Styrkþegar Tónlistarsjóðs Rótarý árið 2022 eru þau Alexander Smári Edelstein, píanóleikari og Sólveig Vaka Eyþórsdóttir, fiðluleikari. Nemur styrkurinn til hvors þeirra 800 þúsund krónum. Annar styrkurinn er frá umdæminu, hinn frá Rkl. Héraðsbúa. Stefán Baldursson, formaður stjórnar Tónlistarsjóðs, tilkynnti ákvörðun stjórnarinnar á Rótarýdaginn 23. febrúar.
Tónlistarstyrkir Rótarý hafa verið veittir árlega til eins eða tveggja styrkþega í senn frá árinu 2005. Sá fyrsti sem styrkinn hlaut var Víkingur Heiðar Ólafsson, píanóleikari en styrkþegar eru nú orðnir 30 talsins, allt einstaklega hæfileikaríkt tónlistarfólk. Styrkurinn er ætlaður ungu fólki í háskólanámi í tónlist og er æskilegt að það sé komið í meistaranám.
Hefð hefur skapast fyrir því að styrkþegarnir komi fram á árlegum tónleikum Rótarýhreyfingarinnar og skiptast klúbbar landsins á um að halda þá. Tónleikarnir í ár eru í umsjón Rótarýklúbbs Héraðsbúa og verða haldnir í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði sunnudaginn 24.apríl nk. Þar munu þau Alexander og Sólveig koma fram auk nokkurra annarra tónlistarmanna.
Vegna Covid faraldursins reyndist ekki unnt að halda Rótarýtónleikana í fyrra en þeir áttu að vera í Hofi á Akureyri í umsjón Rótarýklúbbs Akureyrar. Þeir tónleikar verða nú haldnir á skírdag, 14. apríl kl.16 í Hofi og koma styrkþegarnir frá því í fyrra fram á tónleikunum, þær Bryndís Guðjónsdóttir, sópransöngkona og Erna Vala Arnardóttir, píanóleikari. Einnig koma fram Kammerkórinn Hymnodia og Sinfóníuhljómveit Norðurlands.
Alexander Edelstein, píanóleikari er tuttugu og þriggja ára og stundar nú meistaranám í píanóleik við Tónlistarháskólann í Maastricht í Hollandi. Áður hafði hann útskrifast með B.Mus gráðu í sömu grein frá Listaháskóla Íslands 2021 og lék útskriftartónleika sína í Hörpu og í kjölfarið einleikstónleika í Hofi. Alexander stundaði píanónám við Tónlistarskólann á Akureyri undir handleiðslu Þórarins Stefánssonar frá unga aldri (2009-2017) og útskrifaðist með hæstu einkunn.
Sumarið 2020 hélt hann tónleikaröð í kirkjum á Norður-og Norðausturlandi til að kynna norðlensk tónskáld. Hann hefur hlotið ýmsar viðurkenningar og styrki fyrir spilamennsku sína. Tók þátt í píanókeppni EPTA (Evrópusambands píanókennara) árið 2012 og hlaut 1.verðlaun. Sama ár tók hann þátt í Nótunni -uppskeruhátíð tónlistarskólanna, haldin í Eldborg og hlaut 1.verðlaun sem einleikari.
Alexander hefur komið fram sem einleikari við ýmis tilefni, 2019 spilaði hann á tvennum tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands píanókonsert no.20 eftir Mozart undir stjórn Anna-Maria-Helsing. Í mastersnámi sínu leggur Alexander sérstaka áherslu á tónlist frá klassíska tímabilinu, eftir Mozart, Beethoven og Schubert.
Sólveig Vaka Eyþórsdóttir, fiðluleikari er tuttugu og sjö ára og í meistaranámi í fiðluleik í Hochschule für Musik und Theater ”Felix Mendelssohn Bartholdy” í Leipzig í Þýskalandi undir handleiðslu Austurríkismannsins Erichs Höbarth. Hún hafði áður lokið Bakkalárprófi frá sama skóla 2021, þar sem hún hóf nám 2016.
Sólveig hóf fiðlunám aðeins átta ára gömul. Að loknu námi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og stúdentsprófi, stundaði hún nám í Listaháskóla Íslands hjá Guðnýju Guðmundsdóttir í tvö ár áður en hún hélt utan. Síðustu ár hefur hún tekið virkan þátt í tónlistarlífinu bæði á Íslandi og í Þýskalandi.
Sólveig stofnaði kammersveitina Elju ásamt nokkrum vinum árið 2017 og spilar reglulega með Barokkbandinu Brák. Hún hefur einnig verið aukamaður í Sinfóníuhljómsveit Íslands síðan 2019. Frá árinu 2015 hefur hún verið meðlimur í strengjakvartett Ólafs Arnalds og ferðast með honum vítt um heiminn. Í Leipzig hefur hún haldið ýmsa kammertónleika, seinast á vegum tónlistarhátíðarinnar Con Spirito og komið fram sem aukamaður með Leipzig Philharmonie og Leipzig Symphonieorchester.