Laugardagur, 7. desember 2024
HeimFréttirRotary eClub of Iceland er nýr klúbbur sem stefnir þvert yfir landamærin

Rotary eClub of Iceland er nýr klúbbur sem stefnir þvert yfir landamærin

Rótarýklúbbarnir eru að hefja fundahöld að loknum sumarleyfum og afléttingu á takmörkunum sem þeir hafa verið háðir vegna Covid-19. Klúbbfélagar bíða þess óþreyjufullir að hittast að nýju við venjulegar kringumstæður og vonast til að óheft framhald verði á eðlilegu starfi klúbbanna.

Einn er sá klúbbur sem ekki mun hittast á tilteknum fundarstað heldur styðst áframhaldandi við rafræna fundi á Zoom. Það er hinn nýstofnaði Rotary eClub of Iceland, sem hóf starfsemi sína í netheimum fyrr á þessu ári og hefur farið myndarlega af stað með áhugaverðum erindum fyrirlesara og líflegum samskiptum milli klúbbfélaga í fimm löndum.

Fyrsti fundur e-klúbbsins eftir sumarhlé var haldinn í gær. Einar Sveinsson, flugstjóri, sem býr i Virginíu í Bandaríkjunum og er félagi í klúbbnum, flutti mjög fróðlegt erindi á Zoom um störf sín sem atvinnuflugmaður víða um heim og sýndi áhugaverðar myndir. Einar stundaði í nám í flugi og flugvirkjun í Tulsa í Oklahoma 1985-88 og hefur starfað á mörgum heimssvæðum. Hann vann m.a. fyrir Arnarflug á Íslandi. Um tíma flutti hann póst á flutningaþotum milli póstmiðstöðva í Bandaríkjunum en síðar meir flaug hann einkaþotum af ýmsum stærðum fyrir „fræga“ fólkið eins og Rolling Stones og kirkjuleiðtoga í Afríku. Nú starfar hann sem flugstjóri á einkaþotu athafnamanns í Sádí-Arabíu.

Hildur Bettý Kristjánsdóttir, sem býr í Cuxhaven í Þýskalandi, stjórnaði þessum fundi hjá Rotary eClub of Iceland. Hún gegndi lykilhlutverki við stofnun klúbbsins ásamt Pétri Bauer í Houston í Texas.

-Haustið 2020 hafði Soffía Gísladóttir, umdæmisstjóri, samband við mig og bað mig um að koma að stofnun e-rótarýklúbbs,“ sagði Bettý í samtali. „Kynningarfundur var í nóvember og síðan var farið af stað að auglýsa klúbbinn enn frekar á Facebook-síðum sem Íslendingar með búsetu erlendis tengjast. Strax í byrjun skráðu sig nokkrir í klúbbinn en svo fór að hægjast á. Ekki var næg þátttaka til að ná 20 manns til að stofna klúbbinn formlega. Í framhaldi af því var ákveðið að vera með opna, rafræna Rótarýfundi og voru félagar hvattir til að bjóða vinum og vandamönnum á þá. Í heildina vorum við með 8 opna fundi þangað til við náðum að stofna Rotary eClub of Iceland. Klúbburinn hefur Facebook síðuna: https://www.facebook.com/groups/865385240701897

-Er stefnt að því að hittast persónulega?

-Við höfum rætt það en fram að þessum tímapunkti höfum við meira verið að fjölga klúbbfélögum. Við höfum rætt að vera með skemmtanir á netinu, borða saman, fara í leiki og fleira.

 –Hvernig sérð þú klúbbinn þróast inn í framtíðina?

-Rótary eClub of Iceland er kominn til að vera. Íslendingar búa víðsvegar um heiminn og vilja tengjast öðrum Íslendingum. Við getum ferðast með klúbbinn okkar út um allan heim og tæknin gerir okkur það kleift, að við erum alltaf tengd. Nú hefst vinna okkar í klúbbnum við að móta hann og þróa og við gerum okkur grein fyrir því að hann verður með öðru sniði en aðrir klúbbar. Við vinnum þó alltaf eftir grunngildum Rótarý. Helsta áskorunin er að allir leggi sitt af mörkum þegar þeir mæta á fundi og fá tækifæri til að vera hluti af heild. Þar skiptir undirbúningur funda miklu máli og að við séum með ákveðnar samskiptareglur á netinu þannig að allir hafi tækifæri til að tjá sig. Það sem er svo magnað við þetta form er að við getum verið með fyrirlesara á skjánum hvaðan sem er úr heiminum. Markmiðið okkar er að eftir ár verði 40 klúbbfélagar í Rotary eClub of Iceland.

 

 

 

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum