem íslenska Rótarýumdæmið styrkir er í Nepal. Veittur verður búnaður fyrir mæðra- og barnaspítala í Dolakhahéraði. Í Nepal eiga konur oft við móðurlífsvanda að stríða eftir barnsburð og engin eða lítil heilbrigðisþjónusta er til staðar til að hjálpa þeim. Konur þessar sæta útskúfun og búa við mikla vanheilsu sem hægt er að koma i veg fyrir með réttri læknismeðferð.
„Því hefur verið stofnað til þessa verkefnis í samstarfi við hóp lækna sem lagt hafa fram starfskrafta sína en verkefnið sjálft snýr að því að fjármagna hjúkrunarvörur, lækningatæki, sjúkrarúm, hjólastóla o.fl.,”sagði Garðar. „Þá verða heimamenn einnig þjálfaðir til aðstoðar og hjúkrunar. Heildarkostnaður er áætlaður 255 þúsund USD og við leggjum fram 15.000 USD til þessa verkefnis. Bæði verkefnin eru á því stigi að búið er að staðfesta alla fjármögnun og Rótarýsjóðurinn er búinn að samþykkja sín framlög og milligöngu um greiðslur í takti við framvindu.”
Öll verkefni af þessum toga sæta miklu aðhaldi af hálfu Rótarýsjóðsins og er þess gætt til hins ítrasta að fjármunirnir nýtist til þeirra verka sem þeir eru ætlaðir. Þá eru einnig gerðar miklar kröfur um sjálfbærni verkefnanna.