Mánudagur, maí 20, 2024
HeimFréttirMyndasyrpa frá Rótarýtónleikum í Salnum í Kópavogi

Myndasyrpa frá Rótarýtónleikum í Salnum í Kópavogi

Blaðauki með rafrænni útgáfu af Rotary Norden, 2. tbl. 2020. Myndir og texti: Markús Örn Antonsson.

Hinir árlegu Rótarýtónleikar voru haldnir sunnudaginn 2. febrúar í Salnum í Kópavogi. Húsfyllir var og nutu gestir fjölbreyttrar efnisskrár í flutningi afburða listamanna. Í aðalhlutverkum voru óperusöngvararnir Gissur Páll Gissurarson, tenór, og Hallveig Rúnarsdóttir, sópran. Helga Bryndís Magnúsdóttir lék á píanóið. Á tónleikunum voru afhentir styrkir Tónlistarsjóðs Rótarý til framhaldsmenntunar við háskóla í tónlistargreinum. Styrkina hlutu Álfheiður Erla Guðmundsdóttir, sópran, og Rannveig Marta Sarc, fiðluleikari. 

Í ávarpi sínu við upphaf tónleikanna fjallaði Anna Stefánsdóttir, umdæmisstjóri, um frumkvöðulsstarf Jónasar Ingimundarsonar, píanóleikara, að undirbúningi fyrstu Rótarýtónleikanna 1998 og æ síðan, auk stofnunar Tónlistarsjóðs Rótarý 2005. Jónas var um árabil formaður stjórnar tónlistarsjóðsins og undirleikari á tónleikunum. Hann sagði sjálfur að hann hefði eiginlega stjórnað öllu í kringum Rótarýtónleikana fyrstu árin og líkað það vel. Jónas hefur ekki alveg sagt skilið við tónlistarsjóðinn í dag ;veitir hann ráðgjöf við val á styrkþegum þegar eftir því er leitað. „Það er mikilvægt fyrir hreyfingu eins og Rótarý að eiga öfluga félaga sem láta sig samfélagið varða og leggja mikið af mörkum til að bæta gæðum við lífið í samfélaginu. Það hefur Jónas gert í ríkum mæli,“ sagði Anna Stefánsdóttir.
Guðríður Helgadóttir, félagi í Rkl. Borgum, Kópavogi, flutti ávarp og ræddi gildi tónlistarmenntunar fyrir ungt fólk og hvernig það nám nýttist skólafólki á svo mörgum öðrum sviðum á námsferlinum. Hvatti hún foreldra til að leggja áherslu á tónlistina í uppeldi ungu kynslóðarinnar. Guðríður sagði það forréttindi að fá að fylgjast með ungu fólki á uppleið eins og gerist á tónleikum Rótarý.
Óperusöngvararnir Gissur Páll Gissurarson, tenór, og Hallveig Rúnarsdóttir, sópran, vöktu mikla hrifningu fyrir söng sinn, bæði einsöngslög og dúetta úr óperum. Í upphafi tónleikanna sungu þau aríur og dúetta úr óperum eftir Verdi, Puccini, Mozart og Lehár.
Kjartan Óskarsson, félagi í Rkl. Reykjavíkur og formaður stjórnar Tónlistarsjóðs Rótarý kynnti úthlutun tónlistarstyrkja þessa árs. Í máli Kjartans kom m.a. fram, að alls hafa 26 tónlistarnemar hlotið styrki úr sjóðnum frá því fyrsta úthlutun fór fram árið 2005, 12 karlar og 14 konur. Að þessu sinni sóttu alls 13 um styrk úr sjóðnum, 4 karlar og 9 konur, 8 söngnemar og 5 hljóðfæraleikarar. Niðurstaða stjórnar sjóðsins að þessu sinni varð sú að veita Álfheiði Erlu Guðmundsdóttur, sópransöngkonu, og Rannveigu Mörtu Sarc, fiðluleikara, styrki úr Tónlistarsjóði Rótarý árið 2020, að upphæð kr. 800.000 hvor styrkur.
Þær Álfheiður Erla Guðmundsdóttir og Rannveig Marta Sarc tóku á móti viðurkenningarskjölum og blómvöndum þegar styrkirnir voru afhentir. Tónleikagestir fögnuðu þeim innilega. Undanfarin ár hefur verið horft til þess að veita styrki til nemenda sem lokið hafa grunnnámi í háskóla og stunda nú mastersnám. Margir þeirra sem hlotið hafa styrk úr sjóðnum á undanförnum árum hafa nú þegar sett mark sitt á tónlistarlífið hér á landi.
