Föstudagur, 24. október 2025
HeimFréttirLömunarveiki og útrýming hennar er stærsta mannúðarverkefni Rótarýhreyfingarinnar  

Lömunarveiki og útrýming hennar er stærsta mannúðarverkefni Rótarýhreyfingarinnar  

Lömunarveiki, eða mænusótt (poliomyelitis, oft stytt í polio), er veirusjúkdómur sem getur haft mjög alvarlegar afleiðingar, þar sem hann getur ráðist á taugakerfið og valdið varanlegri lömun, jafnvel dauða. Flestir sem smitast fá þó væg eða engin einkenni, en í alvarlegum tilfellum ræðst veiran á hreyfitaugafrumur í mænu og veldur lömun í útlimum. Veiran smitast helst með saur-munn leið — það er, með menguðu vatni eða mat. Því er sjúkdómurinn sérstaklega útbreiddur þar sem hreinlæti og aðgangur að hreinu vatni er takmarkaður, t.d. á stríðshrjáðum svæðum. 

Alþjóðlegi lömunarveikidagurinn er í dag 

Bóluefni gegn lömunarveiki var eitt mikilvægasta framfaraskref í læknisfræði 20. aldarinnar. Fyrsta árangursríka bóluefnið var þróað af Jonas Salk árið 1955 og var gefið í sprautuformi. Nokkrum árum síðar þróaði Albert Sabin bóluefni sem var tekið inn um munn sem auðveldaði útbreiðslu bólusetninga á heimsvísu. Þessi tvö bóluefni hafa saman gert það að verkum að lömunarveiki hefur horfið úr flestum löndum heims.  

Alþjóðlegi lömunarveikidagurinn (World Polio Day) er haldinn ár hvert þann 24. október til að minna á baráttuna gegn lömunarveiki (polio) og heiðra þau ótrúlegu framfaraskref sem náðst hafa í að útrýma sjúkdómnum.  

Færri vita að Rótarýhreyfingin hefur átt gríðarlega stóran og áhrifaríkan þátt í alþjóðlegri baráttu gegn lömunarveiki. Frá því á áttunda áratug síðustu aldar hefur hún verið einn helsti drifkrafturinn á bak við bólusetningaherferðir sem hafa fækkað tilfellum sjúkdómsins um meira en 99% á heimsvísu. Verkefnið er eitt umfangsmesta og langvinnasta mannúðarverkefni í sögu Rótarý. 

PolioPlus átak Rótarý hófst 1985 

Upphaf baráttunnar má rekja til ársins 1979, þegar Rótarýhreyfingin hóf tilraunaverkefni í Filippseyjum í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld þar. Markmiðið var að bólusetja öll börn gegn lömunarveiki á ákveðnum svæðum. Verkefnið gekk vonum framar og sýndi að hægt væri að stöðva útbreiðslu sjúkdómsins með samstilltu átaki. Þetta varð hvati að stærra framtaki, PolioPlus, sem Rótarý setti af stað árið 1985. Þar var sett metnaðarfullt markmið: að útrýma lömunarveiki úr öllum heiminum. Til að ná því var komið á samstarfi og samhæfðum vinnubrögðum við helstu alþjóðastofnanir, þar á meðal Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO), Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og Bandarísku sóttvarnastofnunina (CDC). Árið 1988 varð þessi samvinna að Global Polio Eradication Initiative (GPEI), þar sem Rótarý var stofnaðili og lykilstyrktaraðili. Þá voru hundruð þúsunda barna greind með sjúkdóminn ár hvert. 

Með markvissum bólusetningum hefur tilfellum á heimsvísu fækkað um yfir 99%. Í dag er sjúkdómurinn aðeins enn landlægur í örfáum löndum, einkum Afganistan og Pakistan. 

Útrýming lömunarveiki hefur þó ekki verið auðveld og verkefninu hefur miðað hægar en vonir stóðu til í upphafi. Stríðátök, trúarkreddur og tortryggni gagnvart bólusetningum hafa torveldað bólusetningarstarfið með þeim afleiðingum að veiran finnur sér ný fórnarlömb. Í sumum tilvikum hafa heilbrigðisstarfsmenn jafnvel orðið fyrir árásum.  

Veiran getur auðveldlega dreifst á ný ef slakað er á bólusetningum 

Markmiðið um algjöra útrýmingu lömunarveiki er þó enn raunhæft. Alþjóðlegi lömunarveikidagurinn er ekki aðeins tækifæri til að fagna árangrinum sem hefur þegar náðst, heldur einnig til að minna á að verkefninu er ekki lokið. Þó að aðeins örfá lönd glími enn við villtu veiruna getur hún auðveldlega dreifst á ný ef slakað er á bólusetningum. Þess vegna er þessi dagur mikilvægt hvatningartæki til að viðhalda fjármagninu, fræðslunni og samstarfinu sem þarf til að tryggja fulla útrýmingu sjúkdómsins. Með áframhaldandi bólusetningum, alþjóðlegri samvinnu og aukinni fræðslu má koma í veg fyrir að veiran nái að dreifa sér aftur. Það væri stórsigur fyrir mannkyn og sýndi skýrt hversu öflugar forvarnir og bólusetningar eru í baráttunni gegn smitsjúkdómum. 

 

Magnús Gottfreðsson, Anna Stefánsdóttir og Sigríður Björk Gunnarsdóttir

Magnús Gottfreðsson,
smitsjúkdómalæknir og félagi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur, formaður Polio nefndar Rótarý á Íslandi. 

Anna Stefánsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og félagi í Rótarýklúbbnum Borgum, Kópavogi. 

Sigríður Björk Gunnarsdóttir,
umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi 2025-2026  og félagi í Rótarýklúbbnum Hofi, Garðabæ. 

Þú getur lagt lið!

www.endpolio.org/donate

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum