Ómar Bragi Stefánsson, umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi, hefur heimsótt níu Rótarýklúbba víðsvegar um landið það sem af er haustinu og heldur austur á bóginn í næstu viku. Þar hittir hann Rótarýklúbbana á Húsavík, Egilsstöðum og Neskaupstað. Eins og venja er til hóf umdæmisstjóri visitasíuna hjá Rótarýklúbbi Akureyrar þar sem hann gróðursetti tré í Botnsreit, plöntuna valdi hann af kostgæfni og mun ilmbjörk festa rætur í Eyjafirði.
Boðskapur umdæmisstjóra snýst m.a. um að skapa áhugavert umhverfi fyrir starfinu, þora að fara nýjar leiðir á fundum, auka fræðslu, huga að geðverndarmálum og efla með öllum hætti starf Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi.