Umdæmisstjóraskipti hjá Rótarý á Íslandi fara alla jafna fram á fundi hjá heimaklúbbi verðandi umdæmisstjóra. Það kom í hlut Rkl. Héraðsbúa að halda slíkan hátíðarfund sl. laugardag 26. júní í Valaskjálf á Egilsstöðum. Þar var því fagnað, að Ásdís Helga Bjarnadóttir félagi í klúbbnum tók formlega við embætti sem umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi 2021-2022. Þetta var jafnframt starfsskilafundur stjórnar og flutti Stefán Þórarinsson, fráfarandi forseti, skýrslu stjórnar um margháttuð samfélagsverkefni sem klúbburinn beitir sér fyrir.
Sagði hann ennfremur að vel hefði gengið að afla nýrra félaga á starfsárinu. Sex nýir félagar gengu í klúbbinn, meðalaldur þeirra er 50 ár. Fimm af þessum sex eru konur, þannig að konur eru nú þriðjungur félagsmanna. „Þessir nýju félagar láta strax til sín taka í klúbbstarfinu og fjölgun kvenna í hópnum hefur sett skemmtilegan svip á andrúmsloftið í klúbbnum.“ sagði Stefán.
Hér fylgir syrpa af myndum, sem Þórhallur Pálsson, félagi í Rkl. Héraðsbúa, tók af klúbbfélögum sínum og gestum sem nutu fróðleiks, skemmtunar og góðra veitinga á velheppnuðum fundi.