Laugardagur, apríl 20, 2024
HeimFréttirUmdæmisstjóri á rótarýþingi og innblástursdegi í Kaupmannahöfn

Umdæmisstjóri á rótarýþingi og innblástursdegi í Kaupmannahöfn

Samvinna Rótarý á Íslandi við rótarýumdæmin og klúbba á hinum Norðurlöndunum á sér langa sögu og hefur ávallt verið náin. Gagnkvæmar heimsóknir umdæmisstjóra eru rótgróin hefð og sama er að segja um heimsóknir á milli klúbba. Þá flytur tímaritið Rotary Norden, sem íslenskir rótarýfélagar hafa fengið sem félagsblað síðan 1936, margvíslegan fróðleik um störf Rótarý um heim allan og upplýsir lesendur m.a. um mikilvæg verkefni, sem umdæmi og klúbbar á Norðurlöndunum vinna að.

Garðar Eiríksson, umdæmisstjóri, var nýlega gestur og ræðumaður á umdæmisþingi hjá umdæmi 1470 í Danmörku, sem hefur innan sinna vébanda klúbbana á Kaupmannahafnarsvæðinu, á Borgundarhólmi og Grænlandi. Garðar var kominn til að endurgjalda heimsókn umdæmisstjórans Susanne Gram-Hanssen, sem var heiðursgestur á umdæmisþingi Rótarý á Selfossi sl. haust. Hann tók einnig þátt í innblástursdegi á þinginu.

Í ávarpi sínu fjallaði Garðar m.a. um þátttöku kvenna í Rótarý á Íslandi og sagði að konur væru nú næstum 30% af heildinni. Hann skýrði frá því að á Íslandi hefðu þrjár konur verið valdar til að gegna umdæmisstjóraembættinu á næstu þremur starfsárum. Garðar sagði þetta fagnaðarefni og lét í ljós vonir um að það yrði hvati til nýrra félaga um að ganga til liðs við hreyfinguna, einkanlega konur.

Umhverfismál voru á dagskrá og skýrði Garðar frá verkefnum íslenskra rótarýklúbba á því sviði, m.a.öflugu skógræktarátaki. Hann hvatti til þess að umdæmin legðu aukna áherslu á þennan málaflokk og sýndu þar með í verki að Rótarý setur umhverfismálin í öndvegi.

„Við þurfum sjálf að gangast fyrir breytingum innan Rótarý, annars gerast þær samkvæmt sínum eigin skilmálum, og þá ekki endilega hinum æskilegustu,“ sagði Garðar.

 

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum