Í ársskýrslu íslenska Rótarýumdæmisins, sem Garðar Eiríksson, fráfarandi umdæmisstjóri, lagði fram og kynnti á umdæmisþinginu í Kópavogi, kemur fram að alls hafi framlög íslensku rótarýklúbbanna og einstakra félaga til Rótarýsjóðsins, Rotary Foundation, á starfsárinu 2018-19 numið 41.672 USD, þar af í Annual Fund 27.548 USD og í Polio Plus 14.124 USD.
Á umdæmisþinginu afhenti Garðar fánaviðurkenningar alþjóðaforseta Rótarý fyrir hæstu framlög klúbba í Rótarýsjóðinn, Annual Fund, 2018-2019. Rkl. Keflavíkur hlaut heiðursviðurkenningu fyrir að hafa gefið 100 USD fyrir hvern félaga í klúbbnum auk einstalingsbundinna framlaga klúbbfélaga að upphæð 100 USD eða meira. Aðrir klúbbar í efstu sætum, með 100 USD á hvern félaga eða meira, voru: Rkl. Reykjavík Grafarvogur í 1. sæti, Rkl. Reykjavík Breiðholt í 2. sæti og Rkl. Akureyrar í 3. sæti.
Þá voru ennfremur veittar viðurkenningar fyrir framlög til Polio Plus sjóðsins. Klúbbarnir sem lögðu mest af mörkum til hans voru Rkl. Borgir Kópavogi í 1. sæti, Rkl. Keflavíkur í 2. sæti og Rkl. Selfoss í 3. sæti.