Árlega fer umdæmisstjóri í heimsóknir til allra rótarýklúbba landsins. Ásdís Helga Bjarnadóttir, umdæmisstjóri, hóf fyrir skömmu heimsóknir sínar í klúbbana. Í mörgum tilfellum eru aðstoðarumdæmisstjórar með í ferð. Að jafnaði er byrjað að funda með stjórn klúbbsins þar sem farið er yfir starfsáætlanir og markmið ársins. Þar eru einnig málefni og samskipti við umdæmið rædd og þær væntingar sem gerðar eru til starfsins á komandi árum. Í framhaldi flytur umdæmisstjóri aðalerindi á fundi klúbbsins þar sem farið er yfir áherslur heimsforseta Rotary International og umdæmisins.
Þegar þetta er ritað hinn 15. september hafa 8 klúbbar verið heimsóttir auk þess sem aðstoðarumdæmisstjórar hafa með skömmum fyrirvara komið í stað umdæmisstjóra vegna forfalla af völdum kvefs.
„Hvarvetna má greina grósku í starfi,“ segir Ásdís Helga. „Klúbbar að taka inn nýja félaga og vinna að áhugaverðum samfélagsverkefnum. Það verður því áhugavert að sjá kynningar á þeim verkefnum á umdæmisþinginu á Hallormsstað 8.- 9. október.“