Álfheiður Erla Guðmundsóttir stundaði nám við Söngskóla Sigurðar Demetz, m.a. hjá Hallveigu Rúnarsdóttur og Sigrúnu Hjálmtýsdóttur. Hún lauk bakkalárnámi frá Hans Eisler tónlistarháskólanum í Berlín með hæstu einkunn vorið 2018 og stundar nú meistaranám við sama skóla. Álfheiður Erla hefur starfað með ýmsum heimsfrægum hljómsveitarstjórum og söngvurum í fjölmörgum óperuhúsum í Þýskalandi og unnið til verðlauna í alþjóðlegum söngkeppnum síðustu ár.
Rannveig Marta Sarc hóf fiðlunám fjögurra ára gömul og var um hríð nemandi Lilju Hjaltadóttur við Allegro Suzuki skólann. Hún lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 2014 undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur. Það sama haust hóf hún nám við The Juilliard School í New York og lauk þaðan bakkalárprófi og stundar nú mastersnám við þann sama skóla. Hér heima sigraði Rannveig í keppninni Ungir einleikarar 2014 og lék þá fiðlukonsert Sibeliusar með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Rannveig hefur komið fram sem einleikari og kammermúsíkspilari víða í Evrópu, Ameríku og Asíu og hlotið fjölmargar viðurkenningar og verðlaun.
Hljómleikagestir fengu fróðlega leiðsögn Magnúsar Lyngdal Magnússonar, sagnfræðings, sem kynnti söngatriðin á efnisskránni og sagði frá verkunum og höfundum þeirra sem kunnáttumaður um óperutónlist.
Hallveig Rúnarsdóttir hefur sungið fjölmörg óperuhlutverk og komið fram sem einsöngvari víða um heim. Þá hefur hún sungið margoft með Sinfóníuhljómsveit Íslands auk fjölda annarra hljómsveita. Hallveig hefur verið sérstaklega virk í frumflutningi nýrrar íslenskrar tónlistar og lagt áherslu á ljóðasöng. Hún hlaut íslensku tónlistarverðlaunin sem söngkona ársins í sígildri og samtímatónlist 2013 og aftur 2018.
Gissur Páll hefur sungið fjölda hlutverka á óperusviðinu, m.a. aðalhlutverk hjá Íslensku óperunni í Ástardrykknum og La Boheme en fyrir síðarnefnda hlutverkið hlaut hann Íslensku tónlistarverðlaunin 2012. Hann hefur í tvígang unnið til verðlauna í alþjóðlegum söngkeppnum og hefur komið fram víða erlendis, í Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi, Bandaríkjunum og á Ítalíu. Á síðasta ári söng hann í Ástardrykknum i Rotterdam og kom fram á tónleikaröð í Bandaríkjunum auk fjölmargra tónleika á Íslandi.
Undir lok tónleikanna sýndu þær Álfheiður Erla og Hallveig skemmtileg tilþrif er þær sungu saman lagið „We are women“ eftir Leonard Bernstein, úr söngleiknum Candide.
Í lok tónleikanna var listafólkinu fagnað lengi og innilega. Helga Bryndís Magnúsdóttir, sem lék á píanóið með öllum söngvurunum, stóð við flygilinn þegar áheyrendur létu þakklæti sitt í ljós eftir afburða góða skemmtun.
Allur undirbúningur tónleikanna og framkvæmd þeirra var til mikillar fyrirmyndar. Stefán Baldursson, félagi í Rkl. Borgum, Kópavogi, var framkvæmdastjóri en Jónas Ingimundarson, Rkl. Reykjavíkur, sérstakur tónlistarráðgjafi. Í stjórn Tónlistarsjóðs Rótarý eiga sæti: Kjartan Óskarsson, Rkl. Reykjavíkur, formaður, Heiðrún Hákonardótttir, Rkl. Borgum, Kópavogi, Jón Hlöðver Áskelsson, Rkl. Akureyrar, Kjartan Sigurjónsson, Rkl. Borgum, Kópavogi, Sigrún Hjálmtýsdóttir, Rkl. Reykjavíkur og Sveinn Hjörtur Hjartarson, Rkl. Kópavogs. Góð umfjöllun í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í aðdraganda tónleikanna vakti athygli á þessu merka framtaki Rótarý.

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum