Mánudagur, maí 20, 2024

Við áramót

Ágætu Rótarýfélagar;

Við áramót horfum við gjarnan til baka, veltum fyrir okkur hverju við höfum áorkað og hvað hefði betur mátt fara. Ekki er óalgengt að við setjum okkur markmið fyrir komandi ár og strengjum þess heit að verða betri manneskjur. Það er nokkuð ljóst að við breytum ekki fortíðinni en við getum sannarlega haft áhrif á framtíðina.

Eitt af markmiðum Rótarýhreyfingarinnar er að láta gott af sér leiða. Við Rótarýfélagar á
Íslandi og um allan heim leggjum okkur fram alla daga við að uppfylla það markmið með
einum eða öðrum hætti.

Rótarýhreyfingin, ein virtasta og öflugasta góðgerðarhreyfing í heiminum, hefur látið til sín taka svo eftir er tekið á mörgum sviðum og skipt þar verulegu máli. Við höfum t.d. lagt
áherslu á að allir hafi aðgang að menntun, að heilbrigðþjónustu og hreinu vatni. Við höfum
einnig lagt okkar lóð á vogarskálarnar í baráttunni fyrir friði í heiminum.

En þegar litið er út í hinn stóra heim, koma því miður ýmsar og oft miður fallegar myndir upp í hugann. Stríð í Úkraínu, hörmungar fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem börn og saklaust fólk eru fórnarlömb mikilla grimmdarverka. Þá taka náttúruhamfarir sinn toll, víða er fólk á flótta sem á í engin hús að venda, þá er fátækt og sjúkdómar að ræna milljónum manna framtíð og von um betra líf.
Þegar horft er til baka hér á heimaslóðum er það umræðan um háa vexti sem hefur átt hug okkar allan. Þrátt fyrir það ferðumst við sem aldrei fyrr til heitari landa og gerum okkur dagamun svo um munar. Við setjum samfélagið nær á hliðina eftir niðurstöður Pisa könnunar, sem er engin heilög mælistika og má lesa allskonar úr. Ég held því fram eins og fleiri að við eigum frábært og efnilegt ungt fólk hér á landi sem verður fullfært um að taka við keflinu þegar að því kemur.

Vissulega eru til einstaklingar og hópar hér á landi sem hafa það miður gott og á því verðumvið að taka. Á Íslandi ætti fátækt ekki að finnast og allir ættu að hafa þak yfir höfuðið.

Við Íslendingar getum svo sannarlega sýnt samhug og staðið saman sem einn maður þegar á þarf að halda. Það hefur sýnt sig m.a.þegar náttúruhamfarir hafa dunið yfir. Þá sýnum við úr hverju við erum gerð og að það er gott í okkur öllum.

Mig langar að hvetja til þess að við förum jákvæð inn í nýtt ár, verum góðar fyrirmyndir,
setjum okkur skynsamleg markmið og látum gott af okkur leiða.

Ég þakka þeim fjölmörgu Rótarýklúbbum sem ég hef nú þegar heimsótt fyrir góðar og afar hlýjar móttökur og hlakka til að hitta þá sem eftir eru á næstunni.

Ég óska Rótarýfélögum og fjölskyldum gleðilegs árs.

Ómar Bragi Stefánsson
umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi.

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum