Föstudagur, júní 21, 2024
HeimFréttirUmdæmisþing: Sterk hvatning til fjölgunar rótarýfélaga

Umdæmisþing: Sterk hvatning til fjölgunar rótarýfélaga

Setningarræða Ásdísar Helgu Bjarnadóttur, umdæmisstjóra.

 

Lúðraþytur ómaði um fundarsalinn á Hótel Hallormsstað þegar þingfulltrúar á umdæmisþingi Rótarý voru mættir til setningarfundar, síðdegis sl. föstudag 8. október. Félagar úr Lúðrasveit Fljótsdalshéraðs lék Fanfare-mars eftir Karl O. Runólfsson undir stjórn Berglindar Halldórsdóttur. Undir hressilegum lúðrahljóm sté Ásdís Helga Bjarnadóttir umdæmisstjóri, í pontu og hóf mál sitt um leið og síðustu tónarnir fjöruðu út. Ásdís fagnaði þingfulltrúum og gestum, um 150 manns, og bauð þá velkomna á Hallormsstað. Hún nefndi sérstaklega hina erlendu heiðursgesti, Bandaríkjamanninn Drew Kessler, fulltrúa alþjóðaforseta Rótarý og Sissel Berit Hoell, umdæmisstjóra í Noregi, sem var fulltrúi norrænu umdæmanna.

Að formsatriðum loknum hóf Ásdís Helga mál sitt með upprifjun á sogulegum staðreyndum um Rótarý og félagaþróun á Íslandi, sem er umhugsunarverð og kallar á aukið átak eins og Ásdís Helga vék að:

„Rótarýhreyfingin var stofnuð 23. febrúar 1905 að frumkvæði Paul Harris. Í framhaldi bættust við klúbbar og löndum fjölgaði þar sem mátti finna rótarýklúbba. Á fyrsta rótarýþinginu var leitast við að finna einkunnarorð sem hæfðu þjónustuhugsjón hreyfingarinnar. Í dag notum við orðalagið og vinnum að hugsjóninni: Þjónusta ofar eigin hag.

Fyrsti rótarýklúbburinn á Íslandi var stofnaður í Reykjavík 13. september 1934. Það var gert að frumkvæði rótarýfélaga í Kaupmannahöfn sem komu hingað og kynntu hreyfinguna fyrir líklegum forystumönnum. Klúbbarnir voru fyrst undir danska umdæminu en á stríðsárunum var farið að leita beint til aðalskrifstofunnar í Bandaríkjum þangað til Íslenska umdæmið var formlega stofnað 1. júlí 1946. Síðan þá hefur umdæmið dafnað og eru nú 32 klúbbar starfandi innan umdæmisins með 1139 félagsmönnum, þar af einn enskumælandi klúbbur og annar sem fundar eingöngu á netinu með félagsmönnum um allan heim.

Sjálfstæði klúbba miðast við 20 virka félagsmenn. Það er því áhyggjuefni að helmingur klúbba á landinu er með félagafjölda undir 23 og því á gulum Rotary International. Saman verðum við að hjálpast að við að breyta þessu. Ef við vitum af öflugum einstaklingum hvar á landinu sem er, látum klúbbinn á umræddu svæði vita og hvetjum viðkomandi til að sækja um aðild. Saman getum við breytt stöðunni og gert starf okkar öflugra, skemmtilegra og  um leið unnið að aðaláherslu heimsforseta Shekar Metha sem er – Each one bring one.

Á þinginu munum við afhjúpa kynningarátak sem unnið hefur verið að innan umdæmisins. Þetta eru stutt myndbönd sem verða aðgengileg á YourTube rás Rótarý á Íslandi þar sem félagar okkar tjá upplifun sína og reynslu af því að taka þátt í rótarýstarfinu. Við viljum biðja alla klúbba að taka virkan þátt í kynningarátakinu með okkur. Á heimasíðu Rótarý verða líka myndböndin tengd skráningarformi ef einstaklingar hafa áhuga á að kynna sér hreyfinguna, styðja við verkefni eða sækja um aðild. Ég vona því að stjórnir klúbba taki vel á móti upplýsingum um áhugasama einstaklinga og bjóði þá velkomna til liðs við sig með hefðbundnum hætti.

Rótarýhreyfingin hefur þá sýn og stefnu fram til ársins 2024 að fjölga virkum félögum, ná til fleiri svæða og samfélaga, hafa meiri áhrif með þjónustu-og samfélagsverkefnum og auka aðlögunarhæfni gagnvart síbreytilegum áskorunum. Þessum áherslum fylgir umdæmið eftir og hvetur klúbba til að gera slíkt hið sama. Allar nefndir umdæmisins veita klúbbum ráðgjöf og stuðning og ávallt er hægt að leita til formanna þeirra, sem og til aðstoðarumdæmisstjóra, s.br. trúnaðarmannalista sem hefur verið sendur út til allra klúbba.

Ég vil minna á tækifærin sem bjóðast í gegnum Rotary Friendship Exchange þar sem félagsmenn rótarýklúbba geta heimsótt Rótarýfélaga í öðrum löndum og endurgoldið síðar heimsóknina, samanber heimsókn Svía til landsins nú um síðustu helgi þar sem Rótarýklúbbur Akureyrar og Rótarýklúbbur Landvætta voru gestgjafar. Einnig tækifærin sem æskulýður okkar getur nýtt sér í gegnum skiptinemaprógrömm og sumarbúðir, háskólamenntað fólk getur hlotið styrk frá hreyfingunni til frekara náms, t.d tónlistarnáms og friðarnáms. Með veffræðslu á vegum embættisins á starfsárinu verða ýmis tækifæri kynnt sem og málefni er varða starf okkar. Ég vil því hvetja félagsmenn til að fylgjast með og taka þátt.

Sú grunnhugmynd að „rótarý ætti að taka við fjárgjöfum til að láta gott af sér leiða í heiminum, á sviði mennta, aðstoðar við þurfandi, og á öðrum þeim vettvangi sem til góðs mætti leiða í samfélaginu“ var kastað fram af heimsforseta árið 1917 þó Rótarýsjóðurinn hafi svo ekki verið stofnaður fyrr en árið 1928.

Fyrir 78 kr. er hægt að bólusetja eitt barn gegn lömunarveikinni. 78 krónur!

Mér verður hugsað til góðrar kunningjakonu úr Skagafirði, Önnu Pálinu Þórðardóttur, sem fæddist árið 1935 og fékk lömunarveiki sex mánaða gömul. Hún gat aldrei stigið í fæturna, önnur höndin lömuð og hin höndin kreppt. Það er ekki lengra síðan og hugsið ykkur áskorunina fyrir viðkomandi einstakling, foreldrana og samfélagið. Ég hvet ykkur til að lesa bókina „Lífsins skák“ sem er ævisaga Önnu Pálinu. Blessuð sé minning hennar.

PolioPlús dagurinn  er 24. október. Umdæmið ætlar að vekja athygli á deginum og við viljum hvetja klúbba til að gera slíkt hið sama. Æskilegt er að nýta daginn til að safna fjármunum og gefa í sjóðinn. Það er mikilvægt að uppræta lömunarveikina en hún greinist ennþá á afmörkuðum svæðum í Afganistan og Pakistan.

Fyrir 6500 kr er hægt að tryggja einstaklingi hreint vatn án hættu á að veikjast af því og fyrir 65 þúsund er hægt að taka þátt í stærri verkefnum til að tryggja öruggt umhverfi og stuðla að sjálfseflingu einstaklinga.

Jafnframt þakka ég öllum þeim klúbbum sem leggja fjármagn til styrktar Rótarýsjóðnum. Fjórir klúbbar standa sig gríðarlega vel og mættu aðrir taka sér þá til fyrirmyndar, sér í lagi þeir sem hafa ekki greitt neitt til sjóðsins. Auk þess eru nokkrir einstaklingar sem greiða mánaðarlega til Rótarýsjóðsins sem er til mikillar fyrirmyndar og erum við afar þakklát þeim fyrir það.

Á heimasíðu Rótarý eru upplýsingar um það með hvaða hætti er hægt að vera með og leggja í þessa sjóði. Höfum í huga að nær hver einasta króna sem fer í sjóðinn er nýtt til góðra verkefna, ekki í yfirbyggingu eða umsýslu.

Oft er þörf en nú er nauðsyn, miðað við þá stöðu sem samfélög um allan heim eru í sökum náttúruhamfara, heimsfaraldra, styrjalda og fátæktar.  Við getum gert betur og við getum líka gert það með skemmtilegum fjáröflunarverkefnum í nærsamfélögum. Mestu skiptir að allir félagsmenn og klúbbar leggi sitt af mörkum, hversu stórt eða smátt sem það er. Ég minni á að það er mjög nærandi fyrir félagsmenn klúbbs að vinna saman að skemmtilegum verkefnum, það gefur tilgang, mismunandi hæfileikar fólks fá notið sín og gleðin við að gefa af sér og láta gott af sér leiða gefur fólki orku í daglega lífinu. Hvort sem um er að ræða fjáröflunarverkefni eða verkefni sem bæta með öðrum hætti eigið samfélag.

Áherslur starfsársins eru Serve to change lives – í íslenskri þýðingu, Breytum lífi, bætum hag – hvetur okkur til þess að einbeita okkur að því sem betur má fara í nærsamfélagi og að styðja við þá sem þurfa annars staðar í heiminum.

Rótarýdagurinn sem er 23. febrúar verður tileinkaður þjónustu- og samfélagsverkefnum á þessu starfsári. Í því samhengi má líka minna á að klúbbar geta sótt ár hvert um styrk, í janúar/febrúar, til verkefnasjóðs umdæmisins, í verkefni sem þeir hafa frumkvæði að í nærsamfélagi eða á landsvísu. Það er því engin tilviljun að fræðsla þingsins fjalli um Rótarýsjóðinn, Pólio Plús og félagaþróun.

Fram undan eru nokkuð stórir viðburðir.

Hefð er komin á að halda Rótarýtónleika. Dagsetning er ekki komin en hafinn er undirbúningur og stefnt á að þeir fari fram í Tónlistamiðstöð Austurlands á Eskifirði.

Árið 2022 verður heimsþing Rótarý í Houston í Bandaríkjunum í byrjun júní. Búið er að opna fyrir skráningu og því hvet ég félaga til að skrá sig, enda einstök upplifun sem allir Rótarýfélagar verða að upplifa að minnsta kosti einu sinni á ævinni.

Næstkomandi haust verður GETs/Summit fyrir fjögur svæði – zone 17-20 haldið á Íslandi. Þetta er stórt og viðamikið verkefni sem umdæmið mun koma að. Það er von mín að við getum leitað til félaga á Stór-höfuðborgarsvæðinu um aðstoð  þegar nær dregur.

Yfirskrift umdæmisþingsins í ár er – Þar sem hjartað slær er hamingjan nær. Eftir mikla yfirlegu um áherslur þingsins fannst mér rétt að draga þessa hugsun fram enda fellur hún ágætlega að áherslum heimsforseta og starfi klúbbanna. Hver félagi á að fá að blómstra innan Rótarý. Ef einstaklingar hafa ástríðu fyrir viðfangsefnum sem falla að gildum Rótarýhreyfingarinnar og geta hjálpað, styrkt eða bætt, líðan eða samfélög, er mikilvægt að finna henni farveg og athuga hvort fleiri hafi áhuga á að koma á vagninn. Klúbbar eru að vinna að fjölmörgum áhugaverum verkefnum sem kynnt eru á veggspjöldum á þinginu. Aðeins eitt verkefni er kynnt frá hverjum klúbbi þó sumir klúbbar séu með fjölmörg áhugaverð verkefni í gangi. Það er því um að gera að kynna sér málið með spjalli, safna hugmyndum og um leið efla tengslanetið innan Rótarý. Dagskráin er þétt en það verður alveg óhætt að standa upp, teygja úr sér, kynna sér verkefnin og jafnvel pikka í aðila til að ræða við hér á göngum eða bakherbergi. Innilegar þakkir til ykkar sem brugðust svo vel við óskum mínum um að taka þátt og miðla af ykkar frábæra starfi.

Erindin á ráðstefnunni eru unnin af ástríðu einstaklinga, og forsvarmanna fyrirtækja, félaga og stofnanna. Einstaklinga sem vinna í anda hreyfingarinnar og hafa áhrif á sitt samfélag með jákvæðum hætti. Ég vona að erindin veki áhuga, séu fræðandi og hvetji til þess að fólk horfi sér nær. Getum við nýtt þennan fróðleik, miðlað áfram eða stutt við með einhverjum hætti?

Þar sem ástríða er fyrir viðfangsefnum og verkefnum er áhugi og drifkraftur sem gerir hlutina auðveldari í framkvæmd, skemmtilegri og gefandi í lokin. Eftir því eigum við að sækjast og út frá því eigum við að vinna í okkar starfi. Félagsstarf sem okkar á að vera skemmtilegt og gefandi. Það er alltaf jafn dásamlegt og áhugavert að fá einstaklinga með fræðslu á klúbbfundi sem vinnur af ástríðu og lifir sig inn í verkefnin. Það er það sem við sækjumst eftir þó viðfangsefnið sé ekki endilega á okkar áhugasviði. Af því lærum við og fáum einstakt tækifæri til að bæta við þekkingu okkar.

Umdæmisþing er góður vettvangur til að kynnast félögum um allt land, skiptast á skoðunum, fræðast um starfið, miðla af reynslu og ekki síst að styrkja tengslanetið. Ég vil því hvetja ykkur til að gefa ykkur á tal við sem flesta og síðar á starfsárinu að heimsækja klúbbfundi hjá öðrum. Ég skora á ykkur að sækja að minnsta kosti einn klúbbfund hjá öðrum klúbbi á starfsárinu.

Ég er líka með aðra áskorun. Hún er til hagyrðinga á svæðinu sem ég veit að eru nokkrir. Mig langar að fá ykkur til að skrásetja upplifun ykkar af þinginu og miðla þeim anda sem verður um helgina í formi kvæða. Það má senda þau á mig eða afhenta mér þau hér á staðnum. Ég mun gefa mér það leyfi að nota þau, hvort sem er í upplestri eða til birtingar með tengdu efni.

Það var síðla árs 2018 sem þáverandi forseti Rótarýklúbbs Héraðsbúa kom til mín og óskaði eftir því að klúbburinn fengi að tilnefna mig sem umdæmisstjóraefni klúbbsins. Þetta kom flatt upp á mig en þar sem ég er gjörn á að segja já, eins og fleiri rótarýfélagar, þá varð það úr – og hér stend ég í dag.

Ég vil því nota tækifærið  og þakka það traust sem mér hefur verið sýnt og þann stuðning sem ég hef fengið frá fyrrum og núverandi umdæmisráðsfulltrúum og aðstoðarumdæmisstjórum.

Ég  vil einnig þakka sérstaklega klúbbfélögum mínum í Rótarýklúbbi Héraðsbúa sem hafa unnið baki brotnu við að undirbúa umdæmisþingið og koma að mismunandi þáttum í framkvæmd þess. Innilegar þakkir.

Ég vil líka þakka öllu því dásamlega fólki sem mun flytja hér kynningar, erindi og fræðslu, og því góða fólki sem mun lífga uppá dagskrána með tónlistaflutningi. Innilegar þakkir.

Að lokum vil ég flytja góða kveðju er barst frá forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni til allra Rótarýfélaga, eins og hann segir: ,,Rótarýhreyfingin hefur svo sannarlega bætt íslenskt samfélag og mun halda því áfram“.

Ég set hér með Umdæmisþing Rótarý á Íslandi 2021 og óska ykkur góðrar dvalar og gefandi samveru. Megi áherslur starfsársins endurspeglast í gróskumiklu vetrarstarfi klúbbanna og fjölgun félagsmanna.

Takk fyrir.

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum