Laugardagur, 14. september 2024
HeimFréttirUmdæmisstjóri kynnir sér störf rótarýklúbbanna og hittir félagana um allt land

Umdæmisstjóri kynnir sér störf rótarýklúbbanna og hittir félagana um allt land

 
Soffía Gísladóttir, umdæmisstjóri Rótarý, heimsækir rótarýklúbbana í landinu um þessar mundir. Hún heldur fundi með stjórnum klúbbanna, kynnir sér stöðu þeirra og fer yfir starfsáætlanir. Þá flytur hún erindi á klúbbfundi um málefni alþjóðahreyfingar Rótarý og stefnumál forseta hennar, Holger Knaack frá Þýskalandi. Málefni Rótarý á Íslandi eru meginefni fundanna ásamt stefnumálum, sem Soffía beitir sér sérstaklega fyrir á starfsári sínu.
 
„Nú hef ég heimsótt helming klúbbanna, eða 15 talsins, og þessar heimsóknir eru virkilega áhugaverðar og skemmtilegar og ég get sagt að ég er mjög stolt af flottu starfi rótarýklúbbanna hér á landi.“ sagði Soffía eftir heimsóknina til Egilsstaða. „Á fundunum fer ég yfir áherslur Holgers Knaack, heimsforseta Rotary international, en þemað hans 2020-21 er „Rotary Opens Opportunities“, sem við nefnum „Rótarý opnar gáttir“. Einnig fjalla ég um mínar áherslur út frá mínu þema sem er „Stígum stolt fram“. Þar legg ég sérstaklega áherslu á innra starf rótarýklúbba sem og aukið kynningarstarf og leiðtogaþjálfun. Umræður eru margvíslegar en vissulega er mikið rætt um félagaþróun, um hvernig við endurspeglum samfélagið best og svo er rætt um þau flottu verkefni sem eru í gangi í rótarýklúbbum um allt land.“ 
 
Stjórn Rótarýklúbbs Héraðsbúa tók á móti Soffíu á Egilsstöðum sl. þriðjudag. Stjórnin átti góðan fund með umdæmisstjóra og Rannveigu Björnsdóttur, aðstoðarumdæmisstjóra, í Valaskjálf þar sem farið var yfir starf klúbbsins, hin fjölbreyttu verkefni og undirbúninginn fyrir umdæmisþingið, sem haldið verður þar eystra 2021, í embættistíð Ásdísar Helgu Bjarnadóttur, verðandi umdæmisstjóra, sem er félagi í Rkl. Héraðsbúa.
 
Í framhaldi var klúbbfundur þar sem Soffía var með aðalerindið. Talsverðar umræður í framhaldi af því. Klúbbfélagar buðu mökum með sér á fundinn eins og hefð er fyrir hjá klúbbnum. Fundinum lauk með veislumáltíð þar sem fólki gafst tækifæri á að njóta góðs matar og félagsskapar fram eftir kvöldi.
 
Í góðviðrinu fyrr um daginn heimsótti Soffía ásamt gestgjöfum sínum gróðurreitinn Sigfúsarlund, sem Rkl. Héraðsbúa annast. Hann er rétt utan við Egilsstaði, í landi Miðhúsa og Eyvindarár,  tileinkaður minningu sagnaritarans Sigfúsar Sigfússonar. Í þessum litla reit er minnisvarði, göngustígar og bekkir. Hjálmar A. Jóelsson, rótarýfélagi, er formaður Sigfúsarlundar og leiðsagði um reitinn. Á myndinni eru þau Stefán Þórarinsson, forseti klúbbsins, og Soffía, umdæmisstjóri, við „rótarýhliðið“ að þessu rómaða útivistarsvæði. 
 
Fréttaskot og myndir: Ásdís Helga Bjarnadóttir.
 
 
 
 

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum