Föstudagur, 6. desember 2024
HeimFréttirTvær ungar listakonur hlutu tónlistarverðlaun Rótarý 2021

Tvær ungar listakonur hlutu tónlistarverðlaun Rótarý 2021

Tónlistarsjóður Rótarý á Íslandi var stofnaður árið 2005 og hefur síðan verið úthlutað úr honum árlega, ýmist til eins eða tveggja styrkþega í senn. Ákveðið var að veita tvo styrki í ár eins og mörg undanfarin ár og nemur hvor þeirra 800 þúsund krónum.

Styrknum er ætlað að veita ungu tónlistarfólki sem skarað hefur fram úr á einhverju sviði tónlistar viðurkenningu í formi veglegs fjárstyrks til frekara náms. Styrkurinn er auglýstur árlega og tekið fram að hann sé einkum hugsaður fyrir tónlistarfólk sem komið sé í meistaranám á háskólastigi. Fyrsti styrkþeginn var Víkingur Heiðar Ólafsson, píanóleikari, og síðan hafa alls 28 tónlistarnemar hlotið styrk úr sjóðnum, 16 konur og 12 karlar. Flest þeirra eru nú orðin þekkt nöfn í tónlistarheiminum hér heima og nokkur erlendis. Umsóknir nú voru óvenjumargar eða 26 talsins,frá 15 konum og 11 körlum.

Stefán Baldursson, formaður sjóðsstjórnar.

Stjórn sjóðsins skipa fimm rótarýfélagar, flest tónlistarfólk eða fólk sem starfar að tónlist á einhvern hátt. Núverandi stjórn skipa: Stefán Baldursson, Rkl. Borgum Kópavogi, formaður, Heiðrún Hákonardóttir, Rkl. Borgum Kópavogi, Jón Hlöðver Áskelsson, Rkl. Akureyrar, Kjartan Sigurjónsson, Rkl. Borgum Kópavogi og Sveinn Hjörtur Hjartarson, Rkl. Kópavogs .

Stefán Baldursson, formaður sjóðsstjórnar, sagði að stjórninni hefði verið töluverður vandi á höndum.“Margar afbragðsgóðar umsóknir bárust,“ sagði Stefán,“ og þurfum við Íslendingar greinilega ekki að kvíða framtíðinni hvað varðar hæfileikafólk á sviði tónlistarinnar.“

Umsækjendum er gert að senda með umsókn nýlegar upptökur og sýnishorn af söng eða hljóðafæraleik sínum. Sjóðsstjórnin kemur sér saman um ákveðið viðmið við mat umsókna, þrengir lista yfir umsækjendur niður í örfá nöfn hver fyrir sig og fundar svo til þess að ræða og rökstyðja tillögur sínar nánar. Stjórnin náði einróma samstöðu um þá tvo styrkþega sem valdir voru.

Styrkþegar í ár eru: Bryndís Guðjónsdóttir, sópransöngkona og Erna Vala Arnardóttir, píanóleikari.

Bryndís Guðjónsdóttir er 27 ára. Hún stundaði söngnám við Listaháskóla Íslands en hélt síðan til Tónlistarháskólans Mozarteum í Salzburg þar sem hún lauk bakkalárprófi 2019. Hún hélt þar áfram meistaranámi og mun ljúka því á þessu ári. Bryndís hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna og hún hefur komið fram bæði í óperusýningum og á tónleikum í Austurríki, Þýskalandi og Ítalíu á síðustu misserum. Bryndís var ein af sigurvegurum keppninnar Ungir einleikarar 2017 á vegum Sinfoníuhljómsveitar Íslands og söng með hljómsveitinni 2018 og í 9. sinfóníu Beethovens með Ungsveit Sinfóníunnar 2019. Hún er komin í úrslit hinnar frægu Belvedere söngkeppni sem verður haldin 2021 og hefur verið boðið að syngja Næturdrottninguna á næsta ári bæði á tónleikum Sinfóníunnar og í uppfærslu í München.

Erna Vala Arnardóttir  er 25 ára. Hún lauk bakkalárprófi í píanóleik frá Listaháskóla Íslands 2017 og lauk síðan meistaragráðu frá Sibelíusarakademíunni í Helsinki. Í báðum þessum háskólum hefur hún einnig lagt stund á tónsmíðar. Hún hefur komið fram sem píanóleikari á ýmsum tónlistarhátíðum í Evrópu, ma.á Spáni, í Portúgal, Frakklandi, Ítalíu, Belgíu og London og verið einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún hefur unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga bæði heima og erlendis. Hún vann EPTA píanókeppnina á Íslandi og hlaut 1.verðlaun í keppninni Ungir einleikarar. Árið 2018 hlaut hún heiðursorðuna Hvítu rósina, sem foseti Finnlands veitir. Erna Vala stundar nú doktorsnám í píanóleik við USC Thornton tónlistarháskólann í Los Angeles.

Til stóð að styrkþegarnir kæmu fram á árlegum Rótarýtónleikum, sem í ár áttu að vera á Akureyri nú á skírdag. Vegna sóttvarnaraðgerða verður að fresta þeim tónleikum en stefnt er að því að halda þá síðar í vor.

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum