Föstudagur, mars 29, 2024
HeimFréttirAlþjóðafréttirRótarýumdæmið styður hjálparstarf ShelterBox-samtakanna.

Rótarýumdæmið styður hjálparstarf ShelterBox-samtakanna.

Nýlega boðaði Soffía Gísladóttir, umdæmisstjóri, til fjarfundar með forystufólki í rótarýhreyfingunni hér á landi þar sem fjallað var um starfsemi alþjóðlegu hjálparsamtakanna ShelterBox. Þau hafa þróast og eflst í framhaldi af frumkvæði sem Rótarýklúbburinn Heston-Lizard í Cornwall í Bretlandi sýndi við neyðaraðstoð fyrir 20 árum. Samtökin, sem nú starfa sjálfstætt, draga nafn sitt af neyðarbúnaði í þar til gerðum kössum, merktum samtökunum og Rótarý, sem sendir eru inn á hamfara- eða átakasvæði hvar sem er í heiminum. Tjöldin í kössunum nýtast sem bráðabirgðaskýli fyrir heimilislaust fólk í neyð.

ShelterBox hefur komið upp birgðastöðvum fyrir hjálpargögn á lykilstöðum víða um heim. Þannig verður auðveldara að koma aðstoðinni á sem stystum tíma til fólks sem skyndilega hefur misst heimili sín á hamfarasvæðum.

„Rótarýumdæmið hér á landi styrkti á sl. vori ShelterBox í Danmörku vegna COVID-19 neyðar, en þá fjárfesti umdæmið í 15 Shelterboxum, eða einu fyrir hverja tvo klúbba í umdæminu. Hvert box kostar 5000 DKK svo samtals styrktum við verkefnið um 75.000 DKK,“ sagði Soffía umdæmisstjóri þegar hún útskýrði tildrögin að fjarfundinum þar sem fjallað var ítarlega um ShelterBox.

Tveir fyrirlesarar voru á fundinum, þau Skafti Halldórsson, sem talaði frá Jótlandi, og Kristjana Aðalgeirsdóttir í Helsinki. Skafti er félagi í Struer Rotaryklub á Vestur- Jótlandi þar sem hann rekur ráðgjafarfyrirtæki sitt á sviði orkumála.

Skafti Halldórsson.

Áður var hann við nám í véltæknifræði í Danmörku, sem hann hóf 1999. Hann kynntist störfum ShelterBox vegna þátttöku sinnar í Rótarý. Kristjana flutti frá Akureyri 1988 og hefur verið búsett í Finnlandi og starfað þar í 27 ár en var áður í 5 ár við nám í Noregi. Hún kynntist ShelterBox fyrst í gegnum starf sitt við arkitektadeild Aalto-háskólans í Finnlandi, þar sem hún vinnur að verkefnum tengdum viðbrögðum og uppbyggingu eftir náttúruhamfarir.

Konur á flóðasvæðum við flutning hjálpargagna frá ShelterBox til heimnkynna sinna við hinar erfiðustu aðstæður.

Skafti kvaðst hafa fengið áhuga á störfum ShelterBox þegar hann kynntist þeim af frásögnum í Rótarý. Hann hefur sótt námskeið um samtökin á vegum rótarýklúbbsins enda er mjög náin samvinna milli ShelterBox og Rotary International, sem er öflugur styrktaraðili. Þörfin fyrir neyðaraðstoð ShelterBox er brýn, þar sem meira en 100 milljónir manna eru heimilislaus um þessar mundir vegna náttúruhamfara og vopnaðra átaka. Ekki sér fyrir endann á þeim vanda og hann orðinn viðvarandi. Tíðar náttúruhamfarir eins og fellibyljir, flóð, jarðskjálftar og eldgos kalla á skipulögð og skjót viðbrögð. Skafti sagði að samtökin litu á neyðarathvarf sem mannréttindi fólks og þess vegna hefði ShelterBox lagt áherslu á að senda tjöld og ábreiður til neyðarsvæðanna, ásamt m.a. vatnshreinsitöflum, pottum og pönnum.

Verkfærapokinn frá ShelterBox með nauðsynlegum áhöldum til notkunar á hamfarasvæðum.

Kristjana Aðalgeirsdóttir gerðist þátttakandi í alþjóðlegri viðbragðssveit ShelterBox sem arkitekt og hefur komið að skipulagningu hjálparstarfa m.a. á Filipseyjum, í Kenýa og Nepal. Líkti hún skipulagi og starfsemi viðbragðssveitanna við björgunarsveitir á Íslandi. Hún segir að auk hins hefðbundna neyðarkassa með tjaldinu sé nú lögð áhersla á verkfærapoka með nauðsynlegasta búnaði eins og skóflu, sög, hamri og nöglum auk ljósalampa, sem knúinn er með sólarorkuflögum.

Kristjana Aðalgeirsdóttir.

Slíkir lampar hafa líka verið seldir almenningi utan neyðarsvæða í fjáröflunarskyni fyrir ShelterBox. Þá hafa samtökin lagt áherslu á sérstaklega útbúin box með ýmsum gögnum, sem ætluð eru börnum. Ýmis sérbúnaður vegna útbreiðslu Covid-faraldursins hefur verið í neyðarkössunum síðustu misserin. ShelterBox hefur lagað sig að breyttum aðstæðum, þar sem faraldurinn hefur skapað afar mikla áhættu hjá hjálparvana og heimilislausu fólki víða um heim.

Sérstakir kassar eru útbúnir fyrir börnin. Þeir hafa að geyma áhöld og fleira nýtilegt fyrir skólanámið.

Kristjana lýsti vel skipulagi og ferli aðgerða sem hún tók þátt í á Filipseyjum 2018, þar sem neyðarástand skapaðist vegna afleiðinga fellibyljar, rigninga og flóða. Eyðileggingin var gífurleg og þúsundir misstu heimili sín. Hún sagði að starf ShelterBox-teymisins hefði verið undirbúið í góðri samvinnu við yfirvöld á viðkomandi stöðum. Slíkt væri afar brýnt. Það væri stórkostlegt að eiga Rotary að, því að rótarýklúbbar væru svo margir og kæmu víða við sögu. Um heim allan eru einstaklingar innan þeirra oft í lykilhlutverkum í samfélögum sínum. Tengslanet rótarýklúbba væru því viðbragðsteymum ShelterBox ómetanleg þegar þau kæmu á vettvang. Þar legðu ungir Rotaract-félagar einnig sitt af mörkum.

Frá stofnun ShelterBox fyrir 20 árum hafa meira en 1,5 milljónir manna hlotið aðstoð frá samtökunum vegna afleiðinga náttúruhamfara og stríðsátaka.

Á Norðurlöndunum styðja rótarýklúbbar starfsemi ShelterBox með fjárveitingum, og fyrirtæki tengd rótarýfólki eru meðal helstu styrktaraðila. Samvinnan við Rotary International, sem ShelterBox metur mikils og telur sérstakt gæðavottorð, er innsigluð í sérstökum samstarfssamningi. Góð tengsl milli Norðurlandanna tryggja sameiginleg námskeið til að efla skilning á starfi ShelterBox,- fjáröflun, kynningu og samræmingu hjálparstarfsins. Slíkt námskeið mun væntanlega verða haldið síðar á þessu ári og sagði Skafti Halldórsson að tvö pláss gætu væntanlega staðið íslenskum þátttakendum til boða.

Texti: Markús Örn Antonsson.

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum