Miðvikudagur, febrúar 28, 2024
HeimFréttirVefstofur fara vel af stað: vettvangur upplýsinga og umræðna

Vefstofur fara vel af stað: vettvangur upplýsinga og umræðna

Vefstofur Rótarý fara vel af stað. Þessi nýi vettvangur til kynningar á starfi hreyfingarinnar og skoðanaskipta leiðtoga klúbba og annarra þátttakenda lofar góðu. Annar vefstofufundurinn var haldinn á Zoom sl.mánudag, 29. nóvember undir stjórn Guðlaugar B. Guðjónsdóttur, aðstoðarumdæmisstjóra.

Að þessi sinni var fjallað  um ungmennaskipti Rótarý og vináttuheimsóknir á vegum Rotary Friendship Exchange. Framsögu höfðu Klara Lísa Hervaldsdóttir, formaður æskulýðsnefndar og Róbert Melax, formaður nefndar umdæmisins sem skipuleggur vináttuheimsóknir rótarýfólks milli landa.

Klara Lísa, t.h., ásamt erlendum skiptinemum 2015.
Erlendir skiptinemar í heimsókn hjá forseta Íslands.

Í  máli Klöru Lísu kom fram að nefnd hennar vinnur ötullega að undirbúningi starfsins fyrir næsta skólaár. Nemendaskipti Rótarý hafa verið við lýði í meira en 80 ár og árlega hafa þátttakendur í þeim verið um 8000 hin síðari ár. Röskun varð á starfseminni vegna heimsfaraldursins í hálft annað ár og verður hlé fram í júlí 2022. Nú verður senn unnið úr umsóknum íslenskra umsækjenda á aldrinum 16-18 ára um heilsársdvöl og skólavist erlendis og jafnframt gerðar ráðstafanir  í samvinnu við innlenda rótarýklúbba til að tryggja erlendum nemum gistifjölskyldur hérlendis. Rótarýumdæmið greiðir 150 þús. með hverjum skiptinema ef klúbbar sækja um það.

Auk heilsársdvalarinnar hefur æskulýðsnefndin milligöngu um að bjóða islenskum ungmennum 14-25 ára dvöl í sumarbúðum erlendis eða heimsóknir milli fjöskyldna, 15-19 ára. Einnig er fyrirhugað að nefndin skipuleggi starf sumarbúða fyrir erlenda gesti á aldrinum 18-20 ára hér á landi eins fljótt og hægt er. Klara Lísa lýsti helstu verkefnum klúbba hér á landi vegna móttöku erlendra nema og til að gera dvöl þeirra árangursríka. Þá nefndi hún einnig veglega styrki til eins árs háskólanáms í Georgíuríki í Bandaríkjunum sem rótarýklubbar þar veita. Allmargir Íslendingar hafa notið þeirra á undanförnum áratugum.  

Þórdís Helga var skiptinemi í Kanada.

Klara Lísa kynnti til sögunnar fyrrum skiptinema, Þórdísi Helgu og Bjarna Frey, sem dvöldust í Kanada og á Spáni, og sögðu frá kynnum sínum af fólki á nýjum menningarsvæðum og margþættri og ánægjulegri reynslu sem þau höfðu öðlast sem skipitnemar Rótarý.

Bjarni Freyr dvaldist sem skiptinemi á Spáni.

Alls hafa 206 íslenskir skiptinemar dvalist erlendis  á vegum Rótarý. Nú hefur verið uppfærður nafnalisti sem hafður verður til hliðsjónar í átaki til að fjölga félögum í rótarýklúbbunum á Íslandi.

Síðari fyrirlesarinn á vefstofufundinum var Róbert Melax, Rkl. Reykjavík Landvættum. Hann er formaður í nefnd þeirri sem annast vináttuheimsóknir rótarýfólks á vegum umdæmisins. Nánar er fjallað um vináttuheimóknir, Rotary Friendship Exchange, hér.

 

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum