Laugardagur, 14. september 2024
HeimFréttirUmdæmisfréttirUmhverfisstefna Rótarý sett á oddinn

Umhverfisstefna Rótarý sett á oddinn

Anna Stefánsdóttir, umdæmisstjóri, heimsækir alla rótarýklúbba í landinu nú á haustdögum og fram í vetrarbyrjun og situr þá reglulegan rótarýfund með félögunum og reifar stefnumál sín. Í heimsóknunum heldur hún einnig sérstakan fund með stjórn hvers klúbbs, kynnir sér og ræðir stöðu hans og fyrirhugaða dagskrá og verkefni á starfsárinu.

Á fundi í Rkl. Reykjavík Breiðholt sem haldinn var í gær, hóf Anna mál sitt með því að segja frá alþjóðaforseta Rótarý á þessu ári, Mark D. Maloney frá Alabama í Bandaríkjanna, og stefnumálum hans undir kjörorðunum „Rótarý tengir heiminn“, í íslenskri þýðingu. Maloney leggur m.a. áherslu á að rótarýfélagar hvetji fjölskyldufólk sitt til starfa í Rótarý og til að ganga í klúbba eða stofna nýja, sem nú geta verið tengdir vinnustöðum, til dæmis. Sjálf hefur Anna valið sér einkunnarorðin „Tryggt samfélag, traust umhverfi“ og fjallaði hún nánar um áherslur sínar á starfsárinu en þær lúta fyrst og fremst að umhverfis- og loftslagsmálum, félagaþróun og útbreiðslumálum, auknum stuðningi við Rótarýsjóðinn, leiðtogaþjálfun og gagnkvæmum vinaheimsóknum rótarýfélaga í samvinnu við klúbba erlendis.

Á umdæmisþingi, sem haldið verður í Kópavogi á vegum Rkl. Borgir 11. og 12. október n.k. verður ný stefna í umhverfismálum Rótarý á Íslandi til umræðu og afgreiðslu. Anna kynnti stefnudrög sem eru í vinnslu fyrir þingið en í þeim er m.a. tekið fram að Rótarýhreyfingin, sem er meðal stærstu og áhrifamestu mannúðarsamtaka heims, einbeiti sér nú í auknum mæli að umhverfis- og loftslagsmálum. Hamfarahlýnun jarðar ógnar lífsviðurværi fólks í mörgum löndum og ef ekkert er gert munu loftslagsbreytingar ógna lífsviðurværi allra jarðarbúa innan fárra ára. Verkefni hreyfingarinnar snúast meir og meir um að takast á við þær afleiðingar sem breytingar í umhverfi og loftslagi hafa á samfélög.

Rótarý á Íslandi setur sér umhverfisstefnu og vill með því verða virkt afl í umhverfismálum og efla umræðu um lausnir til verndar umhverfinu. Rótarý hvetur félaga sína til að vera virkir í verndun umhverfisins og auka umhverfisvitund t.a.m. með aukinni útivist.

Anna nefndi tillögur um einstök verkefni í umhverfis- og loftslagsmálum sem klúbbarnir gætu hafist handa um, t.d. að klúbbar starfi saman að skógrækt, taki land í fóstur til landgræðslu, aðstoði skólanemendur við gróðursetningarverkefni sem Yrkjusjóður styrkir og haldi umhverfinu hreinu, með því m.a. að taka fjöru í fóstur.

 

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum