Saga Rótarý

RÓTARÝHREYFINGIN

Upphaf og markmið

Rótarýhreyfingin er alþjóðafélagsskapur leiðandi manna sem sameinast um þá ósk að þjóna öðrum án tillits til trúarbragða, stjórnmála, kynþátta eða þjóðernis. Þá er viðurkennt að vilji til þjónustu sé frumskilyrði allra starfa sem séu vel af hendi leyst og hæfileikinn að setja sig í spor annarra manna, skilja sjónarmið þeirra og veita þeim aðstoð og ánægju. Rótarý leitast við að ná þessu markmiði með því að stuðla að skilningi og friði meðal allra manna og þjóða, efla frelsi og réttlæti í viðhorfum til mannlegs lífs en taka um leið fullt tillit til hins sérstaka í fjölbreytninni og fjölbreytninni í því sérstaka.

Stofnandi fyrsta rótarýklúbbsins var nær fertugur lögfræðingur í Chicagóborg í Bandaríkjunum, Paul Harris að nafni. Hann var oft spurður hvort hann hefði órað fyrir því þegar þeir fjórir félagarnir komu saman í skrifstofuherbergi í Chicagó á köldu vetrarkvöldi, 23. febrúar 1905, að þessi fundur yrði upphaf voldugrar alheimshreyfingar.

Besta svar Paul Harris er ef til vill að finna í síðasta ávarpinu sem hann sendi á rótarýhátíð stuttu fyrir andlát sitt, 27. janúar 1947:

„Nei, nei, ég sá ekki fyrir mér víðfeðma alheimshreyfingu árið 1905. Þegar plantað er veikburða græðlingi að vori, erum við þá viðbúnir að sjá fyrir okkur voldugt tré? Þurfum við ekki að reikna með regni og stormi og bros- 1. Sbr. inngang í Handbók frá 1967. 9 mildi forsjónarinnar? Þegar fyrsti brumhnappurinn birtist -ja þá getum við fyrst farið að láta okkur dreyma um skjól trésins!“

Á fyrsta fundinum, sem Paul Harris boðaði til, mættu auk hans þrír menn: Silvester Schiele kolakaupmaður, Gustavus E. Loehr námaverkfræðingur og Hiram E. Shorey fatakaupmaður og klæðskeri. Sjálfur var Paul Harris lögfræðingur, svo að segja nýfluttur til stórborgarinnar og honum fannst hann vera helst til einangraður og vinafár.

Þessir fjórir fundarmenn voru af mismunandi bergi brotnir, af sænskum, þýskum, írskum og gyðingaættum komnir og trúarbrögð þeirra voru einnig ólík. Þeir voru því sannir fulltrúar þeirrar þjóðablöndu sem óx og dafnaði í Bandaríkjunum og raunar einnig þeirrar alheimshreyfingar sem spratt upp af þessu framtaki þeirra.

Fljótlega bættist fimmti félaginn við, Harry Ruggles prentari, og þá var fyrsti rótarýklúbburinn formlega stofnaður, Rótarýklúbbur Chicagóborgar. Nafnið er þannig til komið að þeir félagar komu sér saman um að halda fundi á skrifstofum sínum á víxl og breyta þannig til vikulega. (Rotate = snúast, skiptast á. Rotary = það sem snýst eða hverfist).

í lok ársins 1905 voru félagarnir orðnir þrjátíu talsins. Fyrsti forseti var Silvester Schiele. Paul Harris neitaði að vera í fyrstu stjórninni og varð ekki forseti fyrr en eftir tvö ár. Það var Ruggles, fyrsti gjaldkeri klúbbsins, sem innleiddi þá venju að syngja á klúbbfundum. Sú venja hefur síðan viðgengist í mörgum rótarýklúbbum.

Að sjálfsögðu reyndist ekki kleift þegar félögum fjölgaði að halda fundi á skrifstofum þeirra svo að fljótlega var farið að halda fundi vikulega á veitingahúsum og hótelum.

Vöxtur og viðgangur

Það var aldrei ætlun Paul Harris, stofnanda Rótarý-hreyfingarinnar, að klúbburinn sem hann stofnaði til árið 1905 í Chicagó yrði eingöngu vettvangur umræðna um viðskipta- og framkvæmdamál þótt frá öndverðu gilti sú regla að félagar væru fulltrúar úr hinum ýmsu starfsstéttum. Þetta áttu einnig að vera glaðværir samfundir, ánægja og vinarhlýja skyldu sitja í fyrirrúmi.

En meira skyldi að gert. Klúbburinn átti að sinna verkefni sem til bóta og framfara horfði í samfélaginu. Aðeins tveimur árum eftir stofnun fyrsta klúbbsins, eða árið 1907, setti hann á stofn snyrtiaðstöðu fyrir almenning við ráðhús borgarinnar.

Þrjú ár liðu þar til annar rótarýklúbburinn var stofnaður í San Francisco. Síðan fjölgaði klúbbunum og árið 1910 voru þeir orðnir 16 víðs vegar um Bandaríkin.

Árið 1910 var fyrsta rótarýþingið háð í Chicagó. Pá komu saman fulltrúar frá klúbbunum 16 og stofnað var Landssamband rótarýklúbba. Forseti var kosinn Paul Harris. Þá tók við starfi ritara Chesley L. Perry en hann var aðalritari eða framkvæmdastjóri hreyfingarinnar í 32 ár. Paul Harris kallaði hann skipuleggjanda rótarýs eða byggingarmeistara.

Á þessu fyrsta rótarýþingi var leitast við að finna einkunnarorð sem hæfðu þjónustuhugsjón hreyfingarinnar. Að lokum sættust menn á þessar tvær setningar: Sá þénar mest sem þjónar best og þjónusta ofar sjálfshyggju.

Fyrsta tilraun Paul Harris til að stofna rótarýklúbb utan Bandaríkjanna var gerð í Winnipeg í Kanada. Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir var klúbbur stofnaður þar árið 1911. Síðan voru klúbbar stofnaðir í London og Dublin þetta sama ár. Þannig varð rótarý alþjóðahreyfing. Árið eftir, 1912, var nafni samtakanna breytt og nefndust þau nú Alþjóðasamband rótarýklúbba. Árið 1922 var þetta heiti svo stytt í Alþjóðarótarý eða Rotary International.

Rótarýmerkið

Rótarýmerkið var upprunalega venjulegt vagnhjól í rykmekki sem táknaði að það væri á hreyfingu. Seinna kom tannhjólið til sögunnar og árið 1929 var núverandi merki endanlega samþykkt, tannhjól með 24 tönnum, 6 pílárum og ásgati með kílspori til merkis um að það væri virkt. Sé það í litum skal það vera gullgult og heiðblátt.

Rótarýsjóðurinn

Rótarýsjóðurinn er án efa grundvöllur hins mikla og merka starfs sem Rótarýhreyfingin innir af höndum. Sjóðurinn er voldug stofnun sem veitir styrki til menningar- og mannúðarstarfs á mörgum sviðum.

Þó að sjóðurinn hafi eflst og vaxið að mestu leyti eftir heimsstyrjöldina síðari liggja rætur hans langt til baka. Stofnandi Rótarýhreyfingarinnar, Paul Harris, lét oftsinnis í ljós áhuga á að hreyfingin kæmi á fót sjóði til styrktar námsfólki vítt og breitt um heimsbyggðina. Það yrði hin ákjósanlegasta og nytsamasta alþjóðaþjónusta.

Forseti Rotary International 1916-17, Arch Klumph, sagði í ræðu á allsherjarþinginu í Atlanta í Bandaríkjunum sumarið 1917 að „rótarý ætti að taka við fjárgjöfum til að láta gott af sér leiða í heiminum, á sviði mennta, aðstoðar við þurfandi, og á öðrum þeim vettvangi sem til góðs mætti leiða í samfélaginu“. Af þessari stefnumörkun hefur Arch Klumph verið nefndur „faðir Rótarýsjóðsins“.

Það var þó ekki fyrr en rúmum áratugi seinna, eða á allsherjarþinginu í Minneapolis í Bandaríkjunum árið 1928, að formlega var samþykkt að breyta lögum hreyfingarinnar þannig að innan hennar skyldi starfa sjálfstæður sjóður með sérstakri fimm manna stjórn. Nú skipa stjórn Rótarýsjóðsins þrettán menn.

Nú er Rótarýsjóðurinn ein öflugasta námsstyrkjastofnun í heiminum. Þegar eftir andlát Paul Harris árið 1947 var skipulagt sérstakt námsstyrkjakerfi til minningar um hann en hann hafði alla tíð borið alþjóöaþjónustuna mjög fyrir brjósti. Byrjunin var að skólaárið 1947-48 var átján námsmönnum veittur styrkur til náms í sjö ólíkum löndum. Frá þessum tíma hefur Rótarýsjóðurinn einungis búið að framlögum sem hann fær beint frá rótarýfélögum og öðrum víðs vegar að úr veröldinni. Umtalsverðar tekjur koma frá útnefningu Paul Harrisfélaga en sú tilhögun gekk í gildi árið 1957. Paul Harrisfélagi verður sá sem klúbbur vill heiðra fyrir mikil og góð störf, annað tveggja félagi eða utan klúbbs maður og greiðir klúbburinn þá 1000 dollara í Rótarýsjóðinn eða þá að einstaklingur greiðir 1000 dollara af sjálfsdáðum og fær Paul Harrisviðurkenningu í stað-inn.

Um 1980 voru árlegar tekjur sjóðsins orðnar um 20 milljónir dollara.

Þá hafði verið veitt í námsstyrki meira en 128 milljónum dollara handa 30.000 manns, dugandi konum og körlum, sem gerðust „sendiherrar vináttu og velvildar“ í meira en 130 löndum. Markmiö þessarar starfsemi er að „treysta vináttubönd og auka skilning milli fólks af ólíku þjóðerni“. Á níunda áratugnum hefur starfsemin enn aukist að miklum mun.

Námsstyrkir eru veittir námsfólki af 6 námsstigum: kandidötum, stúdentum, tæknimönnum, sérkennurum, blaðamönnum og hjálparliðsmönnum í hungursneyðum. Auk þess styrkir sjóðurinn starfshópaskipti sem felst í því að styrkja hóp ungra framkvæmda- og embættismanna til kynnisferða til annarra landa. Þá veitir Rótarýsjóður svo-kallaða 3H styrki, starfsfólki sem vinnur að framtaki gegn hungri, fyrir heilbrigði og til heilla í þjóðlífi.

Þá ber að nefna mesta framtak Rótarýsjóðsins, svokallað Políóplús-átak. Það hófst sem sérstakt verkefni árið 1985. Takmarkið var að safna 120 milljónum dollara fyrir árslok 1988 til að standa straum af bólusetningu allra barna í þróunarlöndunum gegn lömunarveiki og öðrum smitsjúk-dómum og ljúka verkefninu fyrir 100 ára afmæli Rótarý-hreyfingarinnar árið 2005. Árangur er meiri en menn óraði fyrir.

Allsherjarþing

Allsherjarþing Rotary International er haldið árlega í apríl, maí eða júní. Ákvæði í lögum mælir svo fyrir að allsherjarþing skuli ekki haldið í sama ríki nema tvö ár í röð. Einungis geta stærstu borgir með miklum og góðum húsakosti og aðbúnaði hýst allsherjarþingið, eins og best sést á því að á þinginu í Mlinchen í Þýskalandi í byrjun júní 1987 voru hátt í 27.000 manns. Allsherjarþingið er hvort tveggja í senn árshátíð Rótarýhreyfingarinnar og aðalfundur. Umdæmisþing í hverju rótarýumdæmi eru því smækkuð mynd af allsherjarþinginu.

Allsherjarþingin eru opin öllum rótarýfélögum og mökum þeirra enda eru þau stórkostleg kynningar- og ákvarðanamót. Skemmtiatriði og ýmsir menningarviðburðir eru þar á dagskrá og þarf að vonum að endurtaka þýðingarmestu dagskrárliðina.

Allir klúbbar vítt og breitt um heimsbyggðina eiga rétt á að senda fulltrúa á allsherjarþing enda fer þar fram endanlegt kjör á nýjum stjórnarmönnum, forseta samtakanna að ári liðnu og verðandi umdæmisstjórum. í reynd verður þó lítill munur á fulltrúum og öðrum þátttakendum, þetta er hátíð, gleði- og kynningarmót félaga og maka úr fjölda klúbba í öllum heimsálfum.

Fyrsta allsherjarþing var haldið í Chicagó árið 1910. Það sóttu 60 fulltrúar. Fyrsta allsherjarþing í Evrópu var haldið í Edinborg í Skotlandi árið 1921. Þátttakendur voru 2.523. Svæðismót fyrir ýmis lönd og heimshluta eru einnig haldin árlega.

Aðalstjórn

Aðalstjórn Rotary International er skipuð 18 mönnum, þar á meðal forseta R.I. sem er formaður stjórnarinnar og verðandi forseta. Aðrir stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára samkvæmt sérstökum lagaákvæðum. Þeir eru ólaunaðir en ferðakostnaður greiddur.

Ritari aðalstjórnar er framkvæmdastjórinn og starfsliðið er hátt í 400 manns. Aðsetur aðalskrifstofunnar er í Evanston, Illinois, skammt frá Chicagó, en auk þess eru rótarý-skrifstofur í Brasilíu, Indlandi, Japan, Ástralíu, Ziirich í Sviss og London, en rótarý í Stóra-Bretlandi og írlandi er sérstök deild innan R.I.

Löggjafarráðið

Löggjafarráðið er sú stofnun R.I. sem vald hefur til að breyta lögum samtakanna og setja ný lagaákvæði. Það var sett á laggirnar árið 1934 sem ráðgefandi stofnun sem vísaði tillögum sínum til allsherjarþings. En árið 1970 var það gert að sjálfstæðri löggjafarstofnun sem hefur úrslitavald um lagasetningar fyrir samtökin. Það kemur saman þriðja hvert ár og tekur til meðferðar tillögur til lagabreytinga hvaðanæva að og leggur fram eigin frumvörp.

Löggjafarráðið skipa á fimmta hundrað manns og eru í því fulltrúar frá öllum umdæmum samtakanna, auk stjórnar og starfsmanna.

Tímarit rótarýs

Tímarit Rótarýhreyfingarinnar, The Rotarian, hóf göngu sína árið 1911. Þetta er mánaðarrit sem rótarýfélögum er skylt að kaupa nema umdæmi þeirra kjósi að kaupa annað viðurkennt rótarýrit. The Rotarian kemur út á spænsku annan hvern mánuð, Revista Rotaria. Rótarýtímarit eru einnig gefin út víða annars staðar í heiminum á mál-um sem töluð eru eða skilin í þeim löndum eða heimsálfum. Norðurlöndin gefa í sameiningu út Rotary Norden og er íslenskum rótarýfélögum skylt að kaupa það rit.

Æskulýðsstarf

Það hefur frá upphafi verið í verkahring rótarýs að verða æskulýð til halds og trausts. Samtökin efla kynni með nemendaskiptum milli landa, bæði skiptum í mánuð að sumri til og skiptum heilt skólaár. Venjulegast fara þessi nemendaskipti fram á vegum rótarýumdæma þótt einstakir klúbbar sjái um nemana og komi þeim fyrir á heimilum. Skiptinemar eru yfirleitt á aldrinum 16-18 ára. Fjölmargir skiptinemar á vegum rótarýs dvelja árlega í mörgum löndum um víða veröld.

Æskulýðsklúbbar

Í mörgum löndum hafa rótarýklúbbar eða klúbbfélagar gengist fyrir stofnun æskulýðsklúbba. Þeir skiptast í tvennt, unglingaklúbba (Interact) og ungmennaklúbba (Rotaract). Félagar í unglingaklúbbi eru nemendur á aldrinum 14-18 ára. Félagar í ungmennaklúbbi eru á aldrinum 18-28 ára. Tilgangurinn með stofnun og starfi þessara æskulýðsklúbba er að gera ungu fólki grein fyrir siðgæðishugsjónum rótarýs: betri kynnum manna og þjóða í milli, þjónustuþeli í viðskiptum, friðarvilja og réttlætiskennd. Enn hafa slíkir klúbbar ekki verið stofnaðir hér á landi.

Samfélagsþjónusta

Allt frá fyrstu árum rótarýs, þegar Rótarýklúbbur Chicagóborgar setti upp snyrtiaðstöðuna fyrir almenning við ráðhúsið, hefur samfélagsþjónusta af ýmsu tæi verið snar þáttur í störfum og athafnasemi rótarýklúbba. Þessi samfélagsþjónusta er af margþættum toga spunnin og má þar nefna aðstoð við heilbrigða athafnasemi æskulýðs og ánægjulegra líf aldraðra, átak í heilbrigðis-, hreinlætis- og húsnæðismálum í þróunarlöndum og margháttuð viðfangsefni sem til heilla, menningar og ánægju horfa í samfélagi klúbbanna. Aukin og betri kynni milli einstaklinga, byggðarlaga og þjóða hafa ávallt verið aðal rótarýs, hollvænleg kynni sem stuðluðu að friðarvilja, vinsemd og skilningi á vandamálum samfélags og þjóða.

Í skiptum við samborgarana, hvort sem er í viðskiptum eða mannlegri umgengni almennt, er fjórprófið svokallaða eins konar einkunn rótarýfélagans. Fjórprófið var fyrst sett fram af rótarýfélaganum Herbert J. Taylor í Chicagó árið 1933. R.I. tók það síðan upp sem einkunnarorð í starfsþjónustu. Það hljóðar þannig:

  1. Er það satt og rétt?
  2. Er það drengilegt?
  3. Eykur það velvild og vinarhug?
  4. Er það öllum til góðs?

Félagatalan

Í júlí 1992 voru 25.715 klúbbar í Rotary International, í 184 löndum, alls 1.138,918 félagar.

Heimildir:
Rotary Basic Library, einkum Focus on Rotary, Handbók íslensku rótarýklúbbanna 1967 o.fl.

RÓTARÝHREYFINGIN Á ÍSLANDI

Klúbbar

Fyrsti rótarýklúbburinn hér á landi var stofnaður í Reykjavík 13. september árið 1934. Það voru rótarýfélagar í Kaupmannahöfn sem beittu sér fyrir stofnun klúbbsins og komu hingað til lands til skrafs og ráðagerða við líklega forustumenn, einkum þá Ludvig Storr ræðismann og stórkaupmann og Knud Zimsen fyrrverandi borgarstjóra. Hann varð fyrsti forseti hins nýstofnaða klúbbs. Stofnend-ur voru 23.

Á næstu árum beittu rótarýfélagar í Reykjavíkurklúbbnum sér fyrir stofnun klúbba á ísafirði og Siglufirði 1937, á Akureyri 1939, á Húsavík 1940 og í Keflavík 1945. Forseti og aðrir stjórnarmenn klúbbsins voru þar mest að verki og tóku sér ferð á hendur til að vinna að stofnun klúbbanna. Rótarýklúbbarnir hér á landi voru í fyrstu í danska rótarýumdæminu sem þá var aðeins eitt. En þegar sambandið rofnaði við Danmörku á árunum 1939-40 tóku íslensku klúbbarnir upp beint samband við aðalskrifstofuna vestan hafs.

Eftir lýðveldisstofnunina þótti eðlilegt að íslensku klúbbarnir mynduðu sjálfstætt rótarýumdæmi og var það auðsótt mál af hálfu danska umdæmisins og aðalskrifstofu rótarýs í Chicagó. Umdæmið var formlega stofnað 1. júlí 1946. Þá voru klúbbarnir 6.

Á næstu 10 árum voru 8 rótarýklúbbar stofnaðir: í Hafnarfirði 1946, á Akranesi 1947, á Sauðárkróki og Selfossi 1948, í Borgarnesi 1952, í Ólafsfirði og Vestmannaeyjum 1955 og í Stykkishólmi 1956.

Á sjöunda áratugnum voru 7 rótarýklúbbar stofnaðir á landinu, í Kópavogi 1961, í Reykjavík-Austurbæ 1963, í Neskaupstað, á Héraði og í Garðahreppi 1965, í Rangárþingi 1966 og í Ólafsvík 1968.

Á áttunda áratugnum var aðeins 1 klúbbur stofnaður, á Seltjarnarnesi 1971. Á níunda áratugnum var stofnaður klúbbur í Mosfellssveit 1981 og 2 í Reykjavík, í Breiðholti 1983 og í Árbæ og Grafarvogi 1989.

Yngsti rótarýklúbburinn á landinu er Rótarýklúbbur Eyjafjarðar sem stofnaður var á Akureyri 12. febrúar 1991.

Á íslandi hafa þannig alls verið stofnaðir og starfandi 26 rótarýklúbbar allt í kringum land. Einn þessara klúbba, Siglufjarðarklúbburinn, hefur hætt störfum og var afskráður árið 1989. Rótarýfélagar hér á landi voru alls um 1000 í árslok 1992.

Umdæmið

Eins og fyrr segir var íslenska rótarýumdæmið stofnað á árinu 1946. Fyrsti umdæmisstjóri var dr. Helgi Tómasson og annar í röðinni sr. Óskar J. Þorláksson. Þeir voru báðir mjög ötulir og áhugasamir rótarýforkólfar. Þeir gegndu hvor um sig stöðunni í tvö ár. En síðan 1950 hefur verið skipt um umdæmisstjóra árlega eins og ráð er fyrir gert. Reynt hefur verið að fá alla klúbba til að leggja til um-dæmisstjóra og hefur það tekist að mestu leyti. Sumir klúbbar hafa þó átt auðveldara með að tilnefna umdæmisstjóraefni en aðrir. Á þeim 46 árum sem liðin eru frá stofnun íslenska rótarýumdæmisins hafa því 44 umdæmisstjórar verið þar við stýri. Umdæmisstjóri sér um umdæmisþing í lok starfsárs síns. Umdæmisþing hafa verið haldin víða um land en þó aldrei á Vestfjörðum. Umdæmið er nr. 1360.

Umdæmisráð

Umdæmisstjóri hefur sér við hlið umdæmisráð sem er honum til ráðuneytis við ákvarðanatöku og framkvæmd mála. Ráðið skipa: starfandi umdæmisstjóri, sem er formaður ráðsins, fyrrverandi umdæmisstjóri, tveir verðandi umdæmisstjórar og tveir eða þrír fyrrverandi umdæmisstjórar.

Skrifstofa umdæmisins

Lengi var um það rætt í rótarýklúbbunum að æskilegt væri og raunar nauðsyn að hreyfingin hér á landi ætti sér fast aðsetur, þ.e. skrifstofu með starfsmanni þótt ekki væri nema hluta úr degi. Þar mætti koma fyrir skjala- og munasafni umdæmisins og hafa á hraðbergi rótarýgögn, ýmis upplýsingarit og bækur. Þetta komst þó ekki í framkvæmd fyrr en árið 1966/67 en þá var keypt lítið húsnæði á Baróns-stíg 43 í Reykjavík. Árið 1982 var keypt íbúð á Skólavörðustíg 21 og þar var skrifstofan til ársloka 1991. Um hálfs árs skeið var skrifstofan í Hafnarfirði, í leiguhúsnæði rótarýklúbbsins þar. En 17. júlí 1992 flutti skrifstofan í nýtt skrifstofuhúsnæði að Suðurlandsbraut 54 sem keypt var í stað húsnæðisins á Skólavörðustíg. Rótarýumdæmið á 85% í nýja húsnæðinu en Rótarýklúbbur Reykjavíkur 15%. Svo var einnig í húsnæðinu áður. Skrifstofan er opin 2-3 klukkutíma á dag, skrifstofustjóri er í hálfu starfi og annast tengsl við klúbba, skil við R.I. og fyrirgreiðslu fyrir rótarýfélaga og aðra sem erindi eiga við hreyfinguna.

Helstu heimildir:
Handbók ísl. rótarýklúbbanna 1967 og Rótarýhreyfingin á íslandi 50 ára, Reykjavík 1984. Vísast til síðarnefnda ritsins um sögu einstakra klúbba og ýmis atriði varðandi starfsemi rótarýs hér á landi.

PAUL HARRIS

Stofnandi Rótarýhreyfingarinnar

Paul Harris fæddist í Racine í Wisconsin, lítilli borg á bökkum Michiganvatns, árið 1868. Atvikin höguðu því svo að hann fluttist þriggja ára að aldri í lítið sveitaþorp í Vermont sem er eitt af Nýja Englandsríkjunum á austurströnd Bandaríkjanna. Þar ólst hann að mestu leyti upp, hjá föðurafa sínum og ömmu, og hafði alla ævi sterkar taugar til fjalla og dala hins fagra Vermontríkis. Ástæður fyrir því að drengurinn fór í fóstur til afa og ömmu voru einfaldlega þær að föður hans mistókst atvinnurekstur sinn og hann hafði ekki tök á að sjá fjölskyldu sinni farborða.

Paul litla var ekki í kot vísað hjá fósturforeldrum sínum og mat hann afa sinn og ömmu mikils, ekki síst afann sem var kjarnakarl, stefnufastur og ráðdeildarsamur og mátti ekki vamm sitt vita. Hann rak sveitaverslun og nokkurn búskap í litla þorpinu Wallingford og vegnaði vel. Eyðslusemi var ekki fyrir að fara og lærði Paul ungur að meta verðmæti nýtra hluta og fara spart með allt sem notað var til daglegs brúks. Hins vegar var hann frjáls sinna ferða um fjölbreytilegt umhverfi, fjöll, vötn og dali, og varð snemma mikill unnandi útilífs, tápmikill til leikja og ævintýra, uppátektarsamur og til í strákapör í hófi, lék sér með félögum sínum frjáls og kátur og kunni vel að koma af stað kímilegum atvikum. En á bak við var þó alltaf reglusamur afi og siðavönd amma sem aldrei þoldu neitt misjafnt eða ósæmilegt.

Það lá alltaf í loftinu að fósturforeldrar Pauls kostuðu hann til þess náms sem hann kysi. Þótt hann stundaði námið í barnaskóla og framhaldsskóla í þorpinu eins og vera bar var hann langt frá því að vera bókabéus eða lærdómshestur; hann kaus frekar útistörf, ferðalög og frjálsræði. En eftir að hafa lokið prófum í heimabænum stundaði hann nám í Vermontháskóla og tvítugur að aldri innritaðist hann í Princeton. Pá urðu þáttaskil í lífi hans, afi hans dó það ár, 1888. Paul saknaði hans mjög og raunar alla ævi. Í erfðaskrá hafði gamli maðurinn gert ráð fyrir að amman kostaði hann áfram til náms. Hann kaus þó að brjóta í blað, hætti námi í Princeton og fluttist vestur til Iowaríkis. Hann fékk lærlingsstarf á lögfræðiskrifstofu um skeið en settist síðan í lögfræðideild Iowaháskóla í Iowaborg. Þaðan lauk hann lögfræðiprófi árið 1891, tuttugu og þriggja ára að aldri.

Paul Harris var ekki tilbúinn að starfa sem lögfræðingur þótt hann hefði lokið prófi. Hann lagðist í ferðalög næstu fimm árin, vítt og breitt um Bandaríkin og víðar um Ameríku og önnur lönd, vann fyrir sér við ýmis störf og naut reynslu og ævintýra frjálsræðisins. í Florida kynntist hann iðjuhöldi, George Clark að nafni, sem hann vann fyrir annað slagið þegar á milli ferða var. Þeir urðu vinir ævilangt. George Clark bauð honum góða stöðu við fyrirtæki sitt en þá hafði Paul ákveðið að setjast að í Chicagó og stunda þar lögfræðistörf. Clark taldi að hann hefði meira upp úr sér að gerast fulltrúi sinn en sem starfandi lögfræðingur, alls ókunnur í stórborginni. Þá svaraði Paul Harris: „Ég veit að þú hefur rétt fyrir þér en ég fer ekki til Chicagó til að græða peninga heldur til að lifa lífinu“. Þetta var árið 1896 og hann var tuttugu og átta ára gamall.

Fyrstu árin í Chicagó urðu Paul Harris enginn uppgripatími. Hart var í ári, hann ókunnur og vinafár, sveitadrengurinn frá Vermont sem alltaf var haldinn heimþrá til átthaganna. En hann þraukaði og festi sig í sessi, oft einmana og lítt mannblendinn, einhleypur og út af fyrir sig. En honum var seigla og stefnufesta í blóð borin og þegar honum hugkvæmdist að stofna fyrsta rótarýklúbbinn árið 1905 má segja að tímamót hafi orðið í lífi hans. Hann varð forvígismaður og hugsuður.

Paul Harris kvæntist árið 1910 Jean Thomson, skoskri stúlku sem hann kynntist í gönguferð útivistarfólks í úthverfi Chicagó. Tveimur árum síðar eignuðust þau hús í úthverfi borgarinnar og nefndu það Fagrabakka eftir strætinu í Edinborg þar sem Jean hafði slitið barnsskónum (Comely Bank).

Paul Harris segir á einum stað í ævisögu sinni: „Þar sem okkur Jean varð ekki barna auðið höfum við tekið Rótarýhreyfinguna í fóstur“. Brátt varð mjög gestkvæmt hjá þeim á Fagrabakka, rótarýfélagar og nefndir sóttu þau heim víðs vegar að úr heiminum. Eins var þeim boðið að heimsækja rótarýklúbba hvarvetna í veröldinni og var þeim þá tekið með kostum og kynjum. Það var siður hans á þessum ferðum að gróðursetja tré í hjarta borganna sem þau gistu. Þessir græðlingar voru tákn friðar, góðvildar og vináttu með einstaklingum, samfélögum og þjóðum. Þeir standa nú í fjölda borga í öllum heimsálfum til minningar um mann sem vildi auka frið og eindrægni í veröldinni.

Síðustu æviárin var Paul Harris eins konar heiðursforseti R.I. með skrifstofu í Chicagó á vegum samtakanna. Hann var fyrrverandi forseti með heiðursréttindum (President Emeritus). Hann andaðist árið 1947 nær áttræður að aldri.

Heimildir: Paul Harris: My Road to Rotary – og fl. rótarýrit.

Úr HANDBÓK íslensku rótarýklúbbanna

Stefán Júlíusson tók saman

© Íslenska rótarýumdæmið Reykjavík 1993

Related Images: