Miðvikudagur, febrúar 28, 2024
HeimFréttirSkönnun á vikulegum fréttabréfum Rkl. Ólafsfjarðar hafin af krafti

Skönnun á vikulegum fréttabréfum Rkl. Ólafsfjarðar hafin af krafti

Félagar i Rótarýklúbbi Ólafsfjarðar hafa allt frá stofnun klúbbsins árið 1955 skrifað vikuleg fréttabréf.  Einkum fréttir úr bæjarlífinu, bæði til sjávar og sveita.  

Veður, aflabrögð, uppskerufréttir og samgöngur eru einskonar leiðarstef í bréfunum, en það er raunar fjallað um allt á milli himins og jarðar í þeim og ná þessi bréf yfir 66 ár.
Þau hafa varðveist ótrúlega vel og hefur tekist að safna þeim saman til geymslu á Héraðsskjalasafni Fjallabyggðar.  Það er hugsanlegt að vanti 3-4 ár, líklega 2 bækur, og ef einhver veit um þær þiggjum við upplýsingar með þökkum.

Það var samþykkt á hátíðarfundi;  fundi nr. 3.000 frá stofnun klúbbsins að koma bréfunum yfir á stafrænt form. Lítið gerðist í því fyrr en nú; lokið hafði verið við að skanna nýjustu bréfin ca. 700 stk. áður en skönnun hófst nú í vor. 

Verkið er einfaldlega of stórt til að hægt sé að gera það í sjálfboðavinnu og því var leitað leiða til að geta búið til starf um verkefnið.  Fjöldi bréfanna sem þarf að skanna er hugsanlega um 2.500 og er talið að skönnun, skránig og önnur vinna, sem þarf að fara fram, geti tekið 3 – 4 mánuði fyrir einn starfsmann.

Vinnusvæðið: „Marsbúinn“ þ.e. hluturinn til hægri er sérhæfður bókaskanni, sem sendir geisla eftir bókinni og tekur þannig einhverslags mynd og sendir yfir í tölvu. Jódís Jana Helgadóttir vinnur svo úr myndunum í tölvunni og kemur í rafræna geymslu á lausu drifi og í skýinu.

Klúbburinn fékk höfðinglegan styrk, 600 þúsund krónur, frá verkefnasjóði íslenska rótarýumdæmisins til að þoka málinu áfram. Klúbburinn er svo í samstarfi við Fjallsali/Pálshús við skönnunina. Félagið fékk ráðningarstyrk frá Vinnumálastofnun til að ráða starfsmann, Jódísi Jönu Helgadóttur, í verkið.

Menntaskólinn á Tröllaskaga á sérstakan bókaskanna sem er mikið þarfaþing í svona verkefnum og fær Jódís að nota skannann og er í skólanum við að skanna fréttabréfabækurnar.

Í framtíðinni er svo hægt að hugsa sér að unnt verði að birta þessi bréf á einhverri vefsíðu, t.d. síðu Pálshúss, þar sem verið er að vinna í að setja upp myndasafn.  Þá verður sagan til bæði í máli og myndum. Það á eftir að koma í ljós, en í þessum bréfum er mikil saga og hafa þau oft á tíðum verið notuð í heimildaöflun.

Rafrænu útgáfur bréfanna eru og verða geymdar á tveim stöðum til öryggis, í skýinu og á lausu drifi.  Bækurnar fara svo aftur á héraðsskjalasafnið að aflokinni skönnun.

K. Haraldur Gunnlaugsson, forseti Rkl. Ólafsfjarðar.

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum