Flestir íslensku rótarýklúbbarnir hafa útbúið kynningarefni til margs konar birtingar, þar sem gerð er grein fyrir starfsemi Rótarý almennt, sögu og skipulagi innra starfs klúbbsins og verkefnum, sem rótarfélagarnir vinna að í nafni hans til þjónustu við nærsamfélagið á sínu svæði.
Veggspjöld með kynningarefni klúbba blöstu við þátttakendum í fundarsal umdæmisþingsins á Hallormsstað á sl. hausti. Kynningarnefnd umdæmisins hafði hvatt til þeirrar nýbreytni. Spjöldin nýtast áfram til notkunar á samkomustöðum klúbbanna og til sýninga á öðrum vettvangi en grunnefnið er einnig hægt að nota rafrænt sem kynningarefni á fjölbreyttan hátt. Í tilefni Rótarýdagsins í ár hefur Rkl. Héraðsbúa til dæmis nýtt það til birtingar í heilli opnu í Dagskránni, héraðsmiðlinum sem fer til dreifingar inn á hvert heimili á Austurlandi og víðar.
Hér á eftir birtast fleiri sýnishorn af kynningarspjöldum klúbba, valin af handahófi.