Verkefni á vegum Rkl. Breiðholts og Fjölbrautaskólans í Breiðholti, sem beinst hefur að rannsókn á hjólastólaaðgengi í efra Breiðholti, vakti athygli Breiðholtsblaðsins sem nýlega birti eftirfarandi grein um verkefnið.
Hjólastólaaðgengi í efra Breiðholti:
Margt sem þarf að laga í aðgengi fatlaðra
Í haust hefur Rótarýklúbburinn Reykjavík-Breiðholt unnið að rannsókn með nemendum starfsbrautar Fjölbrautaskólans í Breiðholti sem snýr að því að athuga hvernig aðgengi er fyrir fatlaða að stofnunum og fyrirtækjum í efra Breiðholti.
Að sögn Eyrúnar Ingadóttur, forseta Rótarýklúbbsins, vaknaði hugmyndin að verkefninu síðastliðinn vetur þegar klúbburinn fékk Harald Þorleifsson, sem er upphafsmaður verkefnisins Römpum upp Reykjavík, á fund þar sem hann kynnti hina metnaðarfullu áætlun um að setja rampa við verslanir og stofnanir í miðbænum svo þeir sem eru í hjólastól komist inn: „Okkur langaði að gera slíka könnun sem samfélagsverkefni í Breiðholti og fengum þess vegna starfsbraut FB í lið með okkur en í staðinn styrkir klúbburinn ferðasjóð nemenda. Við vorum síðan svo heppin að kennarar starfsbrautar tóku hugmyndinni fagnandi, sagði Eyrún í viðtali við Breiðholtsblaðið.“
Salome Huld Garðarsdóttir, kennari, notaði verkefnið sem hluta af tveimur áföngum, annars vegar í samfélagsfræði og hins vegar í átthagafræði í haust: „Það voru fjórir nemendur í hvorum hópi og við heimsóttum rúmlega 50 fyrirtæki og stofnanir á svæðinu. Í upphafi ætluðum við aðallega að skoða hvernig aðgengi væri að þessum stöðum en þar sem við gátum farið inn þá gerðum við það. Þá komumst við að öðrum hindrunum sem ekki sjást utan frá,“ sagði Salóme.
Nemendur gáfu síðan stöðunum einkunnir og fengu 25 staðir einkunnina mjög gott, átta nokkuð gott og 21 staður að bæta þyrfti hjólastólaaðgengi.
Hvar er aðgengi best í efra Breiðholti?
Salóme sagði marga staði hafa verið með gott aðgengi: „Til dæmis er aðgengi að Breiðholtslaug gott og sömuleiðis er allt framúrskarandi í Gerðubergi. Þar gátum við farið á bókasafnið í hjólastólnum og á sýningu sem þar er. Í Drafnarfelli eru Mini market og gamla kaffihúsið sömuleiðis til fyrirmyndar, eins verslunin Iceland í Vesturbergi, verslunarkjarninn í Hólagarði og Orkan í Suðurfelli.“
En hvar er aðgengi slæmt?
„Það kom okkur mjög á óvart hvað aðgengi í grunnskólum og leikskólum hér í efra Breiðholti er slæmt,“ sagði Salóme: „Til dæmis komumst við inn um aðalinnganginn í Fellaskóla, þótt að þar sé talsvert brattur rampur, en þegar inn var komið þá komumst við ekki lengra þar sem það þarf að fara niður nokkur þrep. Við komumst ekki í íþróttahúsið og það var ekki séns að komast inn í frístundina. Þá komumst við ekki á hjólastólnum inn í Hólabrekkuskóla þar sem of hár kantur var inn um aðalinnganginn. Við fórum ekki inn á leikskólana vegna sóttvarna en ástandið á þeim er alls ekki gott með tilliti til aðgengis hjólastóla. Erfitt var að opna hlið áður en komið er að leikskólanum og það vantaði rampa til að komast inn. Í ofanálag þá voru dyrabjöllur staðsettar svo hátt að engin leið var að ná upp fyrir manneskju í hjólastól til að láta hleypa sér inn. Svo komumst við ekki inn í sjoppuna í Hraunbergi, ekki heldur í bakaríið eða á víetnamska veitingastaðinn. Varðandi okkar eigin skóla, FB, þá komumst við ekki inn á Fablab og smíðadeildina hjálparlaust. Við fórum í kjölfarið og ræddum við aðstoðarskólameistara.“
Salóme segir að það hafi komið nemendum á óvart hvað það var víða sem hjólastólaaðgengi er ekki í lagi: „Þeim fannst mjög áhugavert að setja sig í spor annarra með þessum hætti og ræddu talsvert um hvað þau væru heppin að vera ekki í hjólastól. Við erum öll bara mjög glöð með þetta verkefni.“
EI