Hátíðartónleikar Rótarý voru haldnir í Salnum í Kópavogi í dag og var uppselt.
Þar fengu þær Ásta Dóra Finnsdóttir, píanóleikari og Helga Diljá Jörundsdóttir, fiðluleikari afhenta styrki úr Tónlistarsjóði Rótarý á Íslandi en hvor styrkur er ein milljón krónur.

Víkingur Heiðar Ólafsson, fyrsti styrkþegi Tónlistarstjóðsins árið 2005, afhenti styrkina og hóf tónleikana með því að leika verk eftir Bach á nýja flygilinn í Salnum við mikinn fögnuð gesta.

Á hátíðartónleikunum komu fram, ásamt Helgu Diljá og Ástu Dóru, þau Jóna G. Kolbrúnardóttir, sópran og styrkþegi 2018, Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir, sellóleikari og styrkþegi 2018, og Guðbjartur Hákonarson, fiðluleikari og styrkþegi 2023. Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari lék með þeim.

Tilgangur sjóðsins er að styðja ungt tónlistarfólk sem hefur skarað fram úr á sínu sviði og veita því viðurkenningu í formi styrks til framhaldsnáms. Umsóknir í sjóðinn eru jafnan margar ár hvert, en aðeins er unnt að styrkja tvo umsækjendur árlega.

Ásta Dóra Finnsdóttir (19) hefur stundað píanónám við Curtis Institute of Music í Fíladelfíu síðan í haust, en hún hafði sótt um í fimm háskólum og verið samþykkt í þeim öllum, m.a. Juilliard.
Ásta Dóra hóf nám fjögurra ára gömul skv. Suzuki aðferðinni og stundaði það til ellefu ára aldurs. Þá nam hún hjá Marinu Pliassovu í Barratt Due tónlistarskólanum í Ósló, en jafnhliða hjá Peter Máté í Menntaskóla í tónlist, þaðan sem hún útskrifaðist sem dúx í maí síðastliðnum.
Ásta Dóra hefur tekið þátt í ýmsum keppnum, nú síðast í sumar í Samson François International Competition í Nice, Frakklandi, þar sem hún sigraði í sínum aldursflokki.
Ása Dóra lék á hátíðartónleikum Rótarý árið 2018, þá 11 ára gömul.

Helga Diljá Jörundsdóttir (21) stundar nú nám á öðru ári við hinn virta Konunglega tónlistarháskóla í Kaupmannahöfn.
Hún hóf sömuleiðis nám fjögurra ára gömul skv. Suzuki aðferðinni, en 14 ára gömul var hún valin til að taka þátt í Hljómsveitarstjóra-akademíu Sinfóníuhljómsveitarinnar. Jafnframt lauk hún burtfararprófi frá Menntaskóla í tónlist vorið 2023 hjá Auði Hafsteinsdóttur, með hæstu einkunn á framhaldsprófi, eða 9,8 og og lauk síðan diplómanámi í fiðluleik frá Listaháskólanum.
Helga Diljá hefur tekið þátt í ýmsum viðburðum og keppnum, m.a. var hún ein af sigurvegurum Ungra einleikara 2024. Þá hefur hún komið víða fram á vegum Voksenåsen Academy Talent Program.







