Laugardagur, 14. september 2024
HeimFréttirSamfélagsverkefni Rótarýklúbbsins Reykjavík-Austurbær

Samfélagsverkefni Rótarýklúbbsins Reykjavík-Austurbær

Stuðningur og fræðsla til aðstandenda þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir eða stunda sjálfsskaða

Í haust kom fram vilji innan Rótarý-Austurbær að styrkja samfélagslegt verkefni sem talar beint inn í samtímann. Þar sem vaxandi fjöldi sjálfsvíga og sjálfsskaða er orðið stórt samfélagslegt vandamál lá beint við að styrkja Píetasamtökin. Flest þekkjum við einhvern sem hefur framið sjálfsvíg eða gert tilraun til þess. Þetta er vandamál sem snertir marga og við í Rótarý-Austurbær viljum leggja okkar af mörkum til stuðnings verkefnum á vegum þeirra.

„Píetasamtökin hafa vakið verðskuldaða athygli fyrir öflugt starf, hispurslausa orðræðu og þátttöku í vandasamri samfélagsumræðu um sjálfsvíg. Undanfarið hefur þörfin fyrir aðstoð Píeta aukist umtalsvert og vaxandi eftirspurn hefur verið eftir stuðningi við aðstandendur. Því ákvað Rótarýklúbburinn Reykjavík-Austurbær að stíga fram og bjóða Píetum fjárhagsaðstoð við að koma á laggirnar nýju úrræði fyrir aðstandendur,“ segir Sigríður Lillý Baldursdóttir forseti klúbbsins.

Í samráði við Kristínu Ómarsdóttur, framkvæmdastjóra Píetasamtakanna, var afráðið að veita styrk til að ýta úr vör nýju úrræði fyrir aðstandendur þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir eða stunda sjálfsskaða.

Lagt var upp í þetta ferðalag með það að markmiði að félagar myndu safna 500 þús. hjá félögum í klúbbnum og sækja um sömu fjárhæð úr Verkefnasjóði Rótarý Ísland. Það tókst og gott betur. Við fengum 500 þús úr Verkefnasjóðnum og enn eru félagar að leggja inn á söfnunarreikninginn.

Píetasamtökin og klúbburinn okkar hafa undirritað samning um verkefnið „Stuðningur við aðstandendur þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir eða stunda sjálfsskaða“. Samtökin hafa þegar fengið eina millj. í styrk samkvæmt samningnum og mega eiga von á meiru í haust.

Úrræðið við aðstandendur fer fram í lokuðum stuðningshópum sem stýrt er af fagaðilum frá Píetum. Fyrsti hópurinn fylltist strax og er þegar farinn af stað. Rótarý Austurbær fylgir verkefninu eftir með kynningu í samvinnu og samráði við Pietasamtökin.

  • Örsaga hefur verið skrifuð fyrir væntanlegt kynningarefni Rótarý.
  • Fréttatilkynning hefur birst í fjölmiðlum.
  • Greinar hafa birst víða á Facebook.
  • Boðið verður upp á kynningu á verkefninu í öðrum Rótarýklúbbum.
  • Greinar skrifaðar í blöð.
  • Verkefnið kynnt í Rotary Norden.

Klúbburinn hefur einnig hug á að sýna Píetum enn frekari samstöðu með því að aðstoða við árlegar uppákomur. Má þar nefna:

  • Félagar gerist ljósberar í árlegri ljósagöngu Píeta.
  • Félagar taki þátt í úthringingum til að safna fleiri styrktaraðilum.
  • Félagar aðstoði á menningarnótt við að taka á móti gestum og gangandi.

Pietasamtökin voru stofnuð 2016. Þessi ungu samtök hafa unnið þrekvirki. Meðferðin er skjólstæðingum að öllu gjaldfrjáls og samtökin rekin með styrktarfé. Þau

  • reka athvarf í Reykjavík þar sem fólk í sjálfsvígsvanda og aðstandendur þeirra sem hafa tekið eigið líf hafa aðgang að ókeypis ráðgjöf.
  • eru með símaþjónustu allan sólarhringinn.
  • bjóða upp á meðferð þar sem kennd eru ýmis bjargráð til að fást við erfiðar tilfinningar meðal annars samskiptafærni og streitu- og tilfinningastjórnun.
  • halda reglulega fundi fyrir þá sem hafa misst ástvin vegna sjálfsvígs.
  • standa fyrir göngunni „Úr myrkri í ljósið“ á vorin og „Vetrarsólstöðugöngu“ í desember. Svo má lengi telja.

Samtökin skipulögðu auglýsingaherferðina #segðuþaðupphátt. Minnisstætt er hvað margir töluðu opinskátt um erfiðleika sína og hvað það geti verið áhrifaríkt að leita til vina eða fagaðila.

Það hefur verið ánægjulegt að sjá hvað þetta mikilvæga samfélagsverkefni, hefur styrkt starfið í klúbbnum og eflt samstöðuna.

Texti: Kristín Jónsdóttir, stallari og verkefnisstjóri Píetaverkefnisins.

 

 

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum