Hátt í tuttugu unglingar úr 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar og Menntaskólanum á Tröllaskaga sóttu kynningu Klöru Lísu Hervaldsdóttur formanns æskulýðsnefndar umdæmisins, 7. nóvember s.l. hjá Rótarýklúbbi Ólafsfjarðar að frumkvæði rótarýfélaganna Láru Stefánsdóttur og Haraldar Gunnlaugssonar.

Auk Klöru Lísu, sem flutti fróðlegt erindi um ungmennaskipti, sagði Hrafnhildur Jakobína Grímsdóttir frá veru sinni sem skiptinemi á vegum rótarý í Norður Karólínu árið 2017. Hrafnhildur er ættuð frá Ólafsfirði. Þá sagði Anna Lind Björnsdóttir úr Rótarýklúbbi Ólafsfjarðar, frá dvöl sinni í Feyneyjum sem skiptinemi og Sigurpáll Þór Gunnarsson, forseti Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar, deildi reynslu sinni sem skiptinemi í Ástralíu.
Mikill áhugi var á meðal fundargesta sem spurðu fyrirlesarana spjörunum úr og spunnust fjörugar og fróðlegar umræður. Allir nutu svo góðra veitinga frá Kaffi Klöru í fundarhléi.
Kostnaður fyrir skiptinema er um 170-180 þúsund krónur, auk ferðakostnaðar og trygginga.
Tilgangur skiptinemastarfs rótarýhreyfingarinnar er að efla og örva alþjóðlegan skilning, velvild og frið. Skiptinám er í boði fyrir ungmenni 16-18 ára í almennum nemendaskiptum í 1 ár. Ungmennaskipti 15-19 ára, s.k. „Family to family“ eru í boði í 3-12 vikur og einnig sumarbúðir í 1-4 vikur fyrir 14-25 ára, „Short term-rotary youth exchange“.

Allar nánari upplýsingar veitir Klara Lísa í gegnum netfangið youth@rotary.is en umsóknarfrestur fyrir skiptinema rennur út 1.des n.k.