Stjórn Verkefnasjóðs Rótarý tekur til starfa

0
470

Stjórn Verkefnasjóðs Rótarý, sem stofnaður var formlega hinn 1. des. sl., kom saman til fyrsta fundar í gær. Í stjórninni eru Knútur Óskarsson Rkl. Mosfellssveitar, formaður, Esther Guðmundsdóttir, Rkl. Rvík Miðborg og Jón M. Einarsson Rkl. Héraðsbúa. Varamenn: Garðar Eiríksson Rkl. Selfoss og Lára Stefánsdóttir, Rkl. Ólafsfjarðar. Þá sat Anna Stefánsdóttir, umdæmisstjóri, einnig þennan fyrsta fund. Jón M. Einarsson var veðurtepptur og mætti Garðar Eiríksson í hans stað. Lára Stefánsdóttir tók þátt í fundinum um Skype og var nýr búnaður fyrir slík samskipti einmitt prófaður og tekinn í notkun í aðsetri umdæmisins á fundinum.

Að sögn Knúts Óskarssonar, formanns sjóðsstjórnar, var á þessum fyrsta fundi stjórnarinnar fjallað um væntanlega starfsemi sjóðsins og reglur fyrir starf hans á fyrsta starfsári mótaðar. Ákveðið var að stefna að kynningu í rótarýklúbbunum og opnun á umsóknum fyrir lok mánaðarins, og að umsóknarfrestur verði til 1. mars. Úthlutun yrði í lok mars eða byrjun apríl, ef áætlanir ganga eftir.

Unnið er eftir þeirri áætlun að úthluta 2.000.000 til 2.500.000 króna á starfsárinu til rótarýklúbba vegna verkefna í nærumhverfi þeirra. Lögð verður sérstök áhersla á umhverfismál, en í 2 gr. í skipulagsskrá fyrir sjóðinn kemur fram að tilgangur hans sé að styðja rótarýklúbba, sem ráðast í verkefni í sínu nærumhverfi á sviði umhverfismála, forvarna, mennta, lista, vísinda eða annarra samfélagsverkefna.

Texti og myndir: Markús Örn