Tónleikar í Norðurljósasal Hörpu 6. janúar
Sunnudaginn 6. janúar kl. 17 stendur Rótarý á Íslandi fyrir stórtónleikum í Norðurljósasal Hörpu, líkt og undanfarin ár. Þar verða veittir veglegir styrkir úr Tónlistarsjóði Rótarý á Íslandi og flutt glæsileg tónlistardagskrá.
Hægt er að kaupa miða hér
Bjarni Thor Kristinsson bassi og Lilja Guðmundsdóttir sópran verða aðalsöngvarar kvöldsins en með þeim leikur Helga Bryndís Magnúsdóttir á píanó.
Sigríður Ósk Kristjánsdóttir maessósópran, sem átti að vera aðalsöngvari, forfallaðist á síðustu stundu vegna veikinda.
Verðlaunahafar Tónlistarsjóðs Rótarý í ár eru þau Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir sellóleikari og Óskar Magnússon gítarleikari og munu þau taka við verðlaununum á tónleikum auk þess að koma fram.
Dagskrá
Bjarni:
Í dag (Sigfús Halldórsson/Sigurður Sigurðsson frá Arnarholti)
Sprettur (Sveinbjörn Sveinbjörnsson/Hannes Hafstein)
Lilja:
Undarleg ósköp að deyja (Gunnsteinn Ólafsson/Hannes Pétursson)
Vont og gott Tryggvi M. Baldvinsson(/Þórarinn Eldjárn)
Bjarni:
Ich bin ein Bass (E. Kötscher/H.H.Henning)
Old man river – (úr Show Boat e. Kern og Hammerstein)
Lilja:
Den första kyssen (J. Sibelius/Runeberg)
Var det en dröm (J. Sibelius:/Wecksell)
Bæði:
Bess you is my woman now (dúett úr Porgy and Bess e. G. Gershwin)
Hlé
Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir, selló
J.S.Bach: Prelúdía úr Svítu nr. 4,
S. Rachmaninoff: Andante úr sónötu í g-moll
Óskar Magnússon, gítar
Giulio Regondi: Reverie
Bjarni:
Als Büblein klein (aría Falstaff úr Kátu konunum frá Windsor e. O. Nicolai)
Lilja:
Söngur mánans (aría Rúsölku úr samnefndri óperu e. A. Dvorak)
Bjarni:
La Calunnia (aría Basilio úr Rakaranum frá Sevilla e. G. Rossini)
Lilja:
Vilja-Lied (aría Hönnu úr Kátu ekkjunni e. F. Lehar)
Tónlistarsjóður Rótarý
Tilgangur Tónlistarsjóðs Rótarý á Íslandi er að veita ungu tónlistarfólki sem skarað hefur fram úr á einhverju sviði tónlistar viðurkenningu í formi fjárstyrks til frekara náms. Árlega er veitt úr tónlistarsjóði Rótarý á Íslandi en 22 einstaklingar hafa fengið styrk úr sjóðnum frá 2005 er Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari fékk fyrsta styrkinn.
Um flytjendurna

Bjarni Thor Kristinsson bassi
Bjarni Thor er hópi þeirra íslensku óperusöngvara sem náð hefur hvað lengst á erlendri grund. Hann hóf söngnám við tónlistarskólann í Njarðvík hjá Ragnheiði Guðmundsdóttur og stundaði það síðan með hléum áfram í Tónskóla Sigursveins og Söngskólanum í Reykjavík. Haustið 1994 hélt Bjarni til frekara náms við óperudeild Tónlistarháskólans í Vín og naut þar leiðsagnar Helene Karusso og Curt Malm. Vorið 1997 var Bjarni síðan ráðinn sem aðalbassasöngvari Þjóðaróperunnar þar í borg. Þar var hann fastráðinn til þriggja ára og að þeim tíma liðnum sneri hann sér einungis að lausamennsku. Meðal helstu óperuhlutverka Bjarna má nefna: Barón Ochs í Rósariddaranum, Osmin í Brottnáminu úr kvennabúrinu, Pímen í Boris Godunow, Rocco í Fidelio, John Falstaff í Kátu konunum frá Windsor, van Bett í Zar und Zimmermann, að ógleymdum ýmsum hlutverkum í óperum Wagners: Wotan í Rínargullinu, Pogner í Meistarasöngvurunum, Daland í Hollendingnum fljúgandi, Hinrik konung í Lohengrin, Gurnemanz í Parsifal og risanum Fáfni í Niflungahringnum. Eftir að Bjarni gerðist lausamaður í söng hefur hann verið fastur gestur í Ríkisóperunni í Berlín auk þess að koma fram í óperuhúsum í Chicago, París, Feneyjum, Verona, Flórenz, Palermo, Róm, Lissabon, Barcelona, Hamborg, Dresden, München, Wiesbaden, Karlsruhe og Dortmund svo eitthvað sé nefnt. Bjarni söng hlutverk Osmin í Brottnáminu úr kvennabúrinu hjá Íslensku óperunni haustið 2006 og fékk Grímuna, íslensku leiklistarverðlaunin, sem söngvari ársins fyrir hlutverkið. Þá tók hann þátt í flutningi á verkinu Edda 1 eftir Jón Leifs með Sinfóníuhljómsveit Íslands haustið 2006 og söng einnig með hljómsveitinni við opnun tónlistarhússins Hörpu. Framundan eru verkefni í Köln, Kassel, Peking og Tokyo svo eitthvað sé nefnt.
Undanfarin ár hefur Bjarni Thor einnig leikstýrt nokkrum óperum og staðið fyrir tónleikaröð í Hörpu undir heitinu Pearls of Icelandic song.

