Föstudagur, september 22, 2023
HeimFréttirSótt fram í starfi Rótarý við erfiðar aðstæður á liðnu starfsári

Sótt fram í starfi Rótarý við erfiðar aðstæður á liðnu starfsári

Á aðalfundi Rótarý á Íslandi sem haldinn var á umdæmisþingu á Hallormsstað þ. 9. október sl. gerði Soffía Gísladóttir, fráfaradi umdæmisstjóri, ítarlega grein fyrir fjölbreytni í verkefnum á starfsárinu þrátt fyrir hinar fordæmalausu og erfiðu aðstæður, sem sköpuðust vegna heimsfaraldursins. Hér á eftir verða rifjuð upp atriði úr ræðu Soffíu.

– COVID-19, kórónuveiran, sóttvarnir, samskiptafjarlægð, samkomutakmarkanir, grímuskylda og mörg önnur samskonar faraldurshugtök hafa verið okkur töm á starfsári mínu sem umdæmisstjóri 2020-2021. Það fór svo að allt hefðbundið Rótarýstarf raskaðist og við urðum að vera mjög lausnarmiðuð í störfum okkar allt starfsárið.

„Við létum aldrei neinn bilbug á okkur finna…“

En sem betur fer lagði enginn árar í bát og forsetar Rótarýklúbbanna eiga hrós skilið fyrir að stýra starfinu í mjög misjöfnum og krefjandi aðstæðum. Vissulega höfðum við áhyggjur af stöðunni og við veltum því fyrir okkur hvernig svona mikið inngrip í félagsstarf færi með félagatalið okkar, en í heildina fjölgaði um 6 félaga á árinu sem er sigur fyrir umdæmið því sagan var önnur víðast hvar í nágrannalöndum okkar.

Við létum aldrei neinn bilbug á okkur finna og í hvert sinn sem við þurftum að gera breytingar á fyrirhugaðri dagskrá starfsársins, hvort sem það var um að ræða fræðslumótið, umdæmisþingið, Rótarýdaginn, Rótarýtónleikana og viðlíka viðburði bæði á vegum umdæmisins og klúbbanna, gerðum við það með bros á vör því við trúðum á verkefnið.

Frá sjónvarpsútsendingu Rótarýdagsins á vefnum.

Stígum stolt fram

Kjörorðið mitt var Stígum stolt fram. Með kjörorðinu vildi ég höfða til stolts Rótarýfélaga um allt land, að þeir væru stoltir af því að vera félagar í einum virtustu mannúðarsamtökum á heimsvísu sem hafa þjónustu ofar eigin hag að markmiði sínu.

Ég hvatti klúbba til þess að huga að félagauppbyggingu, ekki eingöngu með það í huga að laða að nýja félaga til klúbbanna, heldur einnig með því að byggja upp og styrkja góða klúbba, innan frá. Klúbbastarfið er grasrótin í Rótarýhreyfingunni, því án félaganna værum við ekki til. Það er því mikilvægt að okkur líði vel í klúbbnum okkar, fyrst og fremst, og að við styrkjum hann með því að fela öllum félögum skilgreind verkefni.

Kynningarmál

Ég ákvað að stofna kynningarnefnd á starfsárinu til þess að koma starfi Rótarý á Íslandi betur á framfæri, með kjörorð mitt að leiðarljósi að stíga stolt fram, og kynna þannig okkar frábæra starf. Hlutverk nefndarinnar er að gera Rótarý á Íslandi sýnilegra á samfélagsmiðlum og öðrum þeim miðlum sem ákveðið er að nota, og þannig vekja athygli á því góða starfi og áherslum sem Rótarý stendur fyrir hverju sinni.

Tveir nýir Rótarýklúbbar í umdæminu

Á starfsárinu voru stofnaðir tveir nýir Rótarýklúbbar og einn klúbbur sameinaðist öðrum þannig að okkur fjölgaði samtals um einn klúbb og erum nú með 32 starfandi Rótarýklúbba í umdæminu. Rótarýklúbbur Eyjafjarðar, sem var orðinn ansi fámennur klúbbur tók þá ákvörðun í lok starfsársins 2019-2020 að óska eftir inngöngu í Rótarýklúbb Akureyrar og hófu þeir nýtt starfsár 2020-2021 sem félagar í þeim klúbbi.

Það er mikilvægt að halda í kennitölur klúbba því þá er hægt með einföldum hætti, að stofna nýjan klúbb á grunni þess sem lagður hefur verið af. Til þess að stofna klúbb þarf 20 félaga, en til að halda klúbbi starfandi þarf 8 félaga. Umdæmið hafði verið í viðræðum við áhugasama fyrrum Rótarýfélaga í Húnavatnssýslum um að stofna klúbb þar, en erfitt hafði reynst að ná þessum tilskylda fjölda. Nú var lag þegar Rótarýklúbbur Eyjafjarðar ákvað að sameinast Rótarýklúbbi Akureyrar og úr varð að stofnaður var Rótarýklúbbur Húnvetninga. Það voru 8 stoltir Rótarýfélagar úr Húnavatnssýslum sem stóðu að stofnun klúbbsins og munu byggja hann upp sem mjög dýnamískan klúbb sem starfar þvert á sveitarfélög í báðum Húnavatnssýslunum. Klúbburinn mun funda á tveggja vikna fresti, til skiptis á Zoom og í „raunheimi“, en þá munu félagarnir funda til skiptis í sveitarfélögum starfssvæðisins.

Á umdæmisþinginu nældi Soffía Rótarý-merki í þrjá fulltrúa hins nýstofnaða E-klúbbs, frá vinstri Sigríður Ólafsdóttir, sem er í verkefnanefnd E-klúbbsins, Elín Björnsdóttir, gjaldkeri klúbbsins og Guðlaug Gísladóttir, ritari klúbbsins.

Þann 25. júní sl. var stofnaður nýr E-klúbbur í umdæminu, eftir vandaðan undirbúning öflugra einstaklinga í 7 mánuði. Klúbburinn heitir Rotary eClub of Iceland og starfar á netinu um allan heim. Hann samanstendur af Íslendingum erlendis, hér heima og íslenskumælandi einstaklingum. Fundirnir fara fram annan hvern miðvikudag kl. 17.00 á íslenskum tíma. Það verður spennandi að fylgjast með klúbbnum þróast, en hingað til hafa virkilega góð og fræðandi erindi einkennt fundarstarfið, enda hvergi auðveldara að fá áhugaverða fyrirlesara en í gegnum netið.

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Most Popular

Recent Comments