Það var mál manna að sérlega vel hefði til tekist við skipulagningu og framkvæmd 73. umdæmisþings Rótarý, sem haldið var á Hótel Selfoss sl. föstudag og laugardag. Rkl. Selfoss, forystufólk klúbbsins og undirbúningsnefndin hlutu miklar þakkir fyrir vel unnið starf.
Rúmlega 170 rótarýfélagar og makar voru mættir á Selfossi síðdegis á föstudag þegar Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar, tók á móti gestum í móttöku í boði bæjarstjórnarinnar. Að henni lokinni var gengið í fundarsal, þar sem Garðar Eiríksson, umdæmisstjóri og félagi í Rkl. Selfoss, setti þingið og fagnaði þingfulltrúum og öðrum gestum en síðan setti forseti klúbbsins Sædís Íva Elíasdóttir rótarýfund.
Óli Þ. Guðbjartsson, fyrrum dómsmálaráðherra og félagi í Rkl. Selfoss, flutti fróðlegt erindi um sögu klúbbsins, sem er 70 ára á þessu ári. Óli fjallaði um helstu þætti í starfi hans og minntist sérstaklega á tengsl klúbbsins við Tónlistarskólann, sem hann hefur stutt frá upphafi. Óli gat þess einnig að fjöldi gesta sækti klúbbinn heim og rifjaði upp í því sambandi einkunnarorð þingsins: „Byggjum brýr – tengjum fólk“. Þau minntu líka á mikilvægi hinnar fyrstu Ölfusárbrúar, sem smíðuð var 1891 og uppbyggingu Selfoss sem blómlegs byggðarlags og alhliða þjónustumiðstöðvar til að mæta hinum fjölbreyttu þörfum samfélagsins.
Fyrir hönd alþjóðaforseta Rótarý Barry Rassin flutti Lena J. Mjerskaug, rótarýfélagi frá Enebakk í Noregi og leiðbeinandi Rótarý á svæðum 15 og 16, kveðjur og árnaðaróskir auk þess sem hún fjallaði um áhersluatriði í stefnuskrá alþjóðaforsetans. Susanne Gram-Hansen, København Grundtvig Rotary Klub og umdæmisstjóri í umdæmi 1470, sótti þingið sem fulltrúi norrænu umdæmanna. Hún sagði frá starfinu í sínu heimaumdæmi og sameiginlegum áhugamálum rótarýfólks m.a. hvernig unnt væri að gera þær nauðsynlegu breytingar á klúbbstarfinu sem breyttir tímar kalla á.
Þessu næst kynnti Garðar Eiríksson, umdæmisstjóri, Soffíu Gísladóttur, Rkl. Akureyrar, en hún hefur verið tilnefnd umdæmisstjóri 2020 -2021. Soffía tók formlega við útnefningunni og hélt síðan stutta og skemmtilega ræðu þar sem hún gerði grein fyrir störfum sínum og einnig ættartengslum til Suðurlands að hætti Íslendinga þegar þeir koma úr heimahögum í aðra landshluta, eins og hún útskýrði. Var Soffíu vel fagnað.
Inni á milli atriða í fundardagskránni skemmti óperusöngkonan Arndís Halla gestum með glæsilegum söng sínum við undirleik Ingimars Pálssonar. Blandaður kór undir stjórn Hilmars Arnars Agnarssonar flutti einnig fjölbreytt söngatriði og bauð öllum viðstöddum til fjöldasöngs í verki þeirra Sigvalda Kaldalóns og Gríms Thomsens „Á Sprengisandi“. Var þá hraustlega tekið undir.