Fjölsótt umdæmisþing Rótarý á Íslandi, hið 74. í röðinni, var haldið á vegum Rótarýklúbbsins Borgir Kópavogi sl. föstudag og laugardag, 11. og 12. október. Anna Stefánsdóttir, umdæmisstjóri Rótarý, setti þingið síðdegis í Kópavogskirkju og bauð þingfulltrúa og maka þeirra ásamt erlendum heiðursgestum velkomna til samkomunnar.
Frá Írlandi var kominn Patrick Callaghan úr Rótarýklúbbi Limerick Thomond á Írlandi ásamt konu sinni Ursulu en Patrick var fulltrúi Mark D. Maloney, heimsforseta Rotary International 2019-2020. Virpi Honkala, fyrrv. umdæmisstjóri í umdæmi 1400 í Finnlandi og Matti eiginmaður hennar voru fulltrúar norrænu rótarýumdæmanna. Virpi er tilnefndur framkvæmdastjóri Rotary International 2020-2022.
Í setningarræðu sinni gerði Anna grein fyrir þemanu „Tryggt umhverfi – traust samfélag” sem hún ákvað fyrir starfsár sitt sem umdæmisstjóri. Fjallaði hún síðan um áherslur Rótarý í loftslagsmálum og umhverfisstefnu íslenska umdæmisins. Í lokin vék hún að stöðu Rótarý á Íslandi og innra starfi í klúbbunum. Í ræðunni sagði Anna:
”Við ætlum að setja umhverfið í öndvegi. Hreyfing eins og okkar sem beitir sér fyrir mikilvægum mannúðarverkefnum og bættum heimi verður að láta umhverfis- og loftslagmál til sín taka eigi hún að vera trúverðug á 21. öldinni. Hlýnum jarðar ógnar lífsviðurværi fólks í mörgum löndum og ef ekkert er gert munu loftslagsbreytingar ógna lífsviðurværi í öllum löndum heims innan fárra ára.
Rótarýhreyfingin leggur m.a. megináherslu á að tryggja hreint vatn í heiminum, að stuðla að friði, að stunda forvarnir gegn sjúkdómum og að styðja við framfarir í nærumhverfi. Þetta verður einungis gert með öflugri umhverfisvernd.
Fyrrverandi umdæmisstjórar hafa hvatt klúbba til að gróðursetja tré til kolefnisbindingar og nú ætlum við að taka umhverfismálin lengra. Á vegum Rótarý á Íslandi starfar umhverfisnefnd. Ég fól nefndinni það verkefni að setja umdæminu umhverfisstefnu og að gera tillögu að verkefnum tengdum umhverfinu sem klúbbar geta sett á sína starfsáætlun. Drög að umhverfisstefnu fyrir umdæmið er tilbúin og var send öllum forsetum klúbba í september s.l. Ég hef einnig kynnt stefnuna í þeim klúbbnum sem ég hef heimsótt fram að þessu. Ég hvet alla klúbba til að setja umhverfismálin á fundadagskrá starfsársins.
Dagskrá umdæmisþingsins er helguð umhverfis- og loftslagsmálum. Undanfarin ár hafa alþjóðaforsetar Rótarý lagt áherslu á öflugt starf í klúbbunum. Mark Maloney, alþjóðaforseti, leggur áherslu áð að efla og stækka Rótarý. Hann talaði sérstaklega til klúbbforseta á hádegisverðarfundi sem hann hélt á heimsþinginu í Hamborg í júní s.l. Hann sagði m.a. „Hlustið eftir hvar hjartað í klúbbnum slær, verið alltaf á tánum varðandi þjónustu sem samfélagið þarfnast, og verið ávallt meðvituð um hvað þarf til að efla starfið og þar með Rótarý“.
Eigi okkur að takast að ná því markmiði að stækka og efla Rótarý þá verðum við að horfa á styrkleika klúbbanna. Klúbbarnir eru jú grunneining Rótarý. Án þeirra er engin Rótarýhreyfing, þeir eru í raun hreyfiaflið sem gerir hreyfingunni kleift að sinni verkefnum sínum jafnt í sinni heimabyggð sem og víðs vegar um heiminn.
Innan klúbbanna eru einstaklingar sem eru virkir í sínu samfélagi, leiðtogar í sínum starfsgreinum með umfangsmikla þekkingu á athöfnum samfélagsins. Fjölbreytileiki er klúbbunum nauðsynlegur eigi þeir að þrífast, höfða til fólks úr mismundandi hópum þjóðfélagsins og endurspegla samfélagið sem klúbbarnir starfa í.
Virkni félaga og öflugt innra starf í klúbbnum er forsenda klúbbstarfsins. Leggja þarf rækt við tengsl félaganna, halda vel utan um nýja félaga og styrkja samfélagið í klúbbnum. Ekki er síður mikilvægt að klúbbstarfið sé skemmtilegt og að dagskrá klúbbsins sé áhugaverð og endurspegli áherslur í starfi klúbbsins, markmið umdæmisins ásamt áherslum í samfélaginu.
Nú er í undirbúningi að stofna nýjan Rótarýklúbb í Húnavatnssýslunum. Fundað hefur verið með tveim fyrrum Rótarýfélögum, sem þurftu að hætta í Rótarý þegar þeir fluttu í sýslurnar og eru þeir mjög áhugasamir. Við stefnum að því að stofna klúbbinn á næsta ári og að hann fái fullgildingu árið 2021.
Mikilvægt er að fara á kostum í klúbbstarfinu!”