Skipulagðar hafa verið tvær ferðir til suðurhluta Svíþjóðar í maí og júní nk. sem hluti af Rotary Friendship Exchange, eða Vinaheimsóknum Rótarý sem nýtur mikilla vinsælda innan Rótarý. Ferðirnar eru ætlarðar Rótarýfélögum og mökum þeirra og að jafnaði er farið í litlum hópum og gist á heimilum rótarýfélaga í móttökulandinu sem skipuleggur dagskrá dagana sem gestirnir dvelja í landinu.
Er verið að endurgjalda heimsóknir tveggja hópa rótarýfélaga og maka þeirra frá umdæmi 2400 í Svíþjóð í september og október 2019.
Ferðirnar til Svíþjóðar
- 25.-30. maí þar sem Róbert Melax, Rótarýklúbbum Landvættum er fararstjóri.
- 16.-20. júní þar sem Ragnar Ásmundsson í Rótarýklúbbi Akureyrar er fararstjóri.
Meðal staða sem eru heimsóttir eru Falkenberg, Halmstad og Karlskrona, allt áhugaverðir staðir að heimsækja.
Komdu með
Enn eru nokkur pláss laus í báðar ferðirnar og eru þeir sem áhuga hafa á að koma með hvattir til að hafa samband við Róbert Melax í sím 693 888.
Reiknað er með að þeir sem fara í fyrri ferðina hittist í Kaupmannahöfn 25. maí og gisti þar um nótt og fari svo morguninn eftir í lest til Svíþjóðar.
Akureyringarnir fljúga með Niceair frá Akureyri 16. júní.
„Það sem er hrífandi við að vera gestur í Rotary Friendship Exchange er að fá tækifæri til að fá innsýn í líf gestgjafanna, að fá tækifæri til að sjá landið með augum heimamanna en ekki bara augum ferðamannsins; sjá menningu og lifnaðarhætti, fara út úr okkar heimi og inn í einhvern annan heim. Að sama skapi er líka gefandi fyrir okkur sem gestgjafa að geta gefið gestum okkar tækifæri að sjá inn í okkar veröld. Okkur Íslendingum tekst oftast vel að heilla útlendinga af okkar landi og þjóð.
Við fáum tækifæri til að kynnast fólki úr öðrum menningarheimum. RFE eru bæði að gefa og þiggja; við erum ýmist gestir eða gestgjafar. Rótarýfélagar eru opið og áhugavert fólk sem auðvelt er að kynnast.
Tilgangur með RFE getur verð margvíslegur en eitt af markmiðum Rótarý með RFE er að stuðla að vináttu Rótarýfélaga þvert á menningarheima,“ segir Róbert Melax, formaður Rotary Friendship nefndar íslenska umdæmisins.
Nánari upplýsingar um Rotary Friendship Exchange má finna á Rotary.org
Nánari upplýsingar um rótarýumdæmið 2400 má finna hér.