Þema umdæmisþings Rótarý í ár var tengt umhverfismálum sem voru rædd í sérstakri málstofu á þinginu. Auk þess voru margir stuttir fyrirlestrar um efnið fluttir á þinginu sjálfu.
Umhverfismálin eru eitt af áherslumálum Önnu Stefánsdóttur, umdæmisstjóra Rótarý, sem hún hefur m.a. tekið fyrir og rætt í heimsóknum sínum til rótarýklúbbanna. Umdæmisnefnd Rótarý samdi umhverfisstefnu fyrir Rótarý á Íslandi sem var tekin fyrir og samþykkt á umdæmisþinginu 12. október sl. svohljóðandi:
Umhverfisstefna Rótarý á Íslandi
Rótarýhreyfingin, sem er meðal stærstu og áhrifamestu mannúðarsamtaka heims, einbeitir sér nú í auknum mæli að umhverfis- og loftslagsmálum. Hamfarahlýnun jarðar ógnar lífsviðurværi fólks í mörgum löndum og ef ekkert er að gert munu loftslagsbreytingar ógna lífsviðurværi allra jarðarbúa innan fárra ára. Verkefni hreyfingarinnar snúast meir og meir um að takast á við þær afleiðingar sem breytingar í umhverfi og loftslagi hafa á samfélög.
Rótarý á Íslandi setur sér umhverfisstefnu og vill með því verða virkt afl í umhverfismálum og efla umræðu um lausnir til verndar umhverfinu.
Rótarý á Íslandi hvetur félaga sína til að vera virkir í verndun umhverfis og auka umhverfisvitund félagsmanna.
Rótarýfélagar taki höndum saman um að breiða út mikilvægi góðrar umgengni við umhverfið og náttúru landsins. Allir klúbbar setji sér markmið í umhverfismálum og hafi verkefni sem tengjast verndun umhverfis á starfsáætlun sinni.
Umdæmið og klúbbar kappkosti að nota umhverfisvænar vörur í öllum verkefnum sínum í náinni samvinnu við viðskiptavini og þjónustuaðila. Jafnframt leitist klúbbar við að draga úr pappírsnotkun, eins og kostur er.
Rótarýhreyfingin leggur áherslu á að minnka matarsóun, draga úr mengandi samgöngum, efla kolefnisbindingu í gróðri og aðrar þær aðgerðir sem leiða til mótvægis við hlýnun jarðar.