Árlegir Hátíðartónleikar Rótarý voru haldnir í Salnum í Kópavogi 1. mars sl.
Markmið með tónleikunum er að kynna þá sem hljóta Tónlistarstyrki Rótarý, eiga skemmtilega stund og um leið afla tekna fyrir Tónlistarsjóð Rótarý.

Í ár var undirbúningur í höndum Rótarýklúbbs Reykjavíkur og framkvæmdastjóri tónleikanna var Kjartan Óskarsson, sem jafnframt var kynnir kvöldsins og sagði skemmtilega frá verkunum.

Á fyrri hluta tónleikanna komu fram þrír ungir listamenn sem eiga það sameiginlegt að hafa allir hlotið styrk úr sjóðnum. Þetta eru þau Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir, sellóleikari, Guðbjartur Hákonarson fiðlu- og víóluleikari og Bryndís Guðjónsdóttir sópransöngkona. Með þeim leikur Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari sem er tónleikagestum að góðu kunn því hún hefur á undanförnum árum komið fram á þessum tónleikum.
Leikar hófust í Vínarborg en þar fæddist undir lok 18. aldar tónskáldið Franz Schubert, sem bjó og starfaði allan sinn aldur í sinni heimaborg og fór varla af bæ það heitið getur en hann lést í Vín 1828, 31 árs að aldri.

Tónleikarnir byrjuðu með glæsibrag, með hægum þætti, Andante con moto úr tríói í Es-dúr fyrir fiðlu, selló og píanó D-929. En tríóið samdi Schubert í nóvembermánuði árið 1827.
Næst flutti Guðbjartur Hákonarson lokaþátt Chaconne í d-moll úr partítu fyrir einleiksfiðlu eftir Johann Sebastian Bach. Þessi Chaconne er af mörgum talin vera ein stórkostlega tónsmíð sem samin hefur verið fyrir einleiks fiðlu en talið er að verkið hafi verið samið á árabilinu 1717-1720. Flutti hann verið á víólu, magnaður flutningur.

Þá kom sópransöngkonan Bryndísar Guðjónsdóttur fram á sviðið og söng Klänge der Heimat úr Leðurblökunni eftir Johann Strauss II. Þessi óperetta er talin hápunktur þess tímabils sem kallað hefur verið gullöld óperettunnar og er vafalaust eitt þekktasta og vinsælasta verk höfundar, að Dónárvalsinum kannski undanskildum.

Næst fluttu þær Heia, in den Bergen úr „Die Czárdasfürstin“ eftir ungverska tónskáldið Emmerich Kálmán við undirleik Helgu Bryndísar. Það má líka nefna hér að lagið „Ég er kominn heim“ sem einhverjir telja að sé eftir íslenskan lagasmið og landinn kyrjar gjarnan á íþrótta kappleikjum okkar liðum til hvatningar og stuðnings, er úr óperettunni „Litla fjólan frá Monmartre“ sem Kálman samdi árið 1930 og þar heitir lagið Heut’ nacht hab’ ich geträumt von dir eða „Í nótt dreymdi mig þig“. Það var engin lognmolla á sviðinu, líflegur og glæsilegur söngur.

Þá var komið að hléi og tónleikagestir fengu tækifæri á að fá sér hressingu, hitta fólk og fagna góðu tónlistarfólki.
Hjörtur Páll Eggertsson og Kristín Ýr Jónsdóttir hlutu Tónlistarstyrkina

Stefán Baldursson, formaður stórnar Tónlistarsjóðs Rótarý, afhenti eftir hlé Tónlistarstyrki Rótarý, Þeir voru tveir styrkirnir eins og oft undanfarin ár.

Í ár voru styrkþegarnir þau Hjörtur Páll Eggertsson, sellóleikari (27) sem stundar nú meistaranám í hljómsveitarstjórn við Tónlistarháskólann í Amsterdam, og Kristín Ýr Jónsdóttir, flautuleikari (26) er í tveggja ára einleikaranámi í Árósum.
Styrkirnir í ár er einkar glæsilegir, ein milljón krónur hver. Fengu þau innrammað verðlaunaskjal til staðfestingar.

Þá var komið að styrkþegunum að sýna hvað í þeim býr, Kirstín Ýr flutti tvo þætti, Allegro malinconico og Cantilena úr flautusónötu sem Poulenc samdi á árunum1956-57 og hefur fyrir löngu öðlast fastan sess á verkalista allra flautuleikara. Lék Helga Bryndís undir á píanó.

Hjörtur Páll flutti einleikssónötu eftir danska tónskáldið Hans Abrahamsen, Hymne og Storm og stille sem var frumflutt árið 1988.

Að lokum fluttu þau Kristín Ýr, Hjörtur Páll og Helga Bryndís Tríó í e-moll, op. 45 eftir franska tónskáldið Louise Farrenc, Allegro deciso.

Var komið að lokum tónleikanna og þakkaði Jón Karl Ólafsson fyrir glæsilega tónleika.
Margir misstu af frábærum tónleikum
Það var greinilegt að margir misstu af frábærri skemmtun og eyrnarkonfekti sem þessir tónleikar voru en töluvert vantaði upp á Salurinn færi þéttsetinn. Verði þetta áframhaldið gæti framtíð Tónlistarstyrkjanna verið í húfi.
Styrkþegarnir
HJÖRTUR PÁLL EGGERTSSON lærði frá unga aldri á selló hjá Sigurgeiri Agnarssyni en fór svo til háskólanáms í Konunglega danska Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn, þaðan sem hann lauk meistaragráðu.
Á námsárum sínum tók hann virkan þátt í tónlistarlífi bæði á Íslandi og í Danmörku. Hann var einn af sigurvegurum Ungra einleikara árið 2019 og lék einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Hann hefur komið fram á fjölda tónlistarhátíða og tónleikaraða. Að loknu meistaranámi og starfi við sellóleik hóf Hjörtur nám í hljómsveitarstjórn og var einn sex nemenda sem komust inn í Malko stjórnenda-akademíuna sem starfar í samvinnu við Sinfóníuhljómsveit danska útvarpsins. Hann naut kennslu bæði Herbert Blomstedt og Fabio Luisi í hljómsveitarstjóranáminu og útskrifaðist sem hljómsveitarstjóri 2022.
Hjörtur stundar nú meistaranám í hljómsveitarstjórn við Tónlistarháskólann í Amsterdam.
KRISTÍN ÝR JÓNSDÓTTIR gekk átta ára til liðs við Lúðrasveit Miðbæjar og Vesturbæjar og fékk þar í hendurnar það hljóðfæri sem hún hefur ekki skilið við síðan, þverflautuna. Að loknu stúdentsprófi hélt hún til Danmerkur í bakkalárnám í þverflautuleik.
Kristín hefur tekið þátt í alþjóðlegum keppnum og námskeiðum, þ.á.m. alþjóðlegri flautukeppni í Bergen ‘20 þar sem hún spilaði til úrslita og alþjóðlegri flautukeppni í Hollandi 2021.
Hún kemur reglulega fram með sinfóníuhljómsveitum víða á Norðurlöndum og tvisvar hefur hún komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, í annað skiptið eftir að hafa borið sigur úr býtum í einleikarakeppninni Ungir einleikararar 2020. Sama ár stofnaði Kristín ásamt fjórum vinum blásara- kvintettinn Vindtro, sá kvartett hefur tvívegis unnið fyrstu verðlaun í alþjóðlegri keppni, annars vegar árið 21 og hinsvegar unnu þau alþjóðlegu Mozart/Salzburg kammermúsíkkeppnina í Tókíó 2024. Auk þess hlaut kvintettinn hin virtu Sonning verðlaun í Danmörku 2024.
Kristín er enn að bæta við sig og er nú í tveggja ára einleikaranámi í Árósum.
Myndbrot frá tónleikunum