Föstudagur, 6. desember 2024
HeimFréttirStyrkir Verðlauna- og styrktarsjóðs Rótarý til verkefna á Héraði

Styrkir Verðlauna- og styrktarsjóðs Rótarý til verkefna á Héraði

Verðlauna- og styrktarsjóður Rótarýumdæmisins á Íslandi veitir að öllu jöfnu árlega viðurkenningu fyrir framúrskarandi eða nýstárlegt framtak sem unnið er í umdæminu á sviði mennta-, lista-, vísinda- eða atvinnumála og styðja samfélagsverkefni hérlendis.  Sú hefð hefur skapast að verkefnið/-in komi af svæði viðkomandi umdæmisstjóra og fer úthlutun fram á umdæmisþingi ár hvert.

Að þessu sinni voru tilnefnd 11 verkefni af svæðinu og til úthlutunar voru kr. 1.000.000,- Úthlutunarnefndinni var því vandi á höndum að gera upp á milli þessara glæsilegu verkefna sem tilnefnd voru og ljóst er að mikil gróska er á félagssvæði Rótarýklúbbs Héraðsbúa.

Fulltrúar í úthlutunarnefndinni koma vítt og breitt af landinu, en þeir eru formaður Margrét Friðriksdóttir f.v. umdæmisstjóri og félagi í Rótarýklúbbnum Borgum í Kópavogi,  Ásta Björg Björnsdóttir Rótarýklúbbi Mosfellssveitar, Jóhanna Ásmundsdóttir Rótarýklúbbi Akureyrar, Kristján Már Gunnarsson Rótarýklúbbi Selfoss og Ólöf Margrét Snorradóttir Rótarýklúbbi Héraðsbúa.

Við mat á verkefnum var farið að reglum um verðlauna- og styrktarsjóð auk þess sem átta þættir voru skoðaðir sérstaklega en þeir eru; Er um að ræða framúrskarandi framtak, er verkefnið nýstárlegt, er verkefnið á sviði mennta-, lista-, vísinda- eða atvinnumála, er um samfélagsverkefni að ræða og loks hvort verkefnið sé á félagssvæði þess klúbbs sem heldur umdæmisþingið hverju sinni.

Niðurstöður úthlutunarnefndar að þessu sinni var að veita tveimur verkefnum styrk að upphæð kr. 500.000,-  hvoru en það eru verkefnin:

Nemendaþjónusta Menntaskólans á Egilsstöðum og Tónleikafélag Austurlands

Nemendaþjónusta Menntaskólans á Egilsstöðum:  Starf nemendaþjónustu Menntaskólans hefur vakið athygli hjá lesblindum. Þar hefur verið veitt ráðgjöf með áherslu á nýtingu upplýsinga- og samskiptatækni fyrir lesblinda. Það hefur meðal annars skilað sér í námskeiðum fyrir nema við Menntaskólann á Egilsstöðum sem eiga erfitt með lestur, nokkuð sem kallað hefur verið „lesblindusmiðja.“ Þar er veitt fræðsla um lesblindu, fjallað um einkenni, líðan og úrræði og notkun hjálpartækja. Kynntar hafa verið lausnir með ólík notagildi frá ýmsum samtökum og fyrirtækjum þannig að flestir ættu að finna það sem þeim nýtist. Þetta starf Nemendaþjónustu Menntaskólans á Egilsstöðum er mikilvægt samfélagverkefni á sviði mennta fyrir ungt fólk, verkefnið er nýstárlegt og framúrskarandi framtak sem getur verið öðrum menntastofnunum fyrirmynd og hvatning. Verkefnið getur einnig orðið mikilvægt framlag í þágu þeirra fjölmörgu einstaklinga sem glíma við lesblindu í íslensku samfélagi. Styrkur kr. 500.000,-

Nanna Halldóra Imsland, náms- og starfsráðgjafi  Menntaskólans á Egilsstöðum (ME) lýsti starfinu nánar:

„Hlutverk Nemendaþjónustunnar í ME er að vera málsvarar og trúnaðarmenn nemenda innan skólans og standa vörð um velferð þeirra. Við leggjum áherslu á að mæta öllum nemendum þar sem þeir eru staddir og finna leiðir til að dvölin í skólanum verði ánægjuleg og að fjölbreyttur nemendahópurinn upplifi valdeflandi umhverfi. 

Áhersla er lögð á einstaklingsráðgjöf og samvinnu við starfsfólk innan sem utan skólans, hópráðgjöf og námskeiðahald; lesblindumsmiðja, ADHD smiðja, kvíðastjórnunarnámskeið, námstækni- og tímastjórnunarsmiðjur, áfangaval út frá áhuga og framtíðarsýn o.fl. Síðustu ár hafa hóparnir, Sjálfsefling & súkkulaði  og útivistar- og reynslunámsverkefnið F:ire and Ice vakið athygli, en báðir stuðla að sterkari sjálfsmynd og aukinni samskiptafærni nemenda. Nemendaþjónustan leitast við að nýta fjölbreyttar leiðir til að ná til nemenda, svo sem í gegn um samfélagsmiðla og gagnabanka á heimasíðu.

„Við teljum það mikil forréttindi að vinna með jafn fjölbreyttu og frábæru fólki og er í ME. Sveigjanlegt og hvetjandi starfsumhverfi ásamt jákvæðni og góðum undirtektum stjórnenda, samstarfsfólks og nemenda hafa lagt grunn að framþróun nemendaþjónustunnar og efla okkur til áframhaldandi nýsköpunar í þjónustu við nemendur. 

Nemendaþjónusta ME samanstendur af Bergþóru áfangastjóra, Hildi félagsráðgjafa og náttúrumeðferðaraðila og Nönnu náms- og starfsráðgjafa. Við vinnum saman í lausnamiðuðu teymi með mismunandi styrkleika en eigum sameiginlega jákvæðni, sveigjanleika og réttlætiskennd.“

Tónleikafélag Austurlands:  Tónleikafélag Austurlands var sett saman árið 2016 með það að markmiði að styrkja geðheilbrigðismál ungmenna í fjórðungnum ásamt því að gefa yngra tónlistarfólki tækifæri á því að koma fram á tónleikum og láta þannig gott af sér leiða en  allur ágóði af tónleikum hefur runnið til geðsviðs HSA. Hér er um framúrskarandi framtak að ræða á sviði lista og mennta. Verkefnið er mikilvægt fyrir samfélagið og styrkir stöðu ungs fólks sem glímir við þunglyndi og kvíða. Verkefnið er nýstárlegt í forvörnum á þessu sviði og til fyrirmyndir fyrir önnur sveitarfélög sem vinna að forvörnum á sviði gerðheilbrigðismála. Styrkur kr. 500.000,-

Bjarni Þór Haraldsson, forsvarsmaður Tónleikafélags Austurlands, greindi nánar frá:

„Tónleikafélag Austurlands sem stofnað var árið 2016 hefur skírt markmið en það er að styrkja geðheilbrigðismál ungmenna í fjórðungnum ásamt því að gefa yngra tónlistarfólki tækifæri á því að koma fram á metnaðarfullum tónleikum með reyndu listafólki. Það hefur verið gríðarlega gefandi að sjá þátttakendur taka þetta verkefni uppá sína arma og leggja sitt af mörkum til bættrar geðheilsu ungmenna. Það er mjög mikið fengið með því að setja verkefni eins og þetta upp á þann hátt að ungmenni séu í forgrunni og það gefur jafningjum þeirra mikinn innblástur.

Áherslan var strax á geðheilsu ungmenna því það er mikið fengið með því að bregðast við sem fyrst og grípa inn í með þeim úrræðum sem eru í boði. Mikill einhugur er í hópnum um þessa nálgun og allir samstíga.

Allir ágóði tónleikana hefur runnið óskiptur til HSA og eyrnamerkt geðsviði. Það hefur verið einstaklega ljúft að verða vitni af því hvernig gjafaféð hefur nýst. Á teikniborðinu er ráðstefna um andlega líðan ungmenna. Ráðstefnan verður aðallega á fyrirlestrar formi þar sem fagfólk kemur fram og svo sterkar fyrirmyndir í okkar samfélagi sem hafa glímt við andlegar áskoranir.“

 

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum