Föstudagur, september 22, 2023
HeimFréttirTónleikar til minningar um Hallbjörgu Bjarnadóttur

Tónleikar til minningar um Hallbjörgu Bjarnadóttur

Í október á síðasta ári auglýstu Rótarýklúbbur Akraness og Tónlistarskólinn á Akranesi tónleika sem halda átti til minningar um Hallbjörgu Bjarnadóttur (1917–1997) söngkonu og frumkvöðul í djasstónlist á Íslandi. Hún ólst upp á Akranesi og átti þar heima fram á unglingsár.

Hallbjörg hélt ótrauð út í hinn stóra heim. Rödd hennar vakti athygli víða um lönd og hún starfaði í Bandaríkjunum, Danmörku og fleiri Evrópulöndum – kom meðal annars fram á tónleikum í Royal Albert Hall í London 1947. Hér á landi muna líklega flestir eftir flutningi hennar á eigin lögum við „Vorvísu“ Jóns Thoroddsen og ljóðið „Björt mey og hrein“ eftir Stefán Ólafsson frá Vallanesi.

Að sögn Jóhanns Ársælssonar, forseta Rkl. Akraness, áttu tónleikarnir að vera hluti af dagskrá Vökudaga 2021. Þegar þeir dýrðardagar voru nýgengnir í garð gekk kóvid bylgja mikil yfir bæinn og útilokaði allt samkomuhald. Ekki var samt hætt við tónleikana heldur var þeim frestað um ótiltekinn tíma. Verkefnasjóður Rótarý veitti styrk til að kosta tónleikana.

Nú virðist þeim sem standa að undirbúningi tónleikanna loksins óhætt að halda þá og þeir verða í Tónbergi, sal Tónlistarskóla Akraness, sunnudagskvöldið 6. mars klukkan 20. Fram kemur hópur listamanna: Andrea Gylfadóttir, Brynja Valdimarsdóttir, Jónína Björg Magnúsdóttir, Davíð Þór Jónsson, Eðvarð Lárusson, Óskar Þormarsson, Valdimar Olgeirsson og nemendur Tónlistarskóla Akraness. Kynnir verður útvarpsmaðurinn vinsæli, Ólafur Páll Gunnarsson.

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Most Popular

Recent Comments