Í gær, á alþjóðlegum degi sjálfboðaliðans, tilkynnti Rotary International um skipun Soffíu Gísladóttur í stjórn RI frá 1. júlí 2026 – 30. júní 2028. Hún tekur sæti í stjórn sem fulltrúi svæða 17 og 18, sem eru Norðurlöndin, ásamt Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum, Eistrasaltsríkin, Pólland og Rússland. Soffía er fyrst íslenskra kvenna til að taka sæti í stjórn Rotary International, þessum mikilvægu mannúðarsamtökum sem telja 1,2 milljónir félaga um heim allan.
Soffía er þriðja í röð Íslendinga til að taka sæti í þessari stjórn, en Helgi Tómasson læknir sat í stjórn 1950 og Ómar Steindórsson, í Rótarýklúbbi Keflavíkur, sat í stjórn Rotary International á árunum 2002-2004. Soffía segist mjög þakklát og hrærð yfir þessari virðingu sem henni er sýnd og og að hún muni gera sitt allra besta til að halda áfram að þróa Rótarý, þessi 119 ára virðingarverðu samtök, inn í framtíðina, ásamt öðrum frábærum alþjóðlegum sjálfboðaliðum.
Rótarýhreyfingin á Íslandi óskar Soffíu hjartanlega til hamingju með þennan heiður og góðs gengis í þessu hlutverki enda hefur hún sýnt það og sannað að hún er vakin og sofin yfir velferð Rótarý.