Anna Stefánsdóttir, umdæmisstjóri, og Soffía Gísladóttir, verðandi umdæmisstjóri, hafa sent forystufólki íslensku rótarýklúbbanna erindi með hvatningu um þátttöku í hjálparverkefni á Indlandi vegna afleiðinga COVID-19 faraldursins. Bréf þeirra Önnu og Soffíu er svohljóðandi:
„Mikilvægi Rótarýhreyfingarinnar kemur berlega í ljós nú þegar kórónaveirufaraldurinn geisar um heimsbyggðina. Afleiðingar farsóttarinnar valda mörgum þjóðum miklum erfiðleikum, með auknu atvinnuleysi og skorti á nauðsynjum. Rótarýhreyfingin ákvað snemma í faraldrinum að veita styrki úr neyðarsjóði sínum til COVID-19 verkefna þ.e. til að takast á við afleiðingar farsóttarinnar. Margir klúbbar víða í heiminum hafa einnig lagt sitt af mörkum og aðstoðað við bjargir í sínu nærsamfélagi.
Eins og fram kom í fréttum RÚV í gærkvöld herjar farsóttin nú á Indlandi. Rótarýumdæmið hefur ákveðið að taka þátt í verkefni sem Rkl. Reykjavík International á frumkvæði að í samstarfi við rótarýklúbb í Chennaihéraði á Indlandi. Verkefnið snýst um að safna fé til matargjafa fyrir fátækar fjölskyldur og til kaupa á hlífðarbúnaði fyrir heilbrigðisstéttir. Chennaihéraðið hefur verið skilgreint rautt svæði, þar er útgöngubann og allt lokað. Þar er ekkert öryggisnet sem aðstoðar fólk sem missir vinnuna og fær því engin laun.
Bala Kamallakharan, félagi í Rkl. Reykjavík International er fæddur í Chennaihéraðinu. Hann þekkir þekkir því vel til og er í samstarfi við rótarýklúbb þar, Rotary Club of Madras Metro Chennai. Klúbburinn er fjölmennur og öflugur klúbbur og mun annast verkefnið í héraðinu. Samið hefur verið við fyrirtæki í Chennai um að útvega matargjafir. Fyrirtækið heitir Pudiyador og hefur einbeitt sér að fæðugjöfum undanfarnar vikur. Einnig hefur Rotary Club of Orange, í Orange County Californiu ákveðið að styrkja verkefnið. Sótt verður um styrk úr neyðarsjóði Rotary International og mun klúbburinn á Indlandi stýra verkefninu.
Umdæmisráð ákvað að biðja klúbbana í umdæminu að taka þátt í verkefninu og styðja þannig við bakið á Rkl. Reykjavík International, sem er einn minnsti klúbburinn í umdæminu. Við stefnum að því að leggja sameiginlega 15.000 USD (u.þ.b. 2.000.000 ísl.) í verkefnið. Markmiðið er að framlag klúbbanna verði 7.500 USD og að umdæmið leggi sömu upphæð á móti.
Styrkur klúbbanna gæti verið á bilinu 80.000-140.00 kr. allt eftir stærð og stöðu klúbbsins. Við treystum því að núverandi og verðandi stjórnir klúbbanna taki erindi okkar vel.
Vinsamlegast leggið inn á reikning umdæmisins 0526-26 -000334 kt: 610174 3969, og sendið kvittunina á netföngin rotary@rotary.is og bokjon@simnet.is.“