Föstudagur, 6. desember 2024
HeimFréttirSænskir gestir í skiptiheimsókn til Íslands á vegum Rótarý

Sænskir gestir í skiptiheimsókn til Íslands á vegum Rótarý

Hópur 12 sænskra Rótarýfélaga frá umdæmi 2400 í Svíþjóð kom í Vinaheimsókn eða Rotary Friendship Exchange helgina 29. september til 4. október. Félagar í Rótarýklúbbnum Reykjavík Landvættir tóku á móti gestunum á miðvikudegi og fóru þá í skoðunarferð um Reykjanesið. Á fimmtudegi var farið með gestina um Suðurlandið þar sem gullni hringurinn var keyrður og ýmsir staðir skoðaðir svo sem Kerið, Gullfoss, Geysir og Þingvellir en gestir fengu sér að borða í fjósinu í Efstadal áður en farið var út á flugvöll.   

Lent var á Akureyrarflugvelli kl. 16.40 fimmtudaginn 30. sept. og hófst þar formleg Rotary Friendship Exchange heimsókn. Á móti þeim tóku félagar úr Rótarýklúbbi Akureyrar sem höfðu samþykkt að hýsa pörin. Smá babb kom í bátinn þegar einn félaganna þurfti að fara í sóttkví, en elsti félaginn í Rótarýklúbbi Akureyrar, Hermann Sigtryggsson, 90 ára, hikaði ekki við að bjóða heim til sín í gistingu 

Föstudagurinn var nýttur í sund, safnaheimsóknir og rölt um bæinn með leiðsögn. Á föstudagskvöldinu var haldinn Rótarýfundur þar sem félagar skiptust á kynningum jafnt frá Svíðþjóð og Íslandi sem og á fánum.

Á laugardagsmorguninn var lagt af stað í ferð að Goðafossi, um Mývatn, Reykjahverfið, Ásbyrgi og Lindarbrekku þar sem var drukkin skál í fjósinu (fjósið er veislusalur í eigu Soffíu Gísladóttur fyrrverandi umdæmisstjóra), Sjóböðin á Húsavík voru heimsótt sem og staðir sem tengjast Eurovision myndinni sem gerist á Húsavík, m.a. var bústaður álfanna heimsóttur. Endað var í veislu á Fosshótel Húsavík áður en haldið var heim á leið.

Á sunnudeginum var skógarreitur Rótarýklúbbs Akureyrar, Botn í Eyjafirði, heimsóttur ásamt jólahúsinu og að endingu tók Arngrímur Jóhannsson, félagi í Rótarýklúbbi Akureyrar, á móti hópnum á flugsafninu og var með leiðsögn þar ásamt því að leysa gestina út með gjöfum. Hópurinn fór síðan heim á leið á mánudagsmorgni.

Rotary Friendship Exchange RFE eru gagnkvæmar heimsóknir þannig að í vor verður farið í heimsókn til Svíanna í Suður Svíþjóð.

Það sem er hrífandi við að vera gestur í RFE er að fá tækifæri til að fá innsýn í líf gestgjafanna, að fá tækifæri til að sjá landið með augum heimamanna en ekki bara augum ferðamannsins; sjá menningu og lifnaðarhætti, fara út úr okkar heimi og inn í einhvern annan heim. Að sama skapi er líka gefandi fyrir okkur sem gestgjafa að geta gefið gestum okkar tækifæri að sjá inn í okkar veröld. Okkur Íslendingum tekst oftast vel að heilla útlendinga af okkar landi og þjóð.   Við fáum tækifæri til að kynnast fólki úr öðrum menningarheimum. RFE eru bæði að gefa og þiggja; við erum ýmist gestir eða gestgjafar. Rótarýfélagar eru opið og áhugavert fólk sem auðvelt er að kynnast. Tilgangur með RFE getur verð margvíslegur en eitt af markmiðum Rótarý með RFE er að stuðla að vináttu Rótarýfélaga þvert á menningarheima. 

Texti: Róbert Melax, Rkl.Reykjavík Landvættir.                                                                      

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum