Umdæmisstjóri Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi undirritaði í dag, 11.mars, samstarfssamning til þriggja ára við Umhverfis- orku og loftslagsráðuneytið og Landsvirkjun um Stóra plokkdaginn sem fyrst var haldinn að frumkvæði og undir stjórn Einars Bárðarsonar, rótarýfélaga, árið 2018.
Rótarýhreyfingin tók þátt í að skipuleggja plokk viðburði hjá nokkrum Rótarýklúbbum á landinu í fyrra sem þóttist takast mjög vel og var í kjölfarið ákveðið að gera daginn að lykil umhverfisverkefni starfsársins til ársins 2026.
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra, Ómar Bragi Stefánsson umdæmisstjóri Rótarý og Jóna Bjarnadóttir fulltrúi Landsvirkjunar undirrituðu samninginn fyrr í dag í Umhverfis- orku og loftslagsráðuneytinu. Þar lýstu þau öll yfir mikilli ánægju með samstarfið og sagði Guðlaugur Þór að þetta verkefni væri gott dæmi um það hvernig almenningur geti látið verkin tala, oft miklu betur en ríkið sjálft.
“Rótarýhreyfingin ætlar sér að verða hreyfiafl og virkja almenning, því Rótarýfélagar klúbbanna um land allt ætla að hvetja fólk í sínu nærsamfélagi, nágranna, vini og vinnufélaga til að taka þátt” sagði Ómar Bragi. Fram kom í máli Jónu að það væri hluti af stefnu Landsvirkjunar að bera virðingu fyrir náttúrunni og með þessu verkefni gæfist fólki kostur á því að leggja sitt af mörkum til verndar náttúrunni.
Landsvirkjun og ráðuneytið hafa frá upphafi stutt Stóra plokkdaginn en með samstarfssamningnum hefur deginum verið tryggt bakland til næstu þriggja ára og með aðkomu Rótarý hreyfingarinnar verður til kraftmikil umgjörð og heildarskipulag á landsvísu. Þá er einnig tryggt að allir geta gert daginn að verkefni hjá sér, fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og einstaklingar geta öll skipulagt viðburði og kynnt þá undir merkjum Stóra plokkdagsins.
Stóri plokkdagurinn verður haldinn um allt land sunnudaginn 28. apríl næstkomandi.
Á myndinni eru frá vinstri; María Björk Ingvadóttir kynningarstjóri Rótarý, Ólafur Arnar Jónsson og Jóna Bjarnadóttir frá Landsvirkjun. Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis- orku og loftslagsráðherra, Ómar Bragi Stefánsson umdæmisstjóri Rótarý, Jón Karl Ólafsson verðandi umdæmisstjóri, Einar Bárðarson plokkari og Þórunn Elfa Sæmundsdóttir, ritari ráðherra og plokkari.