Verðlaun Tónlistarsjóðs Rótarý á Íslandi voru afhent á glæsilegum tónleikum, sem haldnir voru í Norðurljósasal Hörpu á þrettándanum. Myndin var tekin af verðlaunahöfunum með umdæmisstjóra Rótarý og formanni stjórnar tónlistarsjóðs við það tækifæri. Á myndinni eru talið frá vinstri: Garðar Eiríksson, umdæmisstjóri, Kjartan Óskarsson, stjórnarformaður, Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir, sellóleikari og Óskar Magnússon, gítarleikari, sem fengu verðlaunin að þessu sinni. Hvor verðlaunahafi hlaut 800.000 kr. í styrk til framhaldsnáms.
Geirþrúður Anna hóf nám í sellóleik hjá Gunnari Kvaran 5 ára gömul. Hún lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 2013 og hefur stundað framhaldsnám í sellóleik í Bandaríkjunum. Í september síðastliðnum hóf hún meistaranám við Juilliard-skólann í New York og mun útskrifast þaðan vorið 2020. Geirþrúður Anna hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og heldur reglulega tónleika bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi.
Óskar Magnússon hóf ungur nám í klassískum gítarleik hjá Pétri Valgarð Péturssyni við Nýja tónlistarskólann og lauk framhaldsprófi árið 2014. Að loknu námi við Listaháskóla Íslands 2017 undir leiðsögn Svans Vilbergssonar hóf Óskar meistaranám við San Francisco Conservatory of Music. Í nóvember sl. varð Óskar í fyrsta sæti í Andriassian Guitar Competition-gítarkeppninni í Los Angeles. Að námi loknu hyggst hann setjast að á Íslandi og taka virkan þátt í íslensku tónlistarlífi.
Þau Geirþrúður Anna og Óskar léku einleiksverk á Rótarýtónleikunum í Hörpu sl. sunnudag og hlutu hinar bestu viðtökur.