Miðvikudagur, 19. febrúar 2025
HeimFréttirStyrkirVel heppnaðir hátíðartónleikar Rótarý

Vel heppnaðir hátíðartónleikar Rótarý

Annar af tveimur tónlistarstyrkjum afhentur

Það var hátíðlegt yfir að líta þegar hátíðartónleikar Rótarý voru haldnir 16. apríl sl. Björt og glæsileg Grafarvogskirkja var fallegur rammi um tónleikana og nýtt orgel kirkjunnar var áberandi.Helgi Helgason, forseti Rótarýklúbbs Reykjavík-Grafarvogur, klúbbs umdæmisstjóra, bauð gesti velkomna og kynnti Kjartan Eggertsson sem kynni tónleikanna. Kjartan sagði frá tónlistarfólkinu og tónverkunum á skemmtilegan og fróðlegan hátt og það má segja að tónleikarnir hafi einnig orðið fróðleg sögustund.

Kjartan Eggertsson, kynnir tónleikanna.

Gissur Páll Gissurarson tenórsöngvari, hóf tónleikana með glæsilegum flutningi á Nessun dorma úr óperunni Turandot og lék Lára Bryndís Eggertsdóttir, organisti í Grafarvogskirkju undir á nýja hljómfagra orgel kirkjunnar en hún hlaut tónlistarstyrk Rótarý 2019. Gissur Páll söng svo hið gamalkunna lag Sigfúsar Halldórssonar, Í dag er ég ríkur við undirleik Láru Bryndísar á píanó.

Dísella Lárusdóttir heillaði svo tónleikagesti með flutningi á Vilja Lied úr Kátu ekkjunni eftir Franz Lehár við undirleik Láru Bryndísar á orgel og Flemmings Viðars Valmundssonar á harmóniku. Hún fékk svo Gissur Pál með sér og sungu þau Glück, das mir verblieb, dúett úr Die Tote Stadt eftir Erich Korngold. Virkilega glæsilegur flutningur og raddir þeirra voru einstaklega fallegar saman.

Þá var komið að Láru Bryndísi að vera í aðalhlutverki og kynnti hún hið einstæða orgel á mjög lifandi og skemmtilegan hátt og leyfði tónleikagestum að njóta tónanna úr orgelinu er hún lék Air á G streng, lag Matthew Charles Fishers sem hann byggði á verki J.S. Bach.

Þá næst lék hún Brennið þið vitar eftir Pál Ísólfsson og mátti þar sérstaklega sjá að það er ekki aðeins spilað á pípuorgel með höndunum því fæturnir voru notaðir bæði á bassanóturnar og þau tvö fótstig sem einstakt var á þessu orgeli.

Lára Bryndís Eggertsdóttir, styrkþegi Rótarý 2019.

Afhending tónlistarstyrks

Flemming og Bjarni Kr. Gímsson, umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi.

Handhafar tónlistarstyrkja Rótarý 2023 eru þeir Flemming Viðar Valmundsson, harmóníkuleikari og Guðbjartur Hákonarson fiðluleikari. Afhenti Bjarni Kr. Grímsson, Flemming Viðari, viðurkenningarskjal sem staðfestingu á styrknum en Guðbjartur átti ekki heimangegnt vegna anna og verður honum afhent viðurkenningarskjalið við annað tækifæri.

Flemming

Flemming Viðar Valmundsson, harmónikuleikari, annar styrkþega Tónlistarsjóðs Rótarý 2023, flutti þá 1. hluta harmónikusónötu nr. 1 eftir Kalevi Aho, sem er sögð erfiðasta verk sem samið hefur verið fyrir harmóniku.

Tónleikunum lauk svo með flutningi Flemmings Viðars á 1. hluta Sembalkonserts nr. 1 eftir J.S. Bach og lék Lára Bryndís með honum á orgel kirkjunnar.

texti

Í lokin fengu flytjendur góðar þakkir og blómvendi og hátíðinni lauk svo á skemmtilegan hátt er flytjendur og tónleikagestir sameinuðust í söng og sungu lag Valgeirs Guðjónssonar við Vikivaka Jóhannesar úr Kötlum (Sunnan yfir sæinn).

Flemming Viðar Valmundsson harmónikuleikari,
styrkþegi Tónlistarsjóðs Rótarý 2023

Flemming Viðar Valmundsson

Flemming Viðar stundar meistaranám í harmónikuleik við Konunglega danska tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn eftir að hafa lokið þaðan bakkalárprófi árið 2020. Hann lýkur meistaraprófi í vor en stefnir á framhaldsnám. Flemming hóf að læra á harmóniku 8 ára gamall hjá Guðmundi Samúelssyni í Tónlistarskóla Grafarvogs og stundaði það nám í tíu ár. Að því loknu var hann tvö ár í Tónskóla FÍH. Flemming hefur verið í ýmsum hljómsveitum, leikið með stórsveitum, minni kammerhópum og djasskvartettum og tekið þátt í fjölda leiksýninga. Hann var valinn til að spila einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands í tónleikaröðinni „Ungir einleikarar“ árið 2020 með glæsilegum árangri. Aðalkennarar hans í danska tónlistarháskólanum eru hinir heimsþekktu harmónikuleikarar Geir Draugsvoll og Andreas Borregaard. Flemming hefur tekið átt í alþjóðlegum tónlistarkeppnum harmónikuleikara og hafnað í verðlaunasætum í tvígang í keppninni PIF Castelfidardo á Ítalíu 2018 og 2020 og einnig í Vilnius keppninni í Litháen. Hann hefur haldið einleikstónleika af ýmsu tagi á námsárunum í Kaupmannahöfn og ma. flutti hann harmónikukonsert James Black SPEAK með DKDM Sinfóníetta í Kaupmannahöfn í fyrra.

Guðbjartur Hákonarson – Ljósmynd © Álfheiður Erla Guðmundsdóttir

Guðbjartur Hákonarson fiðluleikari,
styrkþegi Tónlistarsjóðs Rótarý 2023

Guðbjartur stundar meistaranám í fiðluleik við Konunglega danska tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn hjá hinum margverðlaunaða fiðluleikara Peter Herresthal. Áður hafði hann lokið bakkalárnámi frá Indíana University, Jacobs School of Music, í Bandaríkjunum, þar sem kennarar hans voru Sigurbjörn Bernharðsson og Prof. Mauricio Fuks. Guðbjartur hefur komið fram sem einleikari og kammermúsíkflytjandi víðsvegar um Bandaríkin og á nokkrum stöðum í Evrópu, ma. öllum Norðurlöndunum. Í Kaupmannahöfn hefur hann samhliða náminu spilað með hljómsveit Konunglegu dönsku óperunnar, bæði sem fiðlu- og víóluleikari. Hann hefur einnig lagt stund á barrokkfiðluleik hjá Stanley Richie. Í Bandaríkjunum stofnaði hann strengjakvartettinn Von sem spilað hefur víða þarlendis og unnið til fjölda verðlauna. Guðbjartur hefur spilað einleik með Sinfóníuhljómsviet Íslands, sem sigurverari í keppninni „Ungir einleikarar“. Hann er einn af stofnendum kammerhljómsveitarinnar Elju og 2021 hlaut hann Íslensku tónlistarverðlaunin með barokkbandinu Brák fyrir viðburð ársins í flokknum Sígild- og samtímatónlist: Brák og Bach. Hann er einnig víóluleikari Strengjakvartettsins Resonans í Kaupmannahöfn. Auk undirbúnings fyrir útskriftartónleika sína vinnur Guðbjartur nú að meistararitgerð sinni sem fjallar um tónlist og taugavísindi.

Myndasýning:

Tónlistarstyrkir Rótarý

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum