Föstudagur, júní 21, 2024
HeimFréttirUmdæmisaðalfundur við fordæmalausar aðstæður

Umdæmisaðalfundur við fordæmalausar aðstæður

Aðalfundur Rótarý á Íslandi, sem haldinn var með fjarfundarsniði á Zoom sl. laugardag 10. október, tókst mjög vel. Hann kom í staðinn fyrir umdæmisþing á Akureyri sem ekki var unnt að efna til vegna fjöldtakmarkana og tilmæla um niðurfellingu ferðalaga milli landshluta. 

Fyrir hina dugmiklu undirbúningsnefnd i Rkl. Akureyrar voru það vonbrigði að þurfa að gjörbreyta áætlunum um tveggja daga umdæmisþing með veglegri dagskrá og hátíðarbrag, sem halda átti 10 og 11. október á Akureyri samkvæmt boði til allra rótarýfélaga á Íslandi fyrir ári. Þá var kórónuveiran óþekkt. Vegna útbreiðslu hennar í haust var ákveðið að stytta dagskrá þingsins og miða við að forsetar klúbba og makar þeirra sætu aðalfund umdæmisins á Akureyri í einn dag. Aukin útbreiðsla Covid og hertar sóttvarnir urðu hins vegar til þess að ársfundurinn var haldinn fyrir forseta klúbba sl. laugardag 10. október í aðeins þrjá klukkutíma, rafrænt á Zoom. Framkvæmdin gekk afar vel undir forystu Soffíu Gísladóttur, umdæmisstjóra, sem var á Akureyri og stjórnaði fundinum.

„Mikið er gaman að koma hér saman, þó svo að stundin verði frekar lágstemmd og hver og einn við sína eigin tölvu, heima í stofu, í bústaðnum eða hvar svo sem þið eruð þessa stundina,“ mælti Soffía við setningu fundarins. „Ég hef gert víðreist undanfarið og ég er mjög þakklát veirunni fyrir að hafa haldið sér til hlés í þær fimm vikur sem ég geystist um landið þvert og endilangt til þess að hitta ykkur félagana og eiga með ykkur góða stund. Þetta er með mínum allra bestu upplifunum og tækifærum í Rótarý frá upphafi, að kynnast þeim fjölmörgu flottu klúbbum sem eru að vinna frábært starf um allt land. Það er hugur í fólki og ég hef það á tilfinningunni að Rótarý á Íslandi sé að endurnýjast hratt inn í framtíðina.“

Soffía rakti í stuttu máli verkefni á vegum umdæmisins, sem unnið hefur verið að og framundan eru. Hún beindi athygli forystufolks klúbbana að þeim.

Kristbjörg Góa Sigurðardóttir, forseti Rkl. Akureyrar.

„Það er margt annað á döfinni hjá okkur í þessum mánuði. Við vorum að auglýsa eftir umsóknum um tónlistarstyrkina sem afhentir verða á styrktartónleikunum okkar í Hofi hér á Akureyri næsta vor og þið megið endilega dreifa þeirri auglýsingu sem þið finnið á rotary.is og facebook síðum Rótarý og minni eigin. Polio Plus dagurinn verður síðan haldinn hátíðlegur á samfélagsmiðlum þann 24. október.

Rótarýklúbbur Akureyrar, sem hefur staðið í ströngu við að undirbúa umdæmisþingið á
undanförnum tveimur árum og hefur svo þurft að aðlaga sig að síendurteknum breyttum aðstæðum ákvað þó að gefa út „heimatilbúið“ Rótarýblað. Það gekk ekki að safna auglýsingum vegna Covid, en okkur bárust greinar og því var ákveðið að gefa út rafræna útgáfu sem þið fáið senda í tölvupósti og vonandi njóta þess allir að glugga í það.“ sagði Soffía.

Anna Stefánsdóttir

Guðrún Högnadóttir leiðbeindi ræðumönnum og öðrum þátttakendum um tæknileg atriði. Anna Stefánsdóttir, fráfarandi umdæmisstjóri, flutti ársskýrslu og lagði fram reikninga. Voru skjölin vel sýnileg  á skjánum og reikningar bornir upp til rafrænnar atkvæðagreiðslu. Starfsemi ársins hefur verið óvenjuleg. Margt hefur frestast, þar á meðal ungmennaskipti, en góður árangur náðst í öðrum efnum eins og styrkveitingum til klúbba vegna nærverkefna og framlögum íslenska umdæmisins til alþjóðlegs hjálparstarfs vegna Covid.  Anna kynnti viðurkenningar Rotary International til íslenskra klúbba sem lagt hafa mest af mörkum til sjóða hreyfingarinnar, og sýndi þær á skjánum.

Þær Guðrún Ragnarsdóttir, formaður kynningarnefndar, og Rannveig Björnsdóttir, aðstoðarumdæmisstjóri, fluttu framsöguerindi. Guðrún ræddi nauðsyn öflugs kynningarstarfs Rótarý í hinum ýmsu miðlum og Rannveig kynnti margvíslega möguleika í leiðtogaþjálfun, sem rótarýfélögum stendur til boða.

Bjarni Kr. Grímsson.

Minnst var 14 rótarýfélaga, sem látist höfðu á síðasta starfsári Rótarý en síðan lagði umdæmisstjóri fram fjárhagsáætlun starfsárs síns og kynnt var úthlutun styrkja úr Verðlauna- og styrktarsjóði Rótarý á Íslandi til Fjölsmiðjunnar og Snjallkennsluvefsins á Akureyri, sem hlutu 500.000 kr. hvor aðili.

Þátttakendur í fundinum gátu tekið til máls eða skrifað athugasemdir og skoðanir sínar á
„chat“ rás sem viðstaddir gátu lesið samstundis. Bjarni Kr. Grímsson, tilnefndur umdæmisstjóri 2022-2023, kynnti sig og starfsferil sinn fyrir fundarmönnum og Ásdís Helga Bjarnadóttir, verðandi umdæmisstjóri, bauð til næsta umdæmisþings sem ákveðið er að halda á Hallormsstað 8. og 9. október 2021.

Glæsilegir leiðtogar Rótarý á Íslandi, fyrrverandi, núverandi og verðandi umdæmisstjórar, fyrir framan menningarmiðstöðina Hof á Akureyri að loknum fjarfundinum sl. laugardag. Ljósmynd: Rúnar Björnsson.

 

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum