Laugardagur, 7. desember 2024
HeimFréttir"Það á að vera gaman að taka þátt i starfi Rótarý"

„Það á að vera gaman að taka þátt i starfi Rótarý“

-segir Bjarni K.Grímsson, félagi í Rkl. Grafarvogs í Reykjavík, sem tekur við starfi umdæmisstjóra Rótarý á Íslandi hinn 1. júlí n.k.

Bjarni hefur verið rótarýfélagi í rúm 30 ár, fyrst í Ólafsfirði, þegar hann var bæjarstjóri þar. Hann hefur mjög víðtæka starfsreynslu á ýmsum sviðum og hefur verið búsettur víða um land og þekkir vel til aðstæðna í þéttbýli sem dreifbýli. Í stuttu viðtali gerði Bjarni grein fyrir sjálfum sér og viðhorfum sínum til hinna margvíslegu verkefna, sem framundan eru innan Rótarý.

„Foreldrar minir voru hjónin Grímur Bjarnason, póstmeistari í Ólafsfirði, og Guðrún Sigurpálsdóttir. Ég ólst upp í Ólafsfirði, tók stúdentspróf við Menntaskólann á Akureyri og lauk prófi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands 1981. Vann með námi allan tímann. Á Akureyri hitti ég konuna mína í kringum stúdentsprófið og við eignuðust dreng 1975.  Hún heitir Brynja Eggertsdóttir og starfar nú sem safnafulltrúi hjá RÚV.“

Bjarni hóf störf hjá Útvegsbankanum og Fiskveiðasjóði, sem þá var fjárfestingalánasjóður sjávarútvegsins. Þaðan lá leiðin norður í land til starfa hjá FISK á Sauðárkróki. Síðan fluttu þau hjón til Þingeyrar, þar sem Bjarni rak kaupfélag, útgerð og fiskvinnslu í rúm fimm ár. Bæjarstjóri í Ólafsfirði var hann um fimm ára skeið. Að þvi loknu tók hann við starfi Fiskimálastjóra í Reykjavík, sem var framkvæmdastjórastarf hjá Fiskifélagi Íslands. Það var eins konar forveri sjávarútvegsráðuneytisins á sínum tíma, hélt Fiskiþing, sá um ýmis konar hagsýslu fyrir sjávarútveginn og gaf út tímaritið Ægi og Sjómannaalmanakið. Bjarni vann sem verkefnastjóri hjá Kristnihátíðarnefnd í kringum aldamótin 2000 og varð síðan deildarstjóri launadeildar Landspítala og sérfræðingur hjá Fjársýslu ríkisins. Þá var Bjarni starfsmaður á vegum Byggðastofnunar á Breiðdalsvík, vann að verkefnum fyrir Biskupsstofu og gegndi síðan starfi fjármálastjóra hjúkrunarheimilisins Eirar. Nú er hann skrifstofustjóri Þjónustu- og þekkingarmiðstövar blindra og sjónskertra.

„Ég hef víða farið og kynnst atvinnuháttum í landinu mjög vel. Við hjónin nutum þess að búa úti um land og á Þingeyri eignuðumst við tvo drengi meðan við bjuggum þar,“ rifjar Bjarni upp þegar hann lítur yfir farinn veg.

Komstu snemma í kynni við Rótarý?

„Því háttaði þannig til, að faðir minn gerðist rótarýfélagi á sjötta áratug síðustu aldar og bar starfsgreinaheitið „verkstjóri“. Ég fylgdist með því þegar hann fór á rótarýfundi og hvað rótarýfélagarnir voru að gera í þjónustuverkefnum fyrir bæjarfélagið. Það voru líka haldnir niðjafundir, þar sem ég var viðstaddur. Móðir mín sá um undirbúning og veitingar á rótarýfundunum ásamt eiginkonu annars rótarýfélaga. Þegar ég kom sem bæjarstjori til Ólafsfjarðar 1988 var mér boðið að gerast félagi í klúbbnum, hvað ég þáði með þökkum. Síðar varð ég stofnfélagi í Rkl. Reykjavík Grafarvogur.

Hvað er þér eftirminnilegast úr starfi rótarýklúbbsins í Ólafsfirði?

„Rkl. Ólafsfjarðar vann gríðarlega vel að nemendaskiptum í samvinnu við erlenda klúbba. Af litlum klúbbi var það með ólíkindum hvað hann stóð vel að móttöku erlendra skiptinema, sem voru 20-30 þar nyrðra á jafnmörgum árum. Það var ótrúlegur fjöldi. Nokkrir komu frá Ástralíu. Fyrir norðan kynntist maður þessu starfi náið því að systir mín og mágur voru með skiptinema og órjúfanleg vinátta skapaðist við fjölskyldur þeirra. Löngu seinna kom fyrrum skiptinemi sérstaklega með kærustu sinni til Ólafsfjarðar til að ganga í hjónaband.

Eftir að ég kom til Reykjavíkur höfum við fjölskyldan hýst þó nokkuð marga erlenda nema til lengri eða skemmri tíma. Yngsti sonur okkar fór líka í nemendaskiptum Rótarý til Bandaríkjanna, miðsonurinn var í sumarbúðum í Króatíu og fór þá í siglingu um Adríahafið og fékk svo Rótarýstyrk til mánaðardvalar í Arkansas í Bandaríkjunum.“

Bjarni K. Grímsson og Vala Jóna Garðarsdóttir, sem starfa hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta, skoða stillingar á nýju hjálpartæki. Það virkar eins og öflugt stækkunargler á allt umhverfið og nýtist mjög vel við sjónvarpsáhorf. Með því er hægt að fara inn á Internetið og taka m.a. myndir af skjölum.

Rótarý hefur lagað sig fljótt að breyttum aðstæðum í uppbyggingu Reykjavíkur og fært út kvíarnar eftir því sem ný borgarhverfi risu. Þannig var rótarýklúbbur stofnaður í Breiðholti fyrir tæpum 40 árum. Hann var móðurklúbbur Rkl. Árbæjar og sá klúbbur síðan móðurklúbbur Rkl. Grafarvogs.

„Jón Hákon Magnússon heitinn, sem gegndi formennsku í útbreiðslunefnd umdæmisins ýtti við mönnum um að stofna nýjan klúbb í Grafarvogi og var undirbúningur hafinn um aldamótin 2000. Formlega var klúbburinn stofnaður árið 2001 og var ég meðal stofnfélaganna. Ég var forseti klúbbsins starfsárið 2006 til 2007  Sem umdæmisstjóri starfa ég nú með undirbúningsnefnd klúbbsins vegna umdæmisþingsins, sem haldið verður á vegum hans í Grafarvoginum dagana 7. til 8. október nk. þar sem forystufólk í öllum klúbbunum hefur skyldumætingu.

Grafarvogsklúbburinn hefur verið mjög virkur og margt tekist vel í starfsemi hans og verkefnum. Sameiginleg ferðalög eru mjög góð leið til að þjappa fólki saman og efla félagsandann. Við höfum stutt við skáklífið í hverfinu og veitt árlega verðlaun í skákmótum. Þá höfum við farið árlega í dagsferðir upp á hálendi Íslands og notið þar útsýnis og útiveru. Sjálfur stunda ég fjallgöngur mikið, bæði hér á landi og erlendis. Það er ánægjulegt að njóta útivistarinnar líka með rótarýfélögunum.“ 

Er það tilfinning þín að það verði erfitt að ræsa klúbbfundastarfið og koma því á fulla ferð að nýju eftir Covid ?

„Það er mikil áskorun og spurning hvernig við tökum á henni. Í mínum eigin klúbbi héldu þó nokkrir sig til hlés vegna faraldursins þannig að það þarf að ýta á til að fá þá að fullu til starfa á ný. Sumir fundu sig ekki í netheimum en aðrir gerðu það mjög vel. Þetta kallar ekki á neinar stórbreytingar hjá klúbbunum, þarf kannski bara að hnippa í fólk.

Er fjarfundatæknin komin til að vera fyrir rótarýklúbbana?

„Bæði já og nei. Hefðbundnu klúbbarnir halda sínu striki en vafalaust verður vöxtur í stofnun e-klúbba á netinu. Hins vegar bjóða tengslin á netinu upp á mikla möguleika fyrir klúbbana almennt til að auðvelda þeim að fá góða fyrirlesara. Það getur nýst klúbbum sem eru í smáum byggðakjörnum í dreifbýli eins og gamli klúbburinn minn í Ólafsfirði. Ótal nýir möguleikar geta opnast til að fá fyrirlesara á fundi í gegnum fjarfundabúnað, nánast hvaðanæva að úr heiminum, og tengja þá úr fartölvunni við stóra skjái á fundarstaðnum.

Bjarni K. Grímsson og eiginkona hans Brynja Eggertsdóttir ásamt Ásdísi Helgu Bjarnadóttur,umdæmisstjóra 2021-2022.

Það stóð til að við verðandi umdæmisstjórar úr öllum heiminum hittumst á þingi í Flórída eftir áramótin síðustu. Af því varð ekki vegna Covid. Í staðinn fór ráðstefnan fram í netheimum. Það er allt annað og síðra en persónuleg upplifun og kynni á staðnum. Í fjölþjóðlegu starfi milli heimssvæða reynist þetta fyrirkomulag misvel, sérstaklega þegar tímamunurinn er orðinn mikill og menn verða að sitja fundi við tölvurnar um miðjar nætur.“

Rótarýfélögum hefur farið fækkandi í heiminum. Veldur sú þróun áhyggjum í starfinu hér á landi?

„Okkur hefur tekist vel að halda í horfinu verðandi félagatölu Rótarý, sem hefur verið stöðug um margra ára skeið, um 1200 félagar. Ég sé fyrir mér að góð styrking geti orðið að ýmis konar sérklúbbum eins og félagaþróunarnefnd umdæmisins hefur undirstrikað. Alþjóðahreyfingin hvetur til þess að ungt fólk úr Rotaract-klúbbum verði virkjað  til þátttöku í hinum hefðbundnu rótarýklúbbum. Það er að mörgu leyti snjallt en hafa ber í huga að unga fólkið er að ganga í gegnum mikið umrót og breytingar í lífi sínu, sem gera það að verkum að það á örðugt með að binda sig í félagsstörfum, er á leið í nám erlendis eða að stofna fjölskyldu og koma sér fyrir atvinnulega séð. Fyrsta tilraun hér með Rotaract koðnaði niður eftir glæsilega byrjun þegar þau með neistann þurftu að sinna persónulegum málum og fóru til útlanda í því skyni að mennta sig en enginn var til að taka við kyndlinum og halda áfram hér heima.“

Meðalaldur félaga í klúbbunum hækkar og er víða kominn yfir sjötugt. Verður það velheppnuð blanda þegar laða þarf að miklu yngra fólk í klúbbana?

„Hærri meðalaldur í klúbbum, lífaldur lengist og endurnýjun í klúbbunum fer fram með yngri aldurshópum nýrra félaga. Þetta getur farið mjög vel saman að mínum dómi. Ég lít til reynslu minnar frá því í gamla daga í okkar litla sjávarþorpi í Ólafsfirði. Þar voru haldnir dansleikir og þar mættu allir, afi og amma, pabbi og mamma og við unga fólkið. Allir skemmtu sér ljómandi vel saman á böllunum. Mér finnst liggja í hlutarins eðli að þannig geti það líka verið í Rótarý samtímans. Það á að vera gaman í Rótarý. Starfið þarf að vera gefandi og skemmtilegt.

Alþjóðahreyfingin leggur áherslu á fjölbreytnina í félagaöflun, að fólki af ólíkum uppruna, úr mismunandi störfum og þjóðfélagshópum, sé tekið fagnandi sem nýjum félögum í klúbbunum. Þetta á við á Íslandi samtímans eins og annars staðar.“   

Ertu með sérstök áhersluatriði sem þú ætlar að einbeita þér að á starfsárinu?

„Ég mun fylgja eftir þeim áherslum sem Jennifer E. Jones frá Kanada hefur markað, fyrsta konan sem gegnir embætti alþjóðaforseta í Rótarý. Nú eru umhverfismál og aðgerðir í loftslagsmálum mjög ofarlega á baugi hjá hreyfingunni. Mér finnst að íslensku klúbbarnir eigi að tengja sig betur inn í alþjóðlega dæmið. Gróðursetningarstarf er þar í fyrirrúmi. Hina sterku sjóði Rótarý má nýta til samstarfsverkefna af ýmsum toga. Jennifer vill að klúbbar og umdæmi tengist betur saman í verkefnum. Þar eigum við tvímælalaust samleið með félögum okkar á Norðurlöndunum. Samstarf norrænu klúbbanna finnst mér reist á sama grunni og vinabæjatengsl norrænna bæjarfélaga. Norðurlandasamstarfið innan Rótarý hefur reynst íslensku félögunum afar dýrmætt. Gagnkvæmar heimsóknir, sameiginleg blaðaútgáfa, samstarfsverkefni í mannúðarmálum og samstaða landanna fimm í alþjóðastarfinu í víðara samhengi er okkur mikils virði.

Í haust verður haldinn stórviðburður á vegum Rótarý hér á Íslandi, Iceland 2022 Action Summit, 13.- 18. september n.k. Umdæmi Rótarý í ýmsum löndum Norður-Evrópu halda fyrst venjubundna námsstefnu með verðandi umdæmisstjórum og fleiri embættismönnum. Þar verður alþjóðaforsetinn meðal þátttakenda. Til viðbótar hinu árvissa starfi verður tveggja daga ráðstefna. Oftast er setið inni og horft á glærur á slíkum fundum en í þetta skipti verður farið upp í rútur og ekið á vettvang. Nokkrir klúbbar hér á landi, á höfuðborgarsvæðinu og í næstu byggðum, hafa hver á sínum stað tekið að sér að undirbúa verkefni og fyrirlestra sem byggjast á sjö grunnstoðunum í öllu starfi hreyfingarinnar. Ráðstefnan er opin öllum rótarýfélögum og er hægt að skrá sig til þátttöku hér á vefnum rotary.is. Þetta verður mikilsverður viðburður fyrir Rótarý á Íslandi og fyrir íslenska rótarýfélaga að sækja. Við vonum líka að fjöldi erlendra félaga komi til að njóta hans með okkur og skoða landið í leiðinni.“

Texti og myndir: Markús Örn Antonsson.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum