Tónlistarstyrkir Rótarý 2022 voru afhentir á tónleikum, sem haldnir voru í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði sl. sunnudag. Styrkina hlutu Sólveig Vaka Eyþórsdóttir, fiðluleikari, sem er við meistaranám í Leipzig í Þýskalandi og Alexander Smári Edelstein, píanóleikari, sem stundar meistarnám í Maastricht í Hollandi. Hvor styrkur nemur 800.000 krónum. Annan styrkinn veitir Rótarýumdæmið á Íslandi og Rótarýklúbbur Héraðsbúa hinn.Hlín Pétursdóttir Behrens, söngkona, rótarýfélagi og kennari við tónlistarskólana á Fljótsdalshéraði, annaðist undirbúning dagskrárinnar og kynnti í upphafi Stefán Baldursson, formann stjórnar Tónlistarsjóðs Rótarý. Hann rakti sögu tónlistarstyrkja Rótarý, sem úthlutað hefur verið árlega síðan 2005 og hafa 30 ungir listamenn hlotið þá. Stefán fagnaði því að tónleikar Rótarý og verðlaunafhending færu að þessu sinni fram á Austurlandi, á heimasvæði núverandi umdæmisstjóra Rótarý á Íslandi, Ásdísar Helgu Bjarnadóttur.
Í ávarpsorðum af þessu tilefni sagði Ásdís Helga: „Það er með ákveðnu stolti sem við í Rótarý á Íslandi veitum hvatningu og stuðning við framúrskarandi tónlistarfólk, sem vill gera tónlistarflutning að sínu framtíðarstarfi. Tónlistarsmekkur er persónubundinn en fagmennska og framsetning er ávallt metin. Lifandi flutningur er einstakur og skapar magnað andrúmsloft milli flytjenda og hlustanda. Rótarýhreyfingin býður því til tónleika eins og áður, nú í fyrsta skipti á Austurlandi og í fyrsta skipti í gegnum streymisveitu, þannig að rótarýfélagar um allan heim fái notið. Góðar óskir til tónlistarstyrkhafa Rótarý 2022.“
Þau Sólveig Vaka og Alexander Smári komu fram og léku einleik á sín hljóðfæri, fiðlu og píanó, verk eftir J.S. Bach og F. Schubert. Auk þess fluttu þau saman verk eftir Tchaikovsky. Ungu tónlistarmönnunum var mjög lofsamlega tekið með langvarandi lófataki.
Í ávarpsorðum sínum sagði Sveinn Jónsson, forseti Rótarýklúbbs Héraðsbúa: „Hefð hefur skapast fyrir því að styrkþegarnir komi fram á árlegum tónleikum Rótarýhreyfingarinnar og eru tónleikarnir nú í umsjón Rótarýklúbbs Héraðsbúa í samstarfi við listhópinn Austuróp. Auk styrkþeganna koma í dag fram tónlistarmenn, sem starfa á Austurlandi og Norðurlandi.Í Rótarýtónleikunum felst mikilvæg kynning á starfi Rótarýklúbbanna en ekki síður á byggðarlagi okkar og Tónlistarmiðstöð Austurlands.“
Á seinni hluta tónleikanna komu fram fjórir söngvarar af Austurlandi og Norðurlandi, þau Hlín Pétursdóttir Behrens, sópran, Erla Dóra Vogler, messósópran, Árni Friðriksson, tenór og Valdimar Hilmarsson baritónn. Á píanóið léku Helena Guðlaug Bjarnadóttir og Daníel Þorsteinsson. Hlín Pétursdóttir Behrens annaðist leikstjórn og umsjón. Flutt var verkið Ástarsöngva valsar, Liebeslieder Walzer, op. 52 eftir J. Brahms, í 18 stuttum atriðum. Áheyrendur klöppuðu listafólkinu lof í lófa fyrir góðan söng og skemmtilega leikræna túlkun.
Texti og myndir: Markús Örn Antonsson.