Lilja Guðmundsdóttir sópran
Lilja ólst upp á Kópaskeri og stundaði söngnám í Tónlistarskólanum á Akureyri, við Söngskóla Sigurðar Demetz og í Konservatorium Wien í Vínarborg. Þaðan lauk hún Mastersprófi haustið 2015 með fyrstu einkunn. Hennar helstu kennarar voru Sigríður Aðalsteinsdóttir, Sigrún Hjálmtýsdóttir og Uta Schwabe. Meðal hlutverka hennar í skólanum í Vínarborg voru Fiordiligi í Cosi fan tutte, Lauretta í Gianni Schicchi, Corinna í Il Viaggio a Reims og Anne Trulove í The Rake’s Progress. Önnur hlutverk í Vínarborg eru Suor Osmina og Una Novizia í uppsetningu Theater an der Wien 2012 á Suor Angelica og Næturdrottningin í uppfærslu Oh!pera á Töfraflautunni sumarið 2014. Hér heima hefur Lilja sungið hlutverk Donnu Elviru úr Don Giovanni með Sinfoníuhljómsveit unga fólksins, Frasquitu í Carmen hjá Íslensku óperunni, 2. Niece í Peter Grimes á Listahátíð vorið 2015 og Madame Herz í Viðburðarstjóranum í Iðnó 2017. Þá hefur Lilja komið fram sem sólóisti með The Festival Orchestra Wien í 9 borgum í Finnlandi og í Búlgaríu árið 2016. Í september 2016 kom hún fram á óperugala tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands og árið 2017 var hún einsöngvari á tónleikum Salon Islandus.
Helga Bryndís Magnúsdóttir hóf tónlistarnám við Tónlistarskólann í Vestmannaeyjum. Síðar nam hún við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi sem einleikari og píanókennari árið 1987. Aðalkennari hennar þar var Jónas Ingimundarson píanóleikari. Framhaldsnám stundaði Helga Bryndís hjá Leonid Brumberg í Vínarborg, Liisu Pohjola og Tuiju Hakkila í Helsinki. Eftir að námi lauk hefur hún tekið virkan þátt í tónlistarlífinu á Íslandi bæði sem einleikari og í kammertónlist ýmiskonar og þá ekki hvað minnst með söngvurum. Hún starfar nú sem píanóleikari við Listaháskóla Íslands og tónlistarskólana í Reykjanesbæ og Kópavogi. Hún er meðlimur í Caput hópnum.
Um verðlaunahafa Tónlistarsjóðs Rótarý
Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir er fædd 1994. Hún hóf sellónám 5 ára gömul undir handleiðslu Gunnars Kvaran. Árið 2008 hóf hún nám við Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hún hélt áfram námi hjá Gunnari Kvaran en einnig hjá Sigurgeir Agnarssyni. Hún lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 2013 og stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 2012. Geirþrúður Anna hélt áfram námi hjá Hans Jensen við Northwestern University í Chicago og lauk bakkalárprófi vorið 2017. Hún var meðlimur Civic Orchestra of Chicago árið 2017-18. Hún hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins og heldur reglulega tónleika, bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi. Geirþrúður hóf meistaranám í sellóleik við Juilliard-skólann í New York í september s.l. og mun útskrifast þaðan vorið 2020.

Óskar Magnússon hóf nám í klassískum gítarleik ungur að aldri við Nýja tónlistarskólann. Þar lærði hann hjá Pétri Valgarð Péturssyni og lauk framhaldsstigi árið 2014. Sama ár hóf hann nám við Listaháskóla Íslands undir leiðsögn Svans Vilbergssonar og útskrifaðist með bakkalárgráðu vorið 2017. Samhliða því námi starfaði hann sem gítarkennari við Nýja tónlistarskólann, þar sem hann var áður nemandi, og á þessum árum vann hann markvisst að því að auka þekkingu sína á hljóðfærinu, heimi tónlistarinnar og tónlistarlífinu á Íslandi. Að loknu námi við Listaháskólann var honum svo veitt viðurkenning úr styrktarsjóði Halldórs Hansen fyrir framúrskarandi árangur í námi. Óskar er nú á sínu öðru ári í meistaranámi við San Francisco Conservatory of Music í Bandaríkjunum þar sem hann lærir hjá franska gítarleikaranum Judicael Perroy. Samstarf þeirra tveggja hefur reynst Óskari afar vel og í nóvember hlaut hann fyrsta sæti í „Andriassian guitar competition“ gítarkeppni í Los Angeles. Eftir meistaranámið hyggst hann koma aftur heim til Íslands og hefja störf sem gítar- og tónlistarkennari, nýta þekkingu sína og ástríðu til að hvetja ungt fólk áfram í tónlist og vera virkur í íslensku tónlistarlífi.