Miðvikudagur, 19. febrúar 2025
HeimFréttirKlúbbafréttirRótarý-næturklúbburinn

Rótarý-næturklúbburinn

Rótarýklúbburinn Straumur er „Klúbbur í kastljósi“

„Að vera búinn að fara á fund, þar sem morgunmatur var í boði, spjalla við félagana og hlýða á fróðlegt erindi, strax kl. 8 að morgni er kannski ekki fyrir alla og var þetta nokkuð átak fyrir mig enda ég ekki A-maður. Ég sagði félögum mínum að ég hafi flutt mig úr hádegisklúbbi í næturklúbb!,“ segir Guðni Gíslason, félagi í Rótarýklúbbnum Straumi frá 2019 en rótarýfélagi frá 1996.

Klúbbfélagar við stofnun klúbbsins 1997

Rótarýklúbburinn Straumur í Hafnarfirði var stofnaður 5. júní 1997 og var móðurklúbbur Hans hinn rúmlega hálfraraldar gamli en öflugi Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar. Hvatamaður að stofnun hans var félagi í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar, Gísli Jónsson, faðir Guðna, sem vildi stofna klúbb þar sem væri jöfn blanda karla og kvenna. Fjórir félagar í móðurklúbbnum gengu í hinn nýja klúbb en aðrir voru nýir rótarýfélagar.

Í dag eru 26 félagar í klúbbnum og ávallt hefur verið haft að leiðarljósi að hafa nokkuð jafnt hlutfall karla og kvenna í klúbbnum.

Hvatningarverðlaun Straums

Eitt af verkefnum klúbbsins hefur verið að veita árleg Hvatningarverðlaun Straums. Veturinn 2008 ákváðu klúbbfélagar að efna til hvatningarverðlauna og skyldu hvatningarverðlaunin afhent þeim aðila eða aðilum, sem klúbbfélögum þættu hafa gengið skrefi framar en aðrir í viðleitni sinni til að láta gott af sér leiða í Hafnarfirði og vera öðrum fyrirmynd og hvatning.

Halldór Árni Sveinsson var handhafa Hvatningarveðlauna Straums 2024.

Markmið hvatningarverðlaunanna er bæði að benda á það sem vel er gert og að hvetja aðra til dáða, hvern á sínu svið eða sínum stað í mannlífinu. Hvatningarverðlaunin endurspegla þannig hugsjón Rótarý sem felst í fjórprófinu: 

  • Er það satt og rétt?
  • Er það drengilegt?
  • Eykur það velvild og vinarhug?
  • Er það öllum til góðs?

Hafa ýmsir einstaklingar og samtök fengið verðlaunin.

Skógrækt í Langholti

Svæðið hefur verið merkt með svona skiltum og QR kóðinn vísar á síðu á vef klúbbsins.

Laugardaginn 10. júní 2023 tók Rótarýklúbburinn Straumur formlega að sér trjátæktun á landnemaspildu í Langholti, skammt sunnan Hvaleyrarvatns. Var samningur gerður við Skógræktarfélag Hafnarfjarðar um landnemaspilduna.

Hluti af skógræktarsvæðinu

Keyptar voru 98 plöntur af skógræktinni en verkefnið er styrkt af  Verkefnasjóði Rótarý.

Hafist var handa í blíðskaparveðri. Rótarýfélagar hófu starfið með öflugu liði maka, barna og barnabarna og var öllum trjánum plantað. Alls 29 enduðu daginn með pylsuveislu í Skátalundi við Hvaleyrarvatn, örskammt frá skógræktarsvæðinu.

Skógræktardagurinn er orðinn að árlegum viðburði, okkur og fólkinu okkar till gleði og til gagns fyrir samfélagið. Hugmyndir að að gera þarna góða aðstöðu til útivistar, með stígum og bekkjum. Svæðið hefur Þegar verið afmarkað með stikum merktum klúbbum en spildan er um 3,3 ha svo nóg verður að gera næstu ár.

Hinn almenni klúbbfundur

Sennilega telst Straumur vera klúbbur í óformlegri kantinum, en félagar bera þó barmmerki með nafni sínu og merki klúbbsins og slegið er í bjöllu í upphafi fundar. Þá er farið með fjórprófið í lok fundar en það er þó frekar nýr siður í klúbbnum.

Fundað er í safnaðarheimili Fríkirkjunnar í Hafnarfirði, uppi lofti undir súð. Hún Ísabella sér um morgunmatinn fyrir okkur og getur líka gefið sér tíma til að setjast niður með prjónana og fylgjast með fundarefninu.

Hún Ísabella finnur til dýrindis morgunmat.

Nefndir klúbbsins skiptast á að sjá um að útvega fyrirlesara og yfirleitt er það ekki erfitt enda fæstir uppteknir kl. 7 á morgnana.

Í Covid tímanum voru fundir á Teams og það kenndi okkur að hægt er að fá fyrirlesara hvaðan sem er úr heiminum sem við höfum þó aðeins nýtt okkur einu sinni með góðum árangri.

Fundirnir standa frá kl. 7 til 8 og tekur fyrirlestur venjulega rúman hálftíma af því svo félögum gefst einnig kostur á að eiga góða samveru og spjalla sem er mikilvægur þáttur í starfinu.

Á klúbbfundi á loftinu í safnaðarheimili Fríkirkjunnar.

Það er metnaður í klúbbnum að efla starfið og samheldnina, fjölga félögum og láta gott af sér leiða.

Félagsstarfið

Ferða- og skemmtinefndin er iðin við að skipuleggja skemmtilega viðburði, utanlandsferðir og dagsferðir innanlands og makar taka virkan þátt. Í stað hefðbundinnar árshátíðar er klúbburinn með árlega forsetaveislu þar sem félagar og makar hittast heima hjá forsetanum, njóta góðra veitinga og ekki síst skemmtilegrar samveru.

Klúbbfélagar hafa tekið virkan þátt í hreinsun á Plokkdeginum og hafa þá ungir fjölskyldumeðlimir verið duglegir að koma með.

Vaskur hópur á Plokkdeginum 2024.

 

